Árni Gunnar Pálsson fæddist á Litlu-Reykjum í Hraungerðishreppi 3. maí 1920. Hann lést 23. desember síðastliðinn. Hann var sonur hjónanna Páls Árnasonar bónda, f. 27. október 1889, d. 24. júní 1975, og Vilborgar Þórarinsdóttur Öfjörð, f. 12. febrúar 1892, d. 7. júlí 1975. Þau eignuðust 6 börn, þau eru: Gunnar, sem hér er minnst, Guðný, f. 1921, d. 1990, Þórarinn Öfjörð, f. 1922, d. 2006, Guðrún, f. 1924, d. 1983, Ingibjörg Guðrún Öfjörð, f. 1926, d. 1967 og Stefanía Ragnheiður, f. 1931.

Útför Gunnars verður gerð frá Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Hraungerðiskirkjugarði.

Þegar ég nú rita niður minningar um minn elskaða bróður Gunnar, sem nú hefur kvatt þessa jarðvist 86 ára gamall hvarflar hugurinn til bernskuáranna og allra hinna systkina minna sem nú eru gengin. Við ólumst upp í litlum bæ með grænu túni í kring. Þar var líf og fjör og góðar stundir, gleði að vera til. Það dimmdi í lofti þegar mófuglarnir komu fljúgandi í stórum hópum og settust á túnið. Glóðvolg áveitan við túnjaðarinn, þar sem við systkinin böðuðum okkur á sólardögum. Hreiður mófugla í móum og mýrum, fuglasöngur, þá var enginn minkur kominn í Flóann, ilmur af slegnu grasi. Pabbi og mamma léku sér við okkur krakkana á túninu þegar búið var að hirða heyið. Það voru sannarlega ljúfar stundir sem vert er að minnast. Gunnar var snemma rólyndur og traustur. Hann hafði yndi af góðum bókum og gaf sér góðan tíma við lestur þeirra. Eitt sinn vorum við stödd saman úti á hlaði að kvöldi til, ég hef líklega verið 7–8 ára. Það var stjörnubjart og jólin voru að nálgast. Ég tók eftir sérstaklega stórri og bjartri stjörnu á himninum. Ég segi við Gunnar í barnslegri einlægni "Er þetta Betlehem-stjarnan?" Gunnar leit á mig og þagði við, ég áttaði mig á að ég hafði sagt einhverja vitleysu og að þetta gat ekki verið sú stjarna. Þá sagði hann eftir skamma umhugsun. "Ætli það ekki, Stebba mín." Og ég skildi að hann vildi ekki skerða mína saklausu barnatrú. Hann hæddist ekki að mér fyrir kjánaskapinn og hann sagði engum frá þessari fávisku minni, ég var honum mjög þakklát fyrir. Þannig var snemma samband okkar, trúnaður og kærleikur á báða bóga.

Bræður mínir voru einstaklega samrýndir þótt þeir væru ákaflega ólíkir. Doddi eldhugi sem datt margt skemmtilegt í hug og réð hann oftast ferðinni. Þeir fóru snemma að færa björg í bú með silungsveiðum. Þeir voru einstakir aflamenn báðir tveir. Mamma sagði mér frá fyrstu veiðiferð þeirra, þá voru þeir 8 og 10 ára þegar þeir fengu að fara með færin sín fram að Vola, (Hróarsholtslæk). Mömmu var um og ó að láta þá fara eina því lækur þessi er bæði straumharður og vatnsmikill og þeir ósyndir. Þeim dvaldist æði lengi dags og var hún orðin mjög óróleg. Allt í einu sér hún þann yngri koma hlaupandi, þá varð hún alvarlega hrædd. Hún hélt að Gunnar hefði drukknað. En Doddi var bara kominn til að ná í hest því þeir voru búnir að veiða svo marga fiska að þeir gátu ekki borið þá. Þannig hófst aflasæld þeirra, sem aldrei þraut. Eftir þetta skort ekki á nýjan silung til bragðbætis á heimilinu og var það mikil búbót því fæðið var nú ekki margbrotið í þá daga. Bræður mínir voru einstaklega góðir við litlu systur sína, fékk ég oft að fara með fram að Vola. Þá áttu þeir báðir reiðhjól og sat ég þversum á slánni fyrir framan annan hvorn þeirra og hélt mér í stýrið. Það voru nú skemmtilegar ferðir og horfði ég á veiðiskapinn og naut veiðigleðinnar með þeim.

