Vilborg Gunnarsdóttir
Vilborg Gunnarsdóttir
Vilborg Gunnarsdóttir fjallar um stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík: "Stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík er risastórt mál. Bæjarbúar verða að fá aðgang að upplýsingum þar sem allar hliðar málsins eru rækilega kynntar."

Hafnfirðingum barst á dögunum "gjöf" frá Alcan í Straumsvík, geisladiskur með Björgvini Halldórssyni. Rannveig Rist forstjóri skrifaði bréf með þar sem hún segist vera að minnast stórafmælis verksmiðjunnar en reyndar tekur hún fram í lokin að á næstunni ætli hún að kynna okkur frekari áform um stækkun verksmiðjunnar um helming.

Ég hef ekki myndað mér skoðun um hvort ég sé hlynnt stækkun eður ei og þigg með þökkum allar málefnalegar upplýsingar sem aðstoða mig við það. Í gær var mér hins vegar misboðið þar sem svo augljóslega er verið að reyna að "kaupa" kjósendur. Ekki minnist ég þess t.d. að hafa heyrt um viðlíka "gjafir" til Hafnfirðinga á öðrum stórafmælum verksmiðjunnar í gegnum tíðina.

Hér er um afskaplega ójafnan leik að ræða. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar með meirihluta Samfylkingarinnar í fararbroddi hefur lýst sig fylgjandi stækkun. Lúðvík Geirsson bæjarstjóri lætur hafa eftir sér í gær að hann treysti bæjarbúum til að láta "gjöfina" ekki hafa áhrif á hvernig þeir muni kjósa. Alcan hefur yfirburðastöðu hvað fjármagn snertir og því er þeim leikur einn að senda út einhliða upplýsingar. Þarna eru saman í liði tveir risar sem leggjast á eitt um að koma hagsmunum sínum í gegn. Er þetta lýðræði?

Ef Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er annt um lýðræði ætti hún að veita fjármagn til þeirra afla sem vilja koma öðrum sjónarmiðum á framfæri en þeim sem hún er hlynnt. Og hverjar verða svo reglurnar varðandi kosningarnar? Ætlar Samfylkingin kannski að beita sömu reglum og R-listinn í flugvallarkosningunni? Ég kalla eftir umræðum um það. Vitaskuld er farsælast að láta kjósa um stækkun Alcan samhliða þingkosningum í vor en þá er hætta á því fyrir talsmenn stækkunar að fleiri láti álit sitt í ljós. Ef kosið er á öðrum tíma er nefnilega miklu líklegra að stór hluti kjósenda sitji heima.

Stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík er risastórt mál. Bæjarbúar verða að fá aðgang að upplýsingum þar sem allar hliðar málsins eru rækilega kynntar. Bæjarstjórn ber skylda til að leggja sitt af mörkum hvað þetta snertir og velta þá upp öllum flötum málsins.

Í dag ætla ég að endursenda "gjöfina" mína til Rannveigar því mér er misboðið. Ég er fullkomlega fær um að mynda mér málefnalegar skoðanir og er ekki til sölu.

Höfundur er fulltrúi og íbúi í Hafnarfirði.