Magnús Ingi Magnússon
Magnús Ingi Magnússon
Frá Magnúsi Inga Magnússyni: "VART hefur það farið framhjá nokkrum manni að hjálpar- og björgunarsveittir hafa verið í önnum í desember, ekki síst í vikunni fyrir jól. Það er ljúf skylda hverjum hjálparsveitarmanni að koma samborgurum sínum til hjálpar þegar þörf krefur."

VART hefur það farið framhjá nokkrum manni að hjálpar- og björgunarsveittir hafa verið í önnum í desember, ekki síst í vikunni fyrir jól. Það er ljúf skylda hverjum hjálparsveitarmanni að koma samborgurum sínum til hjálpar þegar þörf krefur. Landsmenn hafa ávallt getað treyst því. Verkefnin eru af margvíslegum toga og kalla bæði á mikla þjálfun sveitanna og góðan tækjakost.

Helsta fjáröflunarleið Hjálparsveita skáta í Reykjavík hefur löngum verið flugeldasala. Og þar hefur sveitin ætíð getað reitt sig á velvilja Reykvíkinga í hennar garð. Við óskum eftir áframhaldandi stuðningi, enda er flugeldasalan forsenda öflugs björgunarstarfs sem stuðlar að öryggi fólks.

Bregðum blysum á loft um áramót og þökkum þannig fyrir árið sem er að líða og fögnum því nýja. Höldum þeim sið að kynslóðirnar sameinist úti við um áramót og skreyti himininn með flugeldum frá Hjálparsveit skáta þannig að gamlárskvöldið eigi eftir að lifa í minningu barnanna þegar þau eldast.

Ævintýri gamlárskvölda æskuáranna eru mér afar kær og svo á sjálfsagt við um flesta.

Með allt frá stjörnuljósum til risatertna endurtökum við ævintýrið árlega og bætum þannig ánægjulegum svipleiftrum í myndaalbúm hugans.

En munum að fara varlega, setja upp hlífðargleraugu og hanska og minnumst þess að áfengi og flugeldar fara ekki saman.

Með áramótakveðju,

MAGNÚS INGI MAGNÚSSON,

stjórnarmaður í flugeldanefnd Hjálparsveitar skáta í Reykjavík

Frá Magnúsi Inga Magnússyni: