[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RAFMAGNSNOTKUN almennra notenda á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur aukist um tæp 5% að meðaltali á milli ára, að sögn Gunnars Aðalsteinssonar, sviðsstjóra kerfisstjórnar OR.

RAFMAGNSNOTKUN almennra notenda á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur aukist um tæp 5% að meðaltali á milli ára, að sögn Gunnars Aðalsteinssonar, sviðsstjóra kerfisstjórnar OR. Raforkunotkun almennra notenda fór í fyrsta sinn yfir 200 MW á sólarhring fyrr í þessum mánuði.

Orkuveitan ber saman um hver mánaðamót raforkunotkun síðustu 12 mánaða við sama tímabil ári áður. Gunnar sagði stefna í að aukningin í rafmagnsnotkun héldist út árið. Afltoppinum í raforkunotkun ársins var væntanlega náð 18. desember síðastliðinn klukkan 18–19 þegar notkunin nam 203,2 MW (megavöttum). Álagsferillinn þann dag var ekki ósvipaður toppinum í fyrra sem þá náðist 12. desember kl. 17–18 og var þá 194,5 MW. Rafmagnsnotkunin 18. desember sl. hefði farið langt með að nægja raforkuþörf álvers Norðuráls á Grundartanga.

Jólatoppurinn í ár, á aðfangadag, var líka heldur hærri en í fyrra. Raforkunotkun á aðfangadag nú, kl. 17–18, var 191,9 MW en á aðfangadag 2005 var jólatoppurinn á sama tíma 186,6 MW.

Botninum í rafmagnsnotkun ársins er náð á frídegi verslunarmanna, þ.e. fyrsta mánudag í ágúst ár hvert. 7. ágúst sl. var botninn kl. 6–7 að morgni og var 69,2 MW en 1. ágúst í fyrra kl. 5–6 að morgni var notkunin 60,7 MW.

Ferlar yfir notkun á köldu og heitu vatni sýna glöggt hvenær viðskiptavinir OR fóru í jólabaðið á nýliðnum aðfangadegi en notkun á heitu og köldu vatni náði hámarki rúmri klukkustund áður en varð heilagt.