Davíð Oddsson
Davíð Oddsson
DAVÍÐ Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að brotthvarf sitt af vettvangi stjórnmálanna hafi ekki skaðað Sjálfstæðisflokkinn, heldur þvert á móti sem sýni að hann hafi farið á réttum tíma.

DAVÍÐ Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að brotthvarf sitt af vettvangi stjórnmálanna hafi ekki skaðað Sjálfstæðisflokkinn, heldur þvert á móti sem sýni að hann hafi farið á réttum tíma. Þetta kemur m.a. fram í viðtali Örnu Schram blaðamanns við Davíð sem birtist í nýjasta hefti norræna tímaritsins Nordisk Tidskrift . Í viðtalinu er farið yfir stjórnmálaferil Davíðs og hvaða áhrif starf á nýjum vettvangi hefur haft á líf hans og tómstundir.

Davíð er m.a. spurður um átök fylkinga í Sjálfstæðisflokknum og segir: "Ég heyrði að ungur maður sem ætlar að verða framkvæmdastjóri flokksins, sagði að sitt fyrsta verk yrði að sameina flokkinn fyrir kosningar. Ég veit ekkert um hvað þessi ágæti maður er að tala."

Aðspurður kveðst Davíð sakna svolítið átakanna í lífi stjórnmálamannsins – þess að takast á um hvort hugmynd verði að veruleika. Hins vegar telur hann þátttöku í stjórnmálum ekki eftirsóknarverða.

"Þegar fólk segist ætla í prófkjör segist ég vona að það nái árangri og að ég virði hugrekki þess og vilja, en þar með hafi það tekið ákvörðun um tvennt: að vera fátækt fólk allt sitt líf og í öðru lagi að sitja undir dylgjum, rógburði og svívirðingum, ef það nær einhverjum pínulitlum árangri," segir Davíð.

Meðal annars er Davíð spurður um framboð Íslands til setu í Öryggisráðinu. Hann kveðst hafa stutt þessa hugmynd í upphafi en horfið frá henni síðar meir. Fjárhagslegur kostnaður hafi m.a. vaxið honum í augum en síðan hafi verið reynt að draga mjög úr kostnaðinum. Nú óttist hann að nægum fjármunum verði ekki varið til verkefnisins. Þá segir Davíð að ráðamenn séu að lofa því að tvöfalda þróunaraðstoð sem kosti milljarðatugi, í tengslum við framboðið. Honum finnst mjög óskynsamlegt að gera það of hratt. Framlag Íslendinga til þróunaraðstoðar hafi aukist mikið því það sé hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Spurður um aðild að Evrópusambandinu (ESB) segir Davíð að Ísland hafi ekkert í ESB að sækja. Engin rök séu með aðild Íslands heldur einungis rök á móti. Aðild Norðmanna að ESB myndi heldur ekki breyta neinu fyrir Íslendinga að mati Davíðs.