Stöðvarhússmenn F.v. Árni Benediktsson, yfirvéla- og rafmagnsverkefnisstjóri, Joseph Mosman frá VA Tech, Guðmundur Pétursson yfirverkefnisstjóri Kárahnjúkavirkjunar, Sveinn Ólafsson vélahönnuður VST og Helgi Þór Helgason rafmagnsverkfræðingur hjá Rafteikningu.
Stöðvarhússmenn F.v. Árni Benediktsson, yfirvéla- og rafmagnsverkefnisstjóri, Joseph Mosman frá VA Tech, Guðmundur Pétursson yfirverkefnisstjóri Kárahnjúkavirkjunar, Sveinn Ólafsson vélahönnuður VST og Helgi Þór Helgason rafmagnsverkfræðingur hjá Rafteikningu. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Kárahnjúkavirkjun | Til stendur að setja rafmagn á Fljótsdalslínur 3 og 4 í janúarbyrjun á nýju ári. Línurnar munu veita rafmagni frá Kárahnjúkavirkjun til álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Kárahnjúkavirkjun | Til stendur að setja rafmagn á Fljótsdalslínur 3 og 4 í janúarbyrjun á nýju ári. Línurnar munu veita rafmagni frá Kárahnjúkavirkjun til álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Búið er að reisa öll möstur undir línurnar, nema fyrsta mastrið við Fljótsdalsstöð. Línur hafa verið dregnar og vírar strengdir og er stefnt að því að setja bráðabirgðarafmagn á línuna til álversins 8. janúar nk.

Endanleg tenging kemur fljótlega upp úr því og verður rafmagnið tekið af byggðalínu frá Kröflu og Hryggstekk til að prófa búnað álversins. Í apríl verður full orkuafhending af landsnetinu uns skipt verður yfir á rafmagn frá Kárahnjúkavirkjun og þá byrjað að koma kerum álversins í gang einu af öðru.

Fyrsta vélin í launaflskeyrslu

Guðmundur Pétursson, yfirverkefnisstjóri Kárahnjúkavirkjunar hjá Landsvirkjun, segir að fyrsta vél virkjunarinnar verði gangsett eftir áramót í svokallaðri launaflskeyrslu, án vatns. "Hún mun snúast með og vera drifin af landsnetinu þannig að hún segulmagnar, heldur uppi spennu og styður við kerfið. Hún bætir öryggið á orkuafhendingunni til álversins þar til við verðum komnir inn með vél í fulla orku," segir Guðmundur.

Álverið verður komið í fulla keyrslu í október á næsta ári. Bæði vélar virkjunarinnar og ker álversins verða tekin hraðar inn en gert var ráð fyrir til að standast áætlanir.

Beðið eftir fjórum spennum

Það er ekki aðeins þjónustustöð Kárahnjúkavirkjunar sem komin er í gagnið heldur hefur undanfarið verið unnið í tengivirkishúsi virkjunarinnar í Fljótsdal. Þar er m.a. háspennutengivirki fyrir allar sex aflvélar virkjunarinnar og millispennar. Að auki er þar tengivirki til að taka orku af Kröflu- og Hryggstekkslínum.

Tveir spennar af sex sem færa raforku af vélum Kárahnjúkavirkjunar í háspennulínur eru komnir á sinn stað í sérstökum spennahellum í stöðvarhúsinu í Valþjófsstaðarfjalli og er mjög tryggilega um þá búið. Úr þeim er tenging upp á háspennustrengi sem liggja síðan út 1 km löng strengjagöng í tengivirkishús.

Um 220 manns eru að jafnaði við vinnu í Fljótsdal en 1.800 manns alls vinna við Kárahnjúkavirkjun að sögn Guðmundar Péturssonar.