EFTIRLITSNEFND með fjármálum sveitarfélaga hefur lagt til við sveitarstjórnir Breiðdalshrepps og Djúpavogshrepps að þær undirriti samning um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit milli nefndarinnar og sveitarstjórnanna.

EFTIRLITSNEFND með fjármálum sveitarfélaga hefur lagt til við sveitarstjórnir Breiðdalshrepps og Djúpavogshrepps að þær undirriti samning um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit milli nefndarinnar og sveitarstjórnanna. Þá mun nefndin hafa fjármál Seyðisfjarðarkaupstaðar áfram til skoðunar á árinu 2007 vegna viðvarandi halla á rekstri sveitarsjóðs. Fjármál Vestmannaeyjabæjar hafa og verið til skoðunar vegna hallareksturs. Í ágúst sl. var undirritaður samningur um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit milli nefndarinnar og bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

Eftirlitsnefndin hefur nú yfirfarið ársreikninga 101 sveitarfélags fyrir árið 2005 með hliðsjón af fjárhagsáætlunum áranna 2005 og 2006. Einnig var farið yfir greinargerðir sveitarfélaga þar sem rekstrarniðurstaða var neikvæð 2005. Eftir það var óskað upplýsinga um hvernig sveitarstjórnir Bolungarvíkurkaupstaðar, Ísafjarðarkaupstaðar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar hyggjast bregðast við viðvarandi hallarekstri sveitarsjóða og hver þróun varð í fjármálum á árinu 2006 samanborið við fjárhagsáætlanir.