Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is FJÖLDI framleiðslu- og innflutningsfyrirtækja sem tilkynna um verðhækkanir í byrjun næsta árs fer sífellt vaxandi, og virðist sem birgjar séu almennt að hækka verð um 3–5%.

Eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

FJÖLDI framleiðslu- og innflutningsfyrirtækja sem tilkynna um verðhækkanir í byrjun næsta árs fer sífellt vaxandi, og virðist sem birgjar séu almennt að hækka verð um 3–5%. Hækkanirnar koma til nokkrum mánuðum áður en virðisaukaskattur á matvæli lækkar í 7% og vörugjöld verða felld niður, hinn 1. mars nk.

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að tilkynningar um hækkanir frá birgjum berist nú svo til daglega. Ljóst sé að stórmarkaðir og verslanir hafi lítið svigrúm til að taka hækkanir á vörum á sig, sér í lagi þegar margir séu að reyna að taka á sig innlendar hækkanir, til að mynda vegna launaskriðs. Því sé hætt við því að matarverð hækki um 3–5% í smásölu á næstunni, í það minnsta á þeim tegundum sem hækka í verði frá birgjum.

Gos, bökunarvörur og sultur

Þeir framleiðendur og innflytjendur sem tilkynnt hafa hækkanir eru t.d. Vífilfell, Katla, Papco og Kjarnavörur, auk heildverslananna Danól og Ásbjörns Ólafssonar.

Í tilkynningu frá Vífilfelli til smásala kemur fram að nýr verðlisti taki gildi þann 20. janúar nk., og hann feli í sér meðaltalshækkun upp á 4,6%. Ástæðurnar séu umtalsverðar kostnaðarhækkanir, t.d. hækkanir á þykkni til safagerðar, á umbúðum, sem og korni, malti, maís og sykri. Einnig geri launaskrið og verðbólguþróun hækkanir óumflýjanlegar. Allar tegundir af Trópí og Brazza ávaxtasöfum, fyrir utan eplasafa, munu hækka um 8%, allir gosdrykkir um 4,8%, léttöl um 5% og bjór um 4%.

Katla mun hækka vöruverð hinn 1. febrúar um 4,9%, en fyrirtækið selur vörur fyrir matvælaiðnað, t.d. bökunarvörur. Tryggvi Magnússon, framkvæmdastjóri Kötlu, segir ástæður hækkunarinnar verðhækkanir á hráefni, t.d. hveiti og umbúðum á undanförnum mánuðum. Einnig hafi verið umtalsvert launaskrið sem hafi þau áhrif að það þurfi að hækka verð.

Papco, sem framleiðir hreinlætisvörur úr pappír og pappa, hefur tilkynnt um verðhækkun frá 12. janúar nk., en verð mun hækka um 6,2%.

Kjarnavörur, sem eru stór framleiðandi á iðnaðarvöru á borð við sultur, grauta og smjörlíki hafa boðað 5% hækkun í janúar. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að ástæðan fyrir verðbreytingunum sé hækkun á hráefnum, umbúðum og flutningum, auk þess sem laun hafi hækkað.

Innlendum hækkunum mætt með hagræðingu

Danól, heildsali sem flytur inn bæði mat- og sérvöru, t.d. vörur frá Nestlé, Oroblu og Sanpellegrino, tilkynnti um 3–5% hækkun á nokkrum flokkum nýverið. Skýringar sem fram koma í tilkynningu frá fyrirtækinu eru m.a. hækkandi hráefnisverð – t.d. á sykri, hveiti, pakkningum o.fl., sem leitt hafi til verðhækkana hjá erlendum birgjum fyrirtækisins. Innlendum kostnaðarhækkunum verði eftir fremsta megni reynt að mæta með aukinni hagræðingu í rekstri á komandi ári.

Ýmis vörumerki Danól munu hækka í verði, t.d. Blue Dragon-núðlur um 3%, Pickwick-te um 4%, Weetabix um 4%, nokkrar sælgætistegundir frá Nestlé um 4%, Hatting um 5% og Daloon um 4%.

Heildverslunin Ásbjörn Ólafsson hefur einnig tilkynnt hækkun vegna þróunar gengis. Ásbjörn Ólafsson flytur t.d. inn vörur frá Knorr og Sonax. Verðhækkunin verður á bilinu 3–4% og tekur gildi 8. janúar nk.

Í hnotskurn
» Verð hækkar um eða upp úr áramótum hjá Vífilfelli, Kötlu, Papco og Kjarnavörum, auk heildverslananna Danóls og Ásbjörns Ólafssonar.
» Áður hefur verið sagt frá hækkunum hjá Kexsmiðjunni, Kexverksmiðjunni Frón, Kornaxi, Myllunni, Nathan & Olsen, Ora og Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.
» Algengt er að verðhækkanir birgja til smásala séu á bilinu 3–5% og líklegt að þær hækkanir skili sér út í vöruverðið til neytenda.