Sigurður Gunnarsson
Sigurður Gunnarsson
Sigurður Gunnarsson fjallar um samgöngumál: "Með hliðsjón af því sem á undan er gengið ættu Seyðfirðingar augljóslega að fá næstu veggöng á Austurlandi."

ÞAÐ hefur vakið furðu mína og gremju að á sama tíma og þörfin verður æ brýnni fyrir veggöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar þá eykst þrýstingur Vopnfirðinga um göng milli Vopnafjarðar og Héraðs. Veggöngin undir Hellisheiði munu liggja um gamla eldstöð og mikilla rannsókna er þörf áður en lega ganganna verður ákveðin. Eftir sem áður verða 80 km milli Vopnafjarðar og Egilsstaða. Göngin munu því engu breyta um það að Vopnfirðingar munu áfram sem hingað til að mestu sækja menntun og þjónustu til Akureyrar og Húsavíkur, enda samgöngur að verða ágætar þangað.

Í fljótu bragði sé ég enga möguleika opnast með Hellisheiðargöngum. Þau munu t.d. engu breyta um fasteignaverð, sem er gleggsti mælikvarðinn um framfarir. Verði hins vegar Fjarðaleiðin boruð (frá Eskifirði um Norðfjörð, Mjóafjörð og Seyðisfjörð til Egilsstaða), mun fasteignaverð á Seyðisfirði þrefaldast, í Mjóafirði tvöfaldast, hækka um 50% í Neskaupstað og viðhaldast eðlilegt miðað við byggingakostnað á Egilsstöðum, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Vænta má verulegrar fólksfjölgunar sérstaklega á Seyðisfirði og í Mjóafirði. Göngin munu tengja saman í eina þjónustuheild 7 byggðakjarna með samtals 12–15 þús. íbúa. Það kalla ég mikinn og góðan árangur.

Fram til þessa hefur því miður verið fjölmenn andstaða við veggangagerð á höfuðborgarsvæðinu. Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur þótt eðlilegast að þetta einangraða, þreytta og menningarsvelta fólk flytji suður og að vegaféð verði frekar notað til samgöngubóta á höfuðborgarsvæðinu, öllum fyrir bestu! Árangur í veggangamálum fram til þessa má fyrst og fremst þakka samstöðu Vestfirðinga, Norðlendinga og Austfirðinga um forgangsröð verkefna. Norðlendingar voru af öryggisástæðum settir fremst með Ólafsfjarðarmúlann, síðan komu Vestfirðingar vegna nær algerrar vetrareinangrunar Súgandafjarðar og Flateyrar og þá Austfirðingar með einhvern sinna fjölmörgu valkosta. Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) árið 1985 samþykkti að lokum samhljóða að Hellisheiðargöng skyldu vera fyrsti veggangakostur Austfirðinga. Ári síðar var Vopnfirðingum hins vegar boðinn vegur yfir Hellisheiði og uppbygging vegarins norður. Innan SSA var þeim þá rækilega gerð grein fyrir því að ef þeir samþykktu að ráðstafa vegafé fjórðungsins í veg yfir fjallið væru þeir ekki lengur í forgangsröð um að fara síðan í gegnum það. Þeir völdu veginn yfir og upphófst þá barátta um Fáskrúðsfjarðargöng eða Seyðisfjarðargöng. Aftur bökkuðu Seyðfirðingar til að samstaða næðist, nú í nafni arðseminnar. Fáskrúðsfjarðargöngin hafa síðan rækilega sannað sig, íbúum fjölgar hratt á Fáskrúðsfirði og íbúðaverð hefur þrefaldast.

Með hliðsjón af því sem á undan er gengið ættu Seyðfirðingar augljóslega að fá næstu veggöng á Austurlandi. En fljótt skipast veður í lofti og með tilkomu álversins við Reyðarfjörð verða jarðgöng milli Norðfjarðar og Eskifjarðar algert bráðamál. Gríðarlegur vinnuaflsskortur er Eskifjarðarmegin og æpandi þörf fyrir bætt aðgengi að framhaldsskóla, sjúkrahúsi og fleiri stofnunum Fjarðabyggðar Norðfjarðarmegin. – Og enn sætta Seyðfirðingar sig við annað sætið. Fyrir tilstilli "Samganga", fjölmennra samtaka áhugafólks af öllum fjörðunum um veggöng á Mið-Austurlandi, hefur náðst ný samstaða um svonefnda Fjarðaleið. Byrjað verði á göngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og endað á göngum milli Seyðisfjarðar og Héraðs, göngunum sem þrisvar hefur verið vikið úr forgangssætinu.

Seinkun Seyðisfjarðarganga er ekki vegna minnkandi þarfar, síður en svo. Bæjarfélagið hefur orðið fyrir skelfilegum áföllum síðustu tvo áratugi, margháttuð iðnaðar-, verslunar- og útgerðarstarfsemi hefur lagst af og íbúum fækkað úr 1.000 í 750. Afleitar samgöngur valda þar mestu. Þrátt fyrir það er ótrúlegur kraftur í samfélaginu, félags- og menningarlíf í blóma, einstök félagsaðstaða, hótel, veitingastaðir, pöbbar, átta verslanir og vikulegar ferjuferðir frá Skotlandi og meginlandi Evrópu. Þá býr á staðnum fjöldi iðnaðar- og listafólks í hinum ýmsu greinum þó svo að markaðurinn sé að mestu handan 630 m hárrar heiðarinnar. Það verða því engar smáframfarir þegar Fjarðaleiðin opnast og heimamarkaðurinn 10–15 faldast með samtengingu sjö byggðakjarna.

Það kemur því eins og skrattinn úr sauðarleggnum að Vopnfirðingar skuli enn krefjast þess að Hellisheiðargöng verði næstu jarðgöng á Austurlandi. Ég samgleðst þeim að sjálfsögðu yfir nýja veginum norður, hann verður ágæt samgöngubót. En í guðanna bænum hættið að standa í vegi fyrir mestu samgöngubyltingu á Austurlandi fyrr og síðar.

Höfundur býr á Seyðisfirði og er fyrrverandi sveitarstjóri á Fáskrúðsfirði.