Úlfar Steindórsson formaður Bílgreinasambandsins vill upptöku grænna skatta.
Úlfar Steindórsson formaður Bílgreinasambandsins vill upptöku grænna skatta. — Morgunblaðið/Kristinn
ÁHERSLUMÁLIÐ hjá Bílgreinasambandi Íslands á næsta ári verður umræða og helst upptaka grænna skatta og niðurlagning vörugjalda af nýjum bílum.

ÁHERSLUMÁLIÐ hjá Bílgreinasambandi Íslands á næsta ári verður umræða og helst upptaka grænna skatta og niðurlagning vörugjalda af nýjum bílum. Úlfar Steindórsson, formaður Bílgreinasambandsins, segir að þetta gerist þó ekki í einu vetfangi en hann kveðst fullviss um að stjórnvöld sjái þörf á breytingum á núverandi neyslustýringu með vörugjöldum, ekki síst ef ná eigi fram yfirlýstum markmiðum á sviði umhverfismála.

Bílgreinin hefur búið við afar góða tíð undanfarin tvö til þrjú ár, ekki síst sú grein hennar sem fæst við sölu á nýjum og notuðum bílum. Á þessu ári stefnir í að sala á nýjum fólksbílum verði um 18.000 bílar og samdrátturinn frá metárinu í fyrra verði á milli 5 og 6%.

"Á árinu 2005 var gríðarlegur innflutningur, bæði á nýjum og notuðum bílum. Ef ég man rétt voru fluttir inn nálægt 5.000 notaðir bílar á því ári en 20.000 nýir fólks- og sendibílar. Á þessu ári er gert ráð fyrir 6% samdrætti frá toppári og þess vegna ekki hægt að tala um samdrátt í því samhengi. Samdrátturinn hefur verið mun meiri í innflutningi á notuðum bílum, líklega um helmings samdráttur," segir Úlfar. Hann segir að minni sala á nýjum bílum á seinni hluta þessa árs sé eðlileg afleiðing mikils innflutnings á nýjum og notuðum bílum á árunum 2005 og 2006, eða alls um 45.000 bílum.

"Þess vegna mun draga úr sölu á nýjum bílum á næsta ári og eru menn að reikna sér til að samdrátturinn verði um 20% frá þessu ári. Það er gert ráð fyrir sölu á 13–14.000 nýjum fólksbílum á næsta ári, sem væri eðlilegur innflutningur á nýjum bílum miðað við endurnýjunarþörfina," segir Úlfar.

Meðalaldur bíla hefur lækkað

Hann segir að þessi mikli innflutningur hafi lækkað meðalaldur bíla á Íslandi niður fyrir 8 ár sem er svipað og gerist og gengur í Evrópu. Úlfar segir að stóra breytingin hérlendis sé sú að bílaeign á hvert heimili sé orðin meiri en áður var og algengt að jafnmargir bílar séu á hverju heimili og ökuskírteinin eru mörg.

Úlfar segir að Bílgreinasambandið muni óska eftir því á nýju ári að það fari af stað umræða um það með hvaða hætti menn sjái fyrir sér gjaldtöku af bílum til lengri tíma. "Nú ráðast vörugjöldin af vélarstærð og þar með er verið að stýra neyslunni. Þessi aðferð hefur samt lítil áhrif haft í að stýra neyslunni yfir í bíla með minni vélum. Þar fyrir utan er það spurning hvort ríkið eigi að ákveða hvaða bíla þegnarnir kaupa. Bílgreinasambandið vill finna leið sem felur í sér að gjaldtakan verði í samræmi við það sem bílarnir menga. Það er gríðarleg framþróun í vélartækni og margar dísilvélar eru farnar að menga mjög lítið. Toyota er komið með tvinnvélar og unnið er sleitulaust að framþróun vélartækni sem dregur úr eldsneytisnotkun. Við viljum því að gjaldtakan verði í gegnum eldsneytið en vörugjöld verði felld niður. Þetta er eina leiðin ef stjórnvöld meina eitthvað með því að draga eigi úr mengun. Með þessari leið þyrfti að greiða hærri gjöld af eyðslufrekari bílum sem menga meira í gegnum eldsneytisneysluna. Það er ekki vélarstærðin sem stýrir því heldur vélartæknin," segir Úlfar.

Hann segir að víða í Evrópu sé búið að taka upp græna skatta af þessu tagi og ljóst sé að í þeim sé fólginn mikill þjóðhagslegur ábati og sömuleiðis myndu gjöld af þessu taki flýta fyrir endurnýjun bílaflotans.