— Morgunblaðið/ÞÖK
STAFNESVITI á Romshvalanesi horfir mót hafinu sem oft getur verið mjög úfið. Þótt ströndin sé eyðileg og sjórinn illúðlegur á stundum var þarna fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum á 17. og 18. öld, að því er segir í bókinni Landið þitt.

STAFNESVITI á Romshvalanesi horfir mót hafinu sem oft getur verið mjög úfið. Þótt ströndin sé eyðileg og sjórinn illúðlegur á stundum var þarna fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum á 17. og 18. öld, að því er segir í bókinni Landið þitt. Konungsútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769. Landsetar af konungsjörðum suðvestanlands voru skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir lítil laun. Útræði hélst frá Stafnesi að einhverju marki fram til 1945 en lítið síðan.

Nú er Stafnesið vinsæll viðkomustaður náttúruunnenda sem leggja leið sína að þessari strönd við ysta haf til að fylgjast með fuglum og heyra nið úthafsöldunnar. Ef til vill einnig til að fá svolítinn gust í hárið og seltu á vangann.