Berdymukhammedov
Berdymukhammedov
Ashgabat. AFP. | Talið er víst að starfandi forseti, Gurbanguly Berdymukhammedov, verði kjörinn arftaki hins einvalda Saparmurats Niyazovs í Mið-Asíulandinu Túrkmenistan.

Ashgabat. AFP. | Talið er víst að starfandi forseti, Gurbanguly Berdymukhammedov, verði kjörinn arftaki hins einvalda Saparmurats Niyazovs í Mið-Asíulandinu Túrkmenistan. Niyazov, öðru nafni Turkmenbashi, lést nýlega eftir að hafa ríkt í 21 ár og hefur verið boðað til forsetakosninga í febrúar. Æðsta valdastofnun landsins, Þjóðarráðið, þar sem sitja 2.500 manns, breytti lögum á þriðjudag til að gera Berdymukhammedov kleift að bjóða sig fram en áður mátti starfandi forseti ekki vera í framboði.

Fimm aðrir verða í framboði og eru það lítt þekktir embættismenn sem ráðið valdi. Stjórnarandstæðingum, sem margir eru í útlegð, verður meinað að bjóða sig fram.

Arftakinn er 49 ára gamall, lærði á sínum tíma tannlækningar, varð heilbrigðisráðherra 1997 og síðar aðstoðarforsætisráðherra. Hann stýrði þá m.a. þeirri ráðstöfun Turkmenbashis að loka öllum spítölum í sveitum landsins. Yfirmaður kjörnefndar hét því að sögn BBC að "gera allt" til að tryggja sigur Berdymukhammedovs.