Danshöfundar og nöfnur Margrét Sara Guðjónsdóttir og Margrét Bjarnadóttir í sýningarrými Safns.
Danshöfundar og nöfnur Margrét Sara Guðjónsdóttir og Margrét Bjarnadóttir í sýningarrými Safns.
Eftir Flóka Guðmundsson floki@mbl.is Þetta er næstum eins og málverk sem hreyfist.

Eftir Flóka Guðmundsson

floki@mbl.is

Þetta er næstum eins og málverk sem hreyfist." Þannig útskýrir danshöfundurinn Margrét Sara Guðjóndsóttir stemninguna í dansgjörningi sínum When I Say Bad I Mean Seriously Hip (mind to motion know the notion) sem verður heimsfrumsýndur í dag í myndlistarsafninu Safni. "Verkið er mjög sjónrænt og sækir áhrifamátt sinn í hið sjónræna fremur en einhverja sögulega framvindu," heldur Margrét Sara áfram. "Það er ekki gengið út frá klassískum dans- eða leikhúshugmyndum."

Um óvenjulegan gjörning er að ræða þar sem áhorfendur horfa á verkið í gegnum glugga Safns sem snýr út að Laugavegi.

"Ég hef dansað mikið í mörg ár í leikhúsum um allan heim. Mig langaði einfaldlega ekki að gera verk fyrir það umhverfi. Það felst einnig í hugmyndinni að maður nær fram meira "kasúal" stemningu með því að færa áhorfandann út á götu.

Auk þess er fjarlægðin ákveðinn hluti af heildarhugmyndinni; það að geta ekki snert dansarann. Það eru ákveðin átök sem felast í því að hafa þennan glugga á milli. Það skapar ákveðna fjarlægð sem tengist þemanu."

Tákn án merkingar

Þemað segir Margrét Sara vera eins konar merkingarleysi merkingarbærra hluta; notkun tákna í samfélaginu sem tekin eru úr upprunalegu umhverfi sínu og samhengi, oft án umhugsunar og gersneydd upprunalegri merkingu. Fjallað er um hvort merking fjölda tákna, svo sem trúarlegra og pólitískra tákna, verði einhverntíma að fullu skiljanleg þorra almennings ef þau tengjast ekki reynsluheimi hans á beinan hátt. Hvort tákn, sem almenningur upplifir t.d. í gegnum afþreyingariðnaðinn, missi ekki þannig merkingu sína og áhrifamátt.

Margrét Sara nefnir sem dæmi þá tísku að ganga með Palestínuklúta án þess að vita hvað mismunandi litir í slíkum klúti geta táknað.

"Fólk getur gengið með hinn græna og hvíta klút Hamas-samtakanna eins og eitthvert tískufyrirbrigði. Þetta finnst mér vera rosalega sterkt ef maður er meðvitaður um hvað táknið þýðir og um hvað er að gerast í heiminum. En það er þorri almennings oftast ekki."

Afslöppuð upplifun

Hún segir það einnig mikilvægt að áhorfendum gefist hér tækifæri til að sækja sér ókeypis og óformlega upplifun – þeir geti jafnvel kíkt inn hvenær sem er meðan á sýningu stendur. Slík reynsla sé oft afslappaðri en formlegri heimsóknir í leikhúsið sem geti verið sniðfastar og stífar eftir því.

Auk Margrétar Söru koma tveir listamenn aðrir að sýningunni: hollenski tónlistarmaðurinn David Kiers og svo sjálfur dansari verksins, Margrét Bjarnadóttir. Þetta er í fjórða skiptið sem Margrét Sara og David sameina listræna krafta sína en nöfnurnar vinna nú saman í fyrsta skipti. Verkið æfðu þær í höfuðborg Þýskalands, Berlín, þar sem Margrét Sara er búsett.

Eins og málin standa í dag er aðeins um þessa einu sýningu að ræða, "en ég gæti komið með verkið aftur," segir Margrét Sara og upplýsir jafnframt að næst sé stefnan tekin á önnur lönd Evrópu. "Við sýnum verkið auðvitað í Berlín þar sem ég bý og starfa að mestu leyti. Svo komum við væntanlega til með að sýna það í Bordeaux í Frakklandi. Svo eru svona fimm, sex staðir aðrir sem ég á í samningaviðræðum við." Hún segir verkið engu að síður sérhannað inn í rými Safns og því bundið við sambærilegar aðstæður og þar er að finna, þ.e. opið rými við glugga.

Viðrar vonandi vel

Aðspurð hvort hún viti hvernig komi til með að viðra á áhorfendur segist hún ekki geta annað en verið jákvæð og vonað að veðurguðirnir verði áhorfendum hliðhollir. "Safn hefur haldið gjörninga af þessu tagi áður og það hefur gengið mjög vel. Þannig að ég á ekki von á öðru en að vel takist til," segir hún að lokum.

Flutningur verksins hefst klukkan 18 og tekur um 35 mínútur.

Danshöfundur í hlutverki dansara

"Það má segja að maður sé sérstaklega berskjaldaður en samt um leið ekki, vegna þess að það er glerveggur á milli," segir Margrét Bjarnadóttir um þá reynslu að dansa fyrir framan glugga með áhorfendur fyrir utan. "Ég held að tilfinningin verði frekar sú að maður sé til sýnis heldur en sú tilfinning sem maður fær í leikhúsi þar sem maður er meira að sýna. Þannig að þetta verður mjög forvitnilegt að upplifa." Margrét er nýútskrifuð sem danshöfundur frá nútímadansdeild Listaakademíunnar í Arnhem í Hollandi. Hún starfar því ekki sem dansari en ákvað engu að síður að slá til þegar Margrét Sara leitaði til hennar. "Nú er ég hinum megin við borðið. Ég ákvað að taka þetta að mér því mér finnst svo spennandi að vinna með Margréti Söru. Ég hef ekki sýnt á Íslandi í ein 7 ár, síðan ég var 18 ára."