LABEYRIE, dótturfélag Alfesca í Frakklandi, hefur hafið sölu á íslenskum eldislaxi undir sínum merkjum en Labeyrie er eitt sterkasta vörumerkið á frönskum matvörumarkaði. Var laxinn seldur í frönskum verslunum fyrir hátíðarnar og voru viðtökur góðar.

LABEYRIE, dótturfélag Alfesca í Frakklandi, hefur hafið sölu á íslenskum eldislaxi undir sínum merkjum en Labeyrie er eitt sterkasta vörumerkið á frönskum matvörumarkaði. Var laxinn seldur í frönskum verslunum fyrir hátíðarnar og voru viðtökur góðar. Labeyrie kaupir laxinn af HB Granda og Samherja.

Metnaðarfull gæðastefna

Labeyrie er stærsti framleiðandi á reyktum laxi í Evrópu og leiðandi á mörkuðum fyrirtækisins í Frakklandi og víðar. "Labeyrie rekur metnaðarfulla gæðastefnu og var m.a. fyrst fyrirtækja til að markaðssetja reyktan lax í Frakklandi eftir upprunalandi hráefnisins. Hingað til hefur reyktur lax frá Labeyrie komið frá Noregi, Skotlandi og Írlandi. Útsöluverð er mismunandi og hefur írski laxinn til að mynda verið seldur sem fyrsta flokks lax og dýrari samkvæmt því. Í ár hafði Labeyrie áhuga á að auka enn frekar úrvalið í reyktum laxi. Í því sambandi var viðhorf viðskiptavina til mismunandi upprunalanda kannað og var niðurstaðan sú að þeir flokkuðu íslenskan lax í hæsta gæðaflokki á undan laxi frá Kanada, Danmörku, Færeyjum og Chile. Er talið að þessi viðhorf megi almennt rekja til góðrar ímyndar landsins og hreinnar náttúru en slík gildi falla vel að vöruþróunarstefnu Labeyrie.

16.000 tonn af laxi seld á fjárhagsárinu

Ef salan á íslenska laxinum gengur vel ættu það að vera góðar fréttir fyrir íslenskt laxeldi en þess má geta að Alfesca seldi tæp 16 þúsund tonn af laxi á fjárhagsárinu 2005–2006," segir í frétt frá Alfesca.

Framleiðsla og sala á reyktum laxi í Evrópu hefur gengið misjafnlega undanfarin ár. Þar hafa ráðið mestu gífurlegar sveiflur á hráefnisverð, en verð á ferskum heilum laxi frá Noregi var í sögulegu hámarki fyrir nokkrum misserum. Verðið hefur lækkað verulega á ný og er nú talið í þokkalegu jafnvægi.