Derek Lovelock, forstjóri Mosaic.
Derek Lovelock, forstjóri Mosaic.
TAP var á rekstri Mosaic Fashions á þriðja fjórðungi rekstarárs fyrirtækisins, tímabilið frá 28. júlí til 28. október.

TAP var á rekstri Mosaic Fashions á þriðja fjórðungi rekstarárs fyrirtækisins, tímabilið frá 28. júlí til 28. október. Nam tapið 1,4 milljónum punda eftir skatta, sem samsvarar 195 milljónum króna á núvirði, en á sama tímabili á fyrra rekstarári var 4,5 milljóna punda hagnaður af rekstrinum. Afkomuspá fyrir árið allt hefur verið lækkuð og er nú gert ráð fyrir 63 milljóna punda hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnskostnað.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu er haft eftir Derek Lovelock, forstjóra Mosaic, að árið hafi verið erfitt hjá fyrirtækjum sem selja tískufatnað fyrir ungt fólk í Bretlandi, einkum þó haustið og veturinn. Við þetta hafi bæst slök frammistaða Oasis-keðjunnar, sem er í eigu Mosaic, og hafi bætt staða Karen Millen og Coast-merkjanna ekki nægt til að vinna upp á móti því.

Þá segir að frammistaða Mosaic í Bretlandi skýrist að stórum hluta af harðnandi samkeppni og samdrætti í verslun en í öðrum löndum sé útlitið mun bjartara. Þannig hafi tekjur Karen Millen fyrir utan Bretland aukist um 67% á árinu og tekjur Oasis erlendis hafi aukist um 20%.