MARGIR leiða hugann að reykleysi um áramót og nota tækifærið til að strengja áramótaheit þess efnis að gefa reykingarnar alfarið upp á bátinn.

MARGIR leiða hugann að reykleysi um áramót og nota tækifærið til að strengja áramótaheit þess efnis að gefa reykingarnar alfarið upp á bátinn. Þetta endurspeglast í fjölda námskeiða gegn reykingum sem boðið er upp á í janúar, bæði hjá Krabbameinsfélaginu og heilsugæslum um land allt.

Að sögn Guðlaugar B. Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Reykjavíkur, berast flestar fyrirspurnir um reykbindindisnámskeið á þessum tíma árs og eru fjölmennustu námskeið félagsins ávallt haldin í janúar. Segir hún félagið þegar farið að taka við skráningum á námskeið sem haldin eru í næsta mánuði, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Símaráðgjöf gegn reykingum

Eitt af því sem fólk getur nýtt sér er símaþjónusta sem nefnist Ráðgjöf í reykbindindi sem er í síma 800 6030. Um er að ræða símaþjónustu þar sem sérþjálfaðir hjúkrunarfræðingar veita ráðgjöf um hvernig best er að undirbúa það að hætta að reykja, hvaða leiðir helst geti gagnast, auk þess sem boðið er upp á eftirfylgni í formi reglubundinna símhringinga í allt að eitt ár, kjósi fólk það.

Að sögn Guðrúnar Árnýjar Guðmundsdóttur, hjúkrunarfræðings og faglegs umsjónaraðila með símaráðgjöfinni, hefur símaþjónustan verið starfrækt hérlendis sl. sex ár, en hún er rekin að erlendri fyrirmynd. Segir hún álagið ávallt aukast í janúar og því sé gripið til þess ráðs að lengja símatímann og er hann frá kl. 17–21 alla virka daga fyrstu tvær vikurnar í janúar, en á öðrum árstímum er síminn opinn milli kl. 17 og 19 alla virka daga.