Móðir mín lék í flestum leikritum hjá ungmennafélaginu í sveitinni, við fjölskyldan fórum á allar þessar sýningar. Einn vetur var mamma að leika og við ætluðum að fara að sjá sýninguna en þá var ég lasin og með hita svo ekki þótti æskilegt að ég færi á samkomuna. Var ég mjög sorgmædd yfir því en þá buðust báðir bræður mínir til að vera heima hjá mér og það kvöld er mér alla ævi mjög hugstætt því þeir lögðu sig alla fram til að gleðja mig. Þeir hituðu kakó og höfðu mig á milli sín uppi í rúmi, lásu fyrir mig og spiluðu við mig á spil, ég man enn hvað ég var hamingjusöm.

Gunnar var veiðimaður af Guðs náð eins og sagt er um listamenn. Hann fór víða og veiddi lax og silung í ám og vötnum, þá eignaðist hann vini víðsvegar því hann var greiðvikinn og veiddi þá fyrir búendur á viðkomandi stöðum og fékk þá að veiða fyrir sjálfan sig í staðinn. Hann stundaði veiði í Hvítá í Suðurkoti og Öndverðanesi fyrir bræðurna Árna og Ólaf Tryggvasyni í mörg ár og veiddi þá upp á hlut. Þetta var mikil og erfið vinna því það veiddist mikið. Hann var einn á bát og með mörg látur, bar allan aflann á bakinu frá veiðistað oft um langan veg. En þetta var það starf sem hann kunni að meta. Þá lagði hann líka minkagildrur og var mikill áhugamaður við útrýmingu á þeim vágesti í íslenskri náttúru. En refi skaut hann aldrei, hann hafði samúð með refnum. Eitt sinn datt hann útbyrðis úr bátnum og var ekki í björgunarvesti, hann var það sjaldan. Hann var í klofstígvélum það varð honum til bjargar að hann reyndi ekki að klæða sig úr, hvorki þeim né fötum. Heldur fór strax að synda og hélt fast í spotta sem bundinn var í bátinn, en í bátnum voru nokkrir laxar sem hann hafði veitt, og í land komst hann með bátinn í eftirdragi, þá var hann á áttræðisaldri.

En hann var alla tíð sterkur maður.

Gunnar áttaði sig snemma á að sveitabúskapur var ekki að hans skapi, það var of bindandi starf. Hann þráði að læra en efni og ástæður voru af skornum skammti, hann var 2 vetur á íþróttaskólanum í Haukadal hjá Sigurði Greipssyni. Þar eignaðist hann vini sem hann hélt sambandi við alla ævi. Hann var einn vetur á bílaverkstæði hjá Steindóri, þá 20 ára. Þá var hann til húsa hjá Benedikt Péturssyni og fjölskyldu á Öldugötu 32, vinafólki foreldra okkar. Þar var heimasæta sem hann felldi hug til en hún var þá ekki í þeim hugleiðingum. Sjálfsagt fundist hann of ungur því hún var 9 árum eldri. Eftir það fer hann á Bifreiðaverkstæðið á Selfossi og í Iðnskólann og útskrifast þaðan sem bifvélavirki. Vann við það á veturna en við heyskap á sumrin hjá pabba og mömmu. Hann giftist júgóslavneskri konu, hún var kölluð Djúdda, þá byggði hann hús, Heiðarveg 1 á Selfossi, en þau skildu tveim árum síðar. Þá vann hann við virkjunina við Efrafall í Grímsnesi ásamt Dodda bróður. Þeir unnu einnig saman á verkstæðinu á Selfossi og þóttu með afbrigðum úrræðagóðir, svo sögur voru á kreiki um afrek þeirra á því sviði. Eitt sinn bilaði vörubíll uppi í Grímsnesi og þeir voru sendir til að sækja hann, stýrismaskínan var biluð. Þeir þurftu að koma honum niður á verkstæði svo þeir tóku á það ráð að Gunnar sat inni í bílnum og stjórnaði bensíngjöf. Þórarinn sat framan á húddinu og stýrði hjólunum með staur. Þetta þótti skemmtilegt og þá var því bætt við söguna að Gunnar hefði setið með vélina á hnjánum inni í bíl, en á verkstæðið komu þeir bílnum áfallalaust.

