Mogadishu. AP, AFP. | Hersveitir bráðabirgðastjórnar Sómalíu og eþíópískir hermenn réðust í gær inn í Mogadishu, höfuðborg landsins, án þess að mæta mótspyrnu, að sögn forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, Mohameds Alis Gedis.

Mogadishu. AP, AFP. | Hersveitir bráðabirgðastjórnar Sómalíu og eþíópískir hermenn réðust í gær inn í Mogadishu, höfuðborg landsins, án þess að mæta mótspyrnu, að sögn forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, Mohameds Alis Gedis. Nokkrum klukkustundum áður höfðu leiðtogar hreyfingar, sem hafði reynt að stofna íslamskt ríki í Sómalíu, hörfað frá borginni. Hreyfingin segist ætla að halda áfram baráttunni gegn bráðabirgðastjórninni í sunnanverðu landinu.

"Við erum komnir til Mogadishu," sagði Gedi eftir að hafa rætt við leiðtoga ættflokka um samstarf við að koma bráðabirgðastjórninni til valda í höfuðborginni án blóðsúthellinga. Tugir ættflokkaleiðtoga frá Mogadishu tóku á móti Gedi í nálægum bæ, Afgoye, ásamt hundruðum eþíópískra og sómalskra hermanna sem hafa barist gegn hreyfingu íslamista í rúma viku.

Rán og gripdeildir

Vopnaðir menn rændu og rupluðu í Mogadishu eftir að liðsmenn íslömsku hreyfingarinnar hörfuðu úr borginni. Hleypt var af byssum víða í borginni og hermt er að fjórir borgarbúar hafi beðið bana.

Forsætisráðherra Eþíópíu, Meles Zenawi, hét fullnaðarsigri yfir hreyfingu íslamistanna og kvaðst vona að átökunum lyki "á næstu dögum eða vikum". "Við erum að ræða leiðir til að tryggja að glundroði taki ekki við í Mogadishu," sagði forsætisráðherrann. "Við ætlum ekki að láta Mogadishu brenna."

Einn af forystumönnum íslömsku hreyfingarinnar, Abdirahman Janaqow, kvaðst hafa fyrirskipað liðsmönnum hennar að hörfa frá Mogadishu til að afstýra blóðsúthellingum í borginni. Sómali, sem sagði skilið við íslömsku hreyfinguna í gær, sagði að aðeins hörðustu stuðningsmenn hennar hygðust halda baráttunni áfram gegn bráðabirgðastjórninni. Hann taldi þá vera um 3.000 og sagði þá ætla að safnast saman í hafnarborginni Kismayo, sunnan við Mogadishu. Íslamska hreyfingin náði Kismayo á sitt vald í september og segist ekki ætla að fara þaðan án mótspyrnu.

Í hnotskurn
» Líklegt er að ættflokkaleiðtogar í Mogadishu ráði úrslitum um hvort hægt verði að afstýra glundroða í höfuðborginni.
» Ættflokkarnir steyptu einræðisherranum Mohamed Siad Barre af stóli 1991 en hófu síðan blóðuga valdabaráttu. Íslamistar komu á friði í Mogadishu og óttast er að ættflokkarnir berist aftur á banaspjót og hafni bráðabirgðastjórninni.