Ferðalangar Tónleikar Hrafnhildar Björnsdóttur og Martyn Parkes nefnast Umhverfis jörðina á 45 mínútum.
Ferðalangar Tónleikar Hrafnhildar Björnsdóttur og Martyn Parkes nefnast Umhverfis jörðina á 45 mínútum.
"ÞETTA gengur mjög vel, við setjum okkur bara í það hlutverk að vera söngkonan og píanóleikarinn," segir Hrafnhildur Björnsdóttir sópransöngkona og hlær, en hún og eiginmaður hennar, píanóleikarinn Martyn Parkes halda tónleika í Hjallakirkju á...

"ÞETTA gengur mjög vel, við setjum okkur bara í það hlutverk að vera söngkonan og píanóleikarinn," segir Hrafnhildur Björnsdóttir sópransöngkona og hlær, en hún og eiginmaður hennar, píanóleikarinn Martyn Parkes halda tónleika í Hjallakirkju á morgun kl. 17.

Það er ekkert mál fyrir hjónin að vinna saman að sögn Hrafnhildar, þau hafa góðan flygil heima, og svo hlýtur það auðvitað að vera draumur hvers söngvara að hafa aðgang að píanista – alltaf.

Hrafnhildur og Martyn búa og starfa í Manchester. Hann er kennari við Chetham tónlistarskólann þar í borg og starfar mikið með söngvurum. Hrafnhildur hefur haft í nógu að snúast í söngnum.

Þau kalla tónleikana: Umhverfis jörðina á 45 mínútum. "Já, prógrammið tekur 45 mínútur í flutningi, fyrst ljóð, og svo léttari tónlist eftir hlé. Við stoppum ekki í hverju landi í heiminum, en af því við förum svo langt – Jórunn Viðar fer með okkur alla leið til Kína, fannst okkur þetta skemmtilegt nafn, " segir Hrafnhildur, en meðal tónskáldanna eru Fauré, Johann Strauss og Verdi, en eftir hann syngur Hrafnhildur aríuna Caro nome úr Rigoletto.

Að undanförnu hefur Hrafnhildur sungið með Skosku óperunni og þar áður með Ensku farandóperunni, English Touring Opera, þar sem Garðar Thór Cortes hefur einnig verið. "Þar söng ég bæði Næturdrottninguna og fyrstu dömu í Töfraflautunni. Við hjónin höfum verið með óperu-galakvöld saman, en svo kem ég líka fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri, til dæmis í óratóríum." Næsta haust er von á Hrafnhildi heim til að syngja með Íslensku óperunni, en enn sem komið er er það leyndarmál hvað Hrafnhildur syngur þar og þá.