Hreinsun 10–15 tonn af sjómettaðri olíu eru enn um borð í skipinu en bráðamengunarhætta er yfirstaðin.
Hreinsun 10–15 tonn af sjómettaðri olíu eru enn um borð í skipinu en bráðamengunarhætta er yfirstaðin. — Morgunblaðið/ÞÖK
LOKIÐ var síðdegis í gær við að dæla olíu úr tönkum flutningaskipsins Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes. Í skipinu er eftir olíublandaður sjór í lestarrými og hefur hann pumpast þangað úr rifnum botntönkum.

LOKIÐ var síðdegis í gær við að dæla olíu úr tönkum flutningaskipsins Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes. Í skipinu er eftir olíublandaður sjór í lestarrými og hefur hann pumpast þangað úr rifnum botntönkum. Áætlað magn þeirrar olíu sem þar er eftir er 10–15 tonn. Segir Umhverfisstofnun, að hreinsun olíunnar úr lestarrýminu kalli á annars konar aðgerðir og geti tekið nokkra daga en ekki sé lengur bráð hætta af olíunni sem eftir er í skipinu á meðan það stendur af sér veður og sjógang.

Olíudælingunni lauk kl. 15.45 í gær. Alls var dælt um 95 tonnum af olíu í land og var staðið sleitulaust við í 30 stundir. Umhverfisstofnun segir ljóst, að talsvert magn af olíu, 60–70 tonn, hafi farið í sjóinn þegar skipið strandaði en óveður og mikill sjógangur fyrstu sólarhringana eftir strandið hafi hjálpast að við að koma olíunni á haf út og brjóta hana niður. Lítil sjáanleg ummerki hafi fundist um olíumengun í fjörum í nágrenni við strandstaðinn og hafi tekist að langmestu leyti að koma í veg fyrir frekari olíuleka frá skipinu á strandstað.