Kolbrún Agnarsdóttir fæddist í Hafnarfirði 28. ágúst 1954. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja föstudaginn 22. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigmundur Agnar Júlíusson, verkamaður og bóndi í Bursthúsum, f. í Fálkhúsum 10. desember 1903, d. 19. janúar 1979, og Kristín Ingibjörg Sigurðardóttir, húsfreyja, f. í Stekk við Hafnarfjörð 17. maí 1907, d. 17. júlí 1976. Móðurforeldrar Kolbrúnar voru Sigurður Magnússon, d. 18. september 1936, og Helga Eiríksdóttir, d. 22. desember 1944. Föðurforeldrar hennar voru Júlíus Helgason, d. 23. júní 1948, og Agnes Ingimundardóttir, d. 13. maí 1945. Kolbrún var yngst sex systra. Hinar eru: 1) Svanhildur Kjær, f. 28. janúar 1943, maki Stefán Haraldsson og eiga þau þrjár dætur og fjögur barnabörn. 2) Lilja Agnarsdóttir Lysaght, f. 10. febrúar 1946, maki Jerry Lysaght, þau eiga tvær dætur og sex barnabörn. 3) Helga Agnarsdóttir Kitzmiller, f. 17. desember 1947. Hún á eina dóttur. 4) Agnes Agnarsdóttir, f. 14. desember 1950, maki Gunnlaugur Karl Guðmundsson. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 5) Guðrún Ólöf Agnarsdóttir, f. 6. febrúar 1952, maki Baldur Sævar Konráðsson. Guðrún á einn son og eitt barnabarn.

Kolbrún eignaðist eina dóttur, Önnu Kristjönu, f. 22.2. 1973, barnsfaðir Egill Eyfjörð, f. 26. apríl 1952, og eitt barnabarn, Kolbrúnu Júlíu Guðfinnsdóttur Newman, f. 22.7. 1998.

Kolbrún ólst upp til 16 ára aldurs í Sandgerði, en hún flutti með fjölskyldu sinni að Sunnubraut 8 í Keflavík 1970. Hún bjó í Keflavík alla tíð síðan og síðustu árin að Vatnsholti 9b í Reykjanesbæ. Kolbrún vann skrifstofu- og stjórnunarstörf alla sín tíð, í 29 ár hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, og hjá Hagkaupum í fimm mánuði.

Útför Kolbrúnar verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.

Elsku mamma. Nú ertu farin frá og söknuðurinn er mikill. Margar minningar koma þó upp í hugann sem verða varðveittar í hjarta mínu, alltaf.

Ég er búin að hugsa svo mikið um allar útilegurnar okkar, sem við fórum yfirleitt þrjár saman í, ég, þú og gullið okkar, hún Kolbrún Júlía. Hringferðin um landið okkar fagra, hinir ýmsu staðir sem við stoppuðum á og svo Þingvellir þar sem við áttum alltaf góðar stundir. Við töluðum svo oft um hvað það væri gott að vera þar, hvað við værum í miklum tengslum við náttúruna þar. Margar minningar eru til staðar, þú varst svo dugleg að taka mig með í hinar ýmsu ferðir þegar ég var barn. Takk fyrir það. Takk fyrir allar minningarnar sem ég á núna, þær eru ómetanlegar.

Mamma mín. Þú kenndir mér svo ótal margt. Þú kenndir mér meðal annars að fjölskyldan var alltaf í fyrirrúmi, örlæti, væntumþykju og að vera trúr sjálfum sér. Takk fyrir það og allt hitt sem þú kenndir mér.

Þú hefur alltaf haft fulla trú á mér og hjálpað mér í gegnum tíðina, sýnt mér styrk þinn og staðfestu og umfram allt ást þína á mér og minni elskulegu dóttur. Þú dekraðir við okkur eins og þér var einni lagið. Ég sakna þess mikið, að hafa þig ekki ennþá til þess að dekra við okkur og styðja okkur í daglegu lífi. Ég sakna þess einnig að geta ekki talað við þig um daginn og veginn í gegnum símann eins og við gerðum oft. En við getum þó enn talað saman, bara á annan hátt.

Núna í dag ákvað ég að draga spjald úr "Orð Guðs til þín" úr Biblíunni og þar kom: "Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum." (Róm. 6:23)

Þetta eru sönn orð. Þú hefur hafið eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum. Þú hefur fundið þitt frelsi eftir baráttu við illvígan sjúkdóm. Þú barðist hetjulega eins og þér var einni lagið, en ert núna frjáls í ríki Drottins.

Mamma mín, ég kveð þig með þessum orðum, með fullan hug af minningum um þig og fullt hjarta af ást til þín. Takk fyrir að vera þú. Ég elska þig.

Þín dóttir,

Anna Kristjana.

Elsku amma mín. Ég vona að þér líði vel núna, ég sakna þín svo mikið.

Þú vekur mig,

faðir, til nýs dags.

Það er þér að þakka

að hjarta mitt slær.