Hann var háseti á togaranum Agli Skallagrímssyni 1955 þá var ég búin að eignast mitt fyrsta barn og við hjónin bjuggum á Njálsgötunni,. Þegar Gunnar kom í land gisti hann hjá okkur. Eitt sinn er hann var að koma með togaranum frá Þýskalandi úr söluferð var stödd hjá mér vinkona mín Dagbjörg Benediktsdóttir. Hann kom með ýmislegt sælgæti sem hann gaf okkur af, Dagga dvaldist fram yfir miðnætti, en þá voru strætisvagnar hættir að ganga svo ég bað Gunnar að fylgja henni heim, en ég skyldi búa um hann á meðan. Þá sagði Dagga: "Hann getur nú bara gist hjá mér, það er nóg pláss". Hann þáði það og gisti hjá henni í 39 ár. Þetta var sama stúkan sem hann hafði litið ástaraugum þegar hann var tvítugur. Nú hófst besti kafli í lífi Gunnars í sambúð með þessari ágætu konu. Þau áttu mjög vel saman, bæði sparsöm og róleg, hún dvaldi oft með honum heilu sumrin þegar hann var við veiðar í Suðurkoti. Alla tíð voru þau fastir gestir hjá okkur Sverri, öll jól og reyndar flestar helgar í kvöldmat á laugardögum, við oft í súkkulaði hjá þeim á sunnudögum, reyndar var líf okkar mjög saman ofið. Ég saknaði Döggu mikið er hún féll frá 24. ágúst 1995. Þegar hún dó flutti Gunnar á Selfoss í hús sitt á Heiðarvegi 1 og dvaldi þar þangað til hann fór á hjúkrunarheimilið Ljósheima á Selfossi.

Hann gerði Kristleifi í Húsafelli í Borgarfirði margan greiðann, Kristleifur vildi borga Gunnari fyrir vinnuna, Gunnar sagði þá: "Ég á systur sem mér þykir soldið vænt um og þætti vænt um að geta boðið henni í bústað til þín í staðinn þegar lítið er að gera á veturna." En Kristleifur var þekktur fyrir að vera með fyrstu mönnum sem buðu upp á sumarhúsaleigu. Þetta var auðfengin lausn. Eitt sinn þegar við vorum stödd þar og Gunnar var að sýna mér fegurð fjallanna, Strútinn, Eiríksjökul og Geitlandið blasti við, þar hafði Gunnar gengið til rjúpnaveiða, segir hann: "Hérna vil ég helst hvíla að endingu, strá ösku minni yfir Geitlandið." En ég er sannfærð um það að honum félli ekki illa að hvíla við hlið foreldra okkar og hann þarf engin leyfi til að heimsækja alla þá staði sem voru honum kærastir því þótt þreyttur líkami sé lagður í mold ferðast hin frjálsa sál hvert sem hugurinn kýs.

Yfir veg þinn, vorið nýtt,

vaxa blóm í hverju spori.

Allt sem fraus er aftur þítt,

allt sem kól er vermt og hlýtt.

Allt hið gamla er aftur nýtt,

yngt og prýtt af sól og vori.

Yfir veg þinn, vorið hlýtt,

vaxa blóm í hverju spori.

(Þorsteinn Gíslason.)

Ég vill þakka læknum og starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum fyrir einstaka kærleiksríka umönnun. Megi lífsins ljós lýsa ykkur, kæru vinir.

Stefanía Ragnheiður Pálsdóttir.

Vinur okkar Árni Gunnar Pálsson er látinn 86 ára að aldri. Hann kom hingað að Kalmanstungu fyrst haustið 1960 og var þá í fylgd með Gísla Kristinssyni frá Hafranesi við Reyðarfjörð. Hafði Sveinn Einarsson veiðistjóri sent hann hingað til tófuveiða, en hann fékk svo Gunnar til að aka sér, þar sem Gísli átti ekki bíl þá. Þeir Gísli voru báðir miklir áhugamenn um hvers konar veiðiskap. Gunnar starfaði við laxveiði í Árnessýslu í áratugi og var oft fengsæll í besta lagi. Gunnar var bifvélavirkjameistari að mennt, lærði þau fræði hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi og vann oft tíma og tíma við það. Einnig var hann á togara í nokkur ár. Hér í Kalmanstungu var hann jafnan tíma úr árinu meðan heilsan entist og var þá ólatur að rétta hjálparhönd við að lagfæra vélar og hvaðeina sem þurfti. Oft var gripið í lomberspil, sérstaklega meðan Kristófer frændi var við bærilega heilsu, en hann hafði afar gaman af að spila. Kona Gunnars, Dagbjörg, var oft með honum í þessum ferðum og oft komum við til þeirra í Reykjavík og þáðum góðar veitingar.

Þeirra Gunnars og Dagbjargar minnumst við Bryndís, Stefán, Kristín og Jón með mikilli hlýju og þökk fyrir liðna tíð.

Bryndís og Kalman Stefánsson.