SVÆÐISFÉLAG Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu flugumferðarstjórnarinnar og skorar á stjórnvöld að falla frá gildistöku laga þar að lútandi nú um áramótin.

SVÆÐISFÉLAG Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu flugumferðarstjórnarinnar og skorar á stjórnvöld að falla frá gildistöku laga þar að lútandi nú um áramótin. Vandkvæði við ráðningu flugumferðarstjóra máttu vera fyrirsjáanleg þegar ákvörðun var tekin um að hlutafélagavæða flugumferðarstjórnina, segir í ályktun frá VG á Akureyri.

"Þessi vandkvæði munu hafa bein áhrif á flug til og frá Akureyrarflugvelli. Verði þar ekki starfandi flugumferðarstjórar með fyllstu réttindi eftir áramótin, mun þjónustustig flugvallarins lækka með margvíslegu óhagræði og truflun á flugsamgöngum. Mikilvægi Akureyrarflugvallar og nauðsyn á stækkun hans og eflingu, hefur mjög verið í umræðunni að undanförnu. Vandræðum sem stafa af þessari stjórnkerfisbreytingu er ekki á bætandi, og gífurlegir hagsmunir í húfi. Svæðisfélag VG á Akureyri skorar á stjórnvöld að falla frá gildistöku laga um hlutafélagavæðingu flugumferðarstjórnarinnar nú um áramótin, og leggja þannig meira upp úr hagsmunum ferðaþjónustu og annarra atvinnuvega á landsbyggðinni og almennum þjóðarhag en einstrengingslegri einkavæðingarstefnu sinni," segir í ályktuninni.