Hjálpaðu mér

að lifa

í dag

að vilja þínum.

(Margareta Melin)

Ég elska þig, amma mín, og kveð þig með þessari bæn sem þú kenndir mér:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson)

Þín ömmustelpa,

Kolbrún Júlía.

Samferðakona mín og vinkona Kolbrún Agnarsdóttir er dáin eftir stutta en erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég kynntist Kollu fyrir tæpum 30 árum þegar ég fór að vinna á Keflavíkurflugvelli. Þá myndaðist vinskapur með okkur Kollu sem rofnaði aldrei. Við áttum það sameiginlegt að við vorum báðar einstæðar mæður sem vildum skapa börnum okkar gott líf og góða framtíð og unnum hörðum höndum að því. Þegar við vorum farnar að hafa það gott fórum við í margar utanlandsferðir saman. Á veturna höfðum við það að venju að fara tvær til þrjár ferðir í leikhús sem okkur báðum fannst gaman.

Kolla var mikil útivistarmanneskja og leið aldrei betur en þegar hún var að ganga upp um fjöll og firnindi. Henni leiddist aldrei úti í íslenskri náttúru og átti ekki orð til að lýsa allri þeirri fegurð sem hún drakk í sig í þessum ferðum.

Kolla gekk til liðs við Lionessuklúbb Keflavíkur árið 1995, sinnti starfi ritara og var í fjáröflunarnefnd. Hún var mætingastjóri á síðasta starfsári. Þar sýndi hún dugnað sinn og traust í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún vann mikið og vel, hvort sem það var í stjórn, nefndum eða vinnu við fjáröflun. Við eigum eftir að sakna nærveru hennar og krafta um ókomin ár. Það var gaman og gott fyrir okkur allar að hún skyldi komast á fyrsta fund ársins þó hún væri orðin mikið veik.

Haustið 2005 varð hún fyrir því þunga áfalli að henni var sagt upp vinnunni eftir tæplega 30 ára starf. Hún gafst ekki upp, sótti tölvunámskeið og fékk vinnu á skrifstofum Hagkaupa. Þar vann hún í fimm mánuði og mjög veik síðustu vikurnar. Má segja að hún hafi vart getað haldið sér uppi en ekki missti hún dag úr vinnu. Það var mikið áfall þegar hún greindist seint í sumar með þann illvíga sjúkdóm sem á endanum hafði betur en hún tók þessu af stökustu ró og æðruleysi, var full bjartsýni og barðist hetjulega.

Kolla mín, ég er svo glöð að hafa getað orðið að liði og stutt þig og Önnu í veikindum þínum. Við áttum oft góðar stundir saman áður en þú varðst að leggjast inn á sjúkrahúsið. Lífið hafði ekki alltaf verið dans á rósum fyrir Kollu, en síðustu árin fór hún í gegnum mikla sjálfsskoðun og sagði mér að hún væri búin að gera upp allt úr sinni fortíð, var sátt og búin að fyrirgefa allt og öllum.

Ég verð þér ávallt þakklát fyrir vinskapinn. Ég gat alltaf sagt þér alla hluti og vissi að algjör trúnaður ríkti milli okkar. Ég er þakklát fyrir tímann sem ég sat ein hjá þér kvöldið áður en þú kvaddir og að geta haft tækifæri til að segja þér að ég mundi alltaf líta eftir Önnu einkadóttur þinni og Kolbrúnu litlu og þú þyrftir ekki að hafa áhyggjur af þeim.

Elsku Anna mín og Kolbrún, ég veit að sorg ykkar og söknuður er mikill en við verðum að hugga okkur við að nú er hún laus við þjáningar. Minning hennar mun lifa um ókomin ár.

Systrum Kollu og öðrum aðstandendum votta ég alla mína samúð og bið góðan Guð að hjálpa ykkur og styrkja í þessari miklu sorg.

Ég kveð þig að sinni – takk fyrir allar samverustundirnar. Hvíldu í friði, kæra vinkona.

Særún Ólafsdóttir.

Allt eins og blómstrið eina

upp vex á sléttri grund

fagurt með frjóvgun hreina

fyrst um dags morgunstund,

á snöggu augabragði

af skorið verður fljótt,

líf og blöð niður lagði,–

líf mannlegt endar skjótt.

(Hallgr. Pét.)

Látin er ein af félagskonum okkar í Lionessuklúbbi Keflavíkur, Kolbrún Agnarsdóttir. Vil ég fyrir hönd okkar félagskvenna þakka henni samverustundir og samstarf síðastliðin ár. Hún tók virkan þátt í félags– og líknarstörfum okkar, sat í stjórn klúbbsins og nefndum.

Um leið og við kveðjum þig, kæra Kolla, vottum við ástvinum þínum dýpstu samúð. Hvíl í friði. Minningin lifir í huga lifenda.

F.h. Lionessuklúbbs Keflavíkur,

Hulda Matthíasdóttir,

formaður.