Styrkir Sparisjóðurinn afhenti í gær styrki til uppbyggingar þróun og fræðslu á sviði geðheilbrigðismála.
Styrkir Sparisjóðurinn afhenti í gær styrki til uppbyggingar þróun og fræðslu á sviði geðheilbrigðismála.
Í STYRKTARÁTAKI Sparisjóðsins fyrir átta félagasamtök til verkefna á sviði uppbyggingar, fræðslu, og þróunar í geðheilbrigðismálum söfnuðust alls 21.433.000 kr.

Í STYRKTARÁTAKI Sparisjóðsins fyrir átta félagasamtök til verkefna á sviði uppbyggingar, fræðslu, og þróunar í geðheilbrigðismálum söfnuðust alls 21.433.000 kr. Styrktarátakinu lauk á aðfangadag jóla en styrkirnir voru afhentir forsvarsmönnum félaganna í gær.

Til að taka þátt í átakinu þurftu viðskiptavinir Sparisjóðsins ekki að kosta neinu til, heldur aðeins að velja eitt af verkefnunum átta og gaf Sparisjóðurinn jafnharðan þúsund krónur til þess verkefnis. Viðskiptavinir voru þó hvattir til að bæta við viðbótarframlagi, en einnig var opnaður söfnunarsími svo allir landsmenn gætu tekið þátt í verkefninu. Styrkirnir skiptust samkvæmt vilja viðskiptavina og annarra þátttakenda.

Hæstan styrk hlaut Geðhjálp, 4,8 milljónir króna sem verður varið til eflingar og uppbyggingar félagsins á landsbyggðinni með stofnun sjö nýrra deilda. Önnur félög sem fengu styrk eru: ADHD-samtökin, til fræðslu- og kynningarstarfs á landsbyggðinni um málefni þeirra sem glíma við ofvirkni og athyglisbrest; Forma, til að stofna ráðgjafarsetur á vegum Forma þar sem átröskunarsjúklingar geta átt öruggt athvarf; Hugarafl, til undirbúnings Hlutverkaseturs, þar sem fólki á batavegi eru veitt tækifæri á almennum vinnumarkaði; Klúbburinn Geysir, til uppbyggingar atvinnu- og menntadeildar þar sem fólk á batavegi getur tekið fyrstu skrefin í vinnu eða skóla; Ný leið, til tilraunaverkefnisins "Lífslistin" sem er námskeið fyrir unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða; Rauði krossinn, til fræðslunámskeiða víða um land fyrir aðstandendur geðfatlaðra og áhugafólk um geðheilbrigðismál, og Spegillinn, til fræðsluátaks og forvarna gegn átröskunum og sjálfseyðandi lífsstíl í grunnskólum og framhaldsskólum.