"FÓLK hefur heyrt að hér sé mikil flugeldasýning og gaman að vera um áramót," segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um fjölda ferðamanna sem dvelja í höfuðborginni yfir áramótin.

"FÓLK hefur heyrt að hér sé mikil flugeldasýning og gaman að vera um áramót," segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um fjölda ferðamanna sem dvelja í höfuðborginni yfir áramótin. Nær öll hótel og gistiheimili eru opin og munu hýsa um 3.300 ferðamenn, sem er 10% aukning frá áramótum 2005/2006.

Um jólin voru í kringum 1.200 ferðamenn á hótelum í Reykjavík og er það nærri 50% aukning frá jólunum fyrir ári. Erna segir nóg um að vera fyrir ferðamenn yfir hátíðarnar þó svo að verslanir og veitingastaðir séu lokaðir seinni hluta aðfangadags og jóladag. "Í fjöldamörg ár hefur verið boðið upp á ferðir, s.s. dagsferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, t.d. að Gullfossi og Geysi, og það er bæði á aðfangadag og jóladag. Það er í raun fínt úrval af ferðum og afþreyingu á þessum dögum."

Markaðssetning skilar sínu

Aðspurð segir Erna að fjölgunina megi að einhverju leyti að rekja til markaðssetningar hótela og ferðaskrifstofa en einnig spili margt inn í. Hún segir bæði koma hingað hópa og einstaklinga og fjölmennastir eru Rússar, Japanar, Norðurlandabúar og Bandaríkjamenn. "Við erum ekki með nákvæma talningu en eftir að hafa talað við hótelin þá sjáum við að þetta eru eiginlega nýju hóparnir. Hér hefur alltaf verið mikið af Bretum, Bandaríkjamönnum og Norðurlandabúum en nú er býsna mikið af Rússum og Japönum," segir Erna og bætir við að áhugavert sé að sjá að mikið sé af Rússum og Japönum á stærstu hótelunum.