Brugðið á leik Liðsmenn öryggissveita Mahmouds Abbas í snjókasti fyrir utan höfuðstöðvar palestínska forsetans í Ramallah á Vesturbakkanum.
Brugðið á leik Liðsmenn öryggissveita Mahmouds Abbas í snjókasti fyrir utan höfuðstöðvar palestínska forsetans í Ramallah á Vesturbakkanum. — AP
Jerúsalem. AP, AFP. | Stjórnvöld í Egyptalandi hafa sent öryggissveitum Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, miklar birgðir af byssum og skotfærum með samþykki Ísraelsstjórnar, að sögn ísraelskra embættismanna í gær.

Jerúsalem. AP, AFP. | Stjórnvöld í Egyptalandi hafa sent öryggissveitum Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, miklar birgðir af byssum og skotfærum með samþykki Ísraelsstjórnar, að sögn ísraelskra embættismanna í gær. Með þessu eru Egyptar og Ísraelar sagðir vilja sýna stuðning sinn við Abbas og tilraunir hans til að hefja friðarviðræður við Ísraelsstjórn.

Embættismenn í Jerúsalem sögðu að stjórn Ísraels hefði samþykkt að Egyptar sendu öryggissveitum Abbas 2.000 sjálfvirka riffla, 20.000 skothylki og tvær milljónir byssukúlna. Embættismennirnir vildu ekki láta nafns síns getið vegna þess að stjórnvöld í Ísrael, Egyptalandi og á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna höfðu ekki staðfest fréttina.

Abbas hefur átt í harðvítugri valdabaráttu við Hamas-hreyfinguna og lengi reynt að efla öryggissveitir sínar. Ísraelsstjórn færðist í fyrstu undan því að samþykkja vopnasendinguna þar sem hún hafði áhyggjur af því að vopnin kynnu að verða notuð gegn Ísraelum. Afstaða Ísraelsstjórnar virðist hafa breyst vegna vinsamlegra viðræðna Abbas við Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, auk þess sem henni er í mun að Abbas hafi betur í valdabaráttunni við Hamas.

Samdi við Olmert

Ísraelska dagblaðið Haaretz sagði að Olmert og Abbas hefðu samið um vopnasendinguna á fyrsta fundi sínum í Jerúsalem á laugardaginn var.

Hamas og Fatah-hreyfing Abbas hafa tekist á um völdin frá því að Hamas sigraði í þingkosningum í janúar. Sautján manns hafa beðið bana og tugir manna særst í átökum milli öryggissveita Abbas og vopnaðra liðsmanna Hamas eftir 16. desember þegar palestínski forsetinn boðaði til kosninga eftir árangurslausar tilraunir til að mynda samsteypustjórn með Hamas.