Víkverji á við dálítið vandamál að stríða þessa dagana. Hann langar endilega að styrkja björgunarsveitirnar, en honum finnst nákvæmlega ekkert vit í að skjóta upp flugeldum.

Víkverji á við dálítið vandamál að stríða þessa dagana. Hann langar endilega að styrkja björgunarsveitirnar, en honum finnst nákvæmlega ekkert vit í að skjóta upp flugeldum. Helzt vildi hann bara geta farið á einhverja flugeldasöluna, borgað sem svarar einum fjölskyldupakka og horfið svo pakkalaus á braut. Reynsla Víkverja af slíku er hins vegar ekki góð. Hann reynir oft að komast hjá því að sitja uppi með pennann, dagatalið eða hvað það nú er sem verið er að selja fyrir gott málefni. Þá verður sölufólkið hins vegar stundum móðgað og það hefur komið fyrir að Víkverja er sagt skýrt og skorinort að það sé ætlazt til að hann kaupi pennann, upptakarann o.s.frv. ef hann vill styrkja málefnið.

Geta björgunarsveitirnar ekki skoðað nýjar leiðir í fjáröflun sinni um áramótin? Flugeldar trufla almannafrið, valda svifryksmengun, gera gæludýr brjáluð, skemma heyrnina í fólki, að ekki sé talað um sjónina. Sumir missa meira að segja útlimi þegar þeir skjóta upp flugeldum. Er ekki eitthvað bogið við að það séu björgunarsveitirnar, sem selja fólki þessi skaðræðistól?

Á heimili Víkverja hefur náðst samkomulag um að kaupa bara stjörnuljós og standa svo í makindum á svölunum og horfa á snaróða flugeldaskotliða í nálægum hverfum skjóta upp rakettum, tertum, bombum og hvað þetta heitir allt saman.

Víkverji veltir því fyrir sér hvort ekki mætti koma á því fyrirkomulagi að björgunarsveitirnar sæju um flugeldasýningar í öllum hverfum borgarinnar og á öllum þéttbýlisstöðum úti um land, þar sem fagmenn handfjötluðu sprengjurnar. Almenningur fengi þannig glæsilega flugeldasýningu um áramótin en á móti styrktu landsmenn sveitirnar myndarlega með beinum fjárframlögum. Væri það ekki þjóðhagslega hagkvæmara en þetta flugeldaæði, sem rennur á alla þjóðina um áramótin?