Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is YFIRSTJÓRN utanríkisráðuneytisins rannsakar nú hvernig það kom til að upplýsingar úr afritum af bréfum, sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, Jóhann R.

Eftir Davíð Loga Sigurðsson

david@mbl.is

YFIRSTJÓRN utanríkisráðuneytisins rannsakar nú hvernig það kom til að upplýsingar úr afritum af bréfum, sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, Jóhann R. Benediktsson, sendi til norsku herleyniþjónustunnar og varnamálaráðuneytisins í Noregi, var lekið í Blaðið.

Gert var að umtalsefni í Blaðinu, 20. og 21. desember sl., að enskt starfsheiti greiningardeildar, sem sýslumannsembættið hefur rekið á vegum utanríkisráðuneytisins, og sinnir hættumati fyrir Íslensku friðargæsluna, hafi verið Icelandic Intelligence Service-NATO. Þýðir Blaðið þetta starfsheiti sem "Íslenska leyniþjónustan".

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þessi umfjöllun og gagnalekinn bendi til að einhver vilji gera störf hans tortryggileg.

Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneyti, staðfestir að þar sé verið að grennslast fyrir um málið. "Það er augljóst að ef upplýsingar úr gögnum ráðuneytisins leka út úr húsinu án vitundar yfirstjórnar ráðuneytisins er það mjög alvarlegt mál," sagði hann.

Sagði Grétar að hann hefði þegar talað við alla starfsmenn sem haft hefðu aðgang að þessum gögnum. Enginn þeirra kannaðist við málið. Ekki margir hefðu haft aðgang að þeim en þeir gætu verið á fleiri stöðum en í utanríkisráðuneytinu.