ÚTHLUTAÐ var í annað sinn fyrir skömmu námsstyrkjum úr minningarsjóði Maríu Kristínar Stephensen. Tilgangur sjóðsins er að styrkja konur útskrifaðar úr framhaldsskólum á Akureyri til háskólanáms á sviði raunvísinda eða lista.

ÚTHLUTAÐ var í annað sinn fyrir skömmu námsstyrkjum úr minningarsjóði Maríu Kristínar Stephensen. Tilgangur sjóðsins er að styrkja konur útskrifaðar úr framhaldsskólum á Akureyri til háskólanáms á sviði raunvísinda eða lista.

"Að þessu sinni úthlutaði sjóðurinn styrkjum til náms í listum. Alls bárust átta umsóknir frá mjög hæfum listakonum. Ákveðið var að styrkurinn færi til tveggja kvenna, Nicole Völu Cariglia, sem stundar doktorsnám í sellóleik við Boston University og Ragnheiðar Jónsdóttur, sem nýlega hóf bakkalárnám í lágfiðluleik við Conservatorium van Amsterdam," segir í tilkynningu.

"María Kristín Stephensen, sem sjóðurinn er stofnaður til minningar um, var dóttir Þorvalds Thoroddsens náttúrufræðings og Halldóru Kristjánsdóttur og fæddist á Möðruvöllum 1883.

Hún var fárra vikna gefin hjónunum Önnu Sigríði Pálsdóttur Melsteð og Stepháni Stephensen, umboðsmanni, sem bjuggu hér á Akureyri. Þau hjón voru vel efnuð og barnlaus og ólu Maríu upp í miklu ástríki og eftirlæti. María lærði píanóleik í Reykjavík og hugði á frekara nám erlendis, en veiktist af brjósthimnubólgu og síðar berklum og lést í janúar 1907.

Fósturforeldrar hennar sömdu erfðaskrá og vörðu mestum hluta eigna sinna til að stofna nokkra minningarsjóði um Maríu. Einn þeirra var ætlaður til að koma á fót kvennaskóla á Akureyri. Ný skipulagsskrá var gerð um þann sjóð árið 2003 og er það sá sjóður sem nú er úthlutað úr í annað sinn.

Stjórn sjóðsins er skipuð þremur aðilum, einum skipuðum af menntamálaráðherra, einum af bæjarstjórn Akureyrar og einum af rektor Háskólans á Akureyri. Í stjórn sjóðsins sitja nú Hildur Gísladóttir læknir, Hrefna Kristmannsdóttir prófessor og Laufey Petrea Magnúsdóttir kennslustjóri," segir í tilkynningu frá sjóðnum.