Verklegur Nýr og mun kraftalegri Escape hefur fengið ættarsvipinn frá stóra bróður, Explorer.
Verklegur Nýr og mun kraftalegri Escape hefur fengið ættarsvipinn frá stóra bróður, Explorer. — Wieck
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á BÍLASÝNINGUNNI í Los Angeles var sýndur nýr Ford Escape en bíllinn sá hefur notið talsverðra vinsælda á Íslandi. Hinn eldri Escape hefur þótt bjóða mikið fyrir lítið en þó hefur þótt vanta upp á gæði innréttinganna eins og títt er í bandarískum bílum.

Á BÍLASÝNINGUNNI í Los Angeles var sýndur nýr Ford Escape en bíllinn sá hefur notið talsverðra vinsælda á Íslandi. Hinn eldri Escape hefur þótt bjóða mikið fyrir lítið en þó hefur þótt vanta upp á gæði innréttinganna eins og títt er í bandarískum bílum. Nú hefur Ford hins vegar sýnt næstu kynslóð af Escape og það er fullljóst að bíllinn mun hreinlega valta yfir gamla bílinn – í það minnsta er hann það kraftalegur að hann lítur jafnvel út fyrir að geta það í bókstaflegri merkingu orðsins.

Fjölskyldusvipurinn frá Explorer

Bíllinn hefur fengið mun sterkari svip sem flestir ættu að kannast við frá Ford Explorer en það þýðir skarpari línur, hærri hliðarlínu, hvassari framljós og stuðara og almennt verður bíllinn mun verklegri. Að innan fær bíllinn svo innréttingu í takt við evrópsku Ford-bílana sem felast í meiri gæðum og skemmtilegum útbúnaði eins og iPod-tengingu, tvöföldu gleri til hljóðeinangrunar, þægilegri blárri lýsingu í mælaborðið og nýja hönnun mælaborðs þar sem þeir hnappar sem bílstjórinn notar hvað oftast eru staðsettir á bestu stöðunum.

Hinn nýji Ford Escape mun eflaust hleypa góðum kipp í söluna á Íslandi sem annars staðar og munu aukin þægindi og meira geymslurými skipta þar miklu máli ásamt því að reynt er að sameina hörkulegra jeppaútlit með mun fágaðri bíl. Viðskiptavinir Ford ættu því að fá meira fyrir sinn snúð á öllum vígstöðvum. Vélarnar verða allt frá 4 strokka 153 hestafla Duratec-vél til 200 hestafla V6 Duratec-vélar en einnig mun fást Hybrid-útgáfa af bílnum sem mun skila svipuðu afli og V6 vélin þrátt fyrir að vera mun sparneytnari og umhverfisvænni hvað útblástur varðar. Hybrid-útgáfa bílsins mun geta keyrt eingöngu á rafmagni innanbæjar, eða allt upp að 50 kílómetra hraða, og er því talið að eldsneytissparnaður bílsins geti verið allt að 75% í innanbæjarakstri og miðað við dæmigerða notkun jepplings eða jeppa á Íslandi hlýtur þetta að teljast nokkuð freistandi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.