Bjarni Ólafsson, skósmíða- og pípulagningameistari, fæddist í Reykjavík 16. nóvember 1920. Hann lést á St. Jósepsspítala í Hafnarfirði 20. desember síðastliðinn. Hann var miðbarn þriggja alsystkina, sonur Jakobínu Bjarnadóttur, f. í Hafnarfirði 16. sept. 1886, d. 12. jan. 1970, og Ólafs Áka Vigfússonar, f. í Skipholti í Reykjavík 29. jan. 1877, d. 7. maí 1961. Alsystkini Bjarna voru Ásgerður, f. 26. maí 1917, d. 4. jan. 1995 og Stefnir, f. 16. apríl 1927, d. 31. ágúst 1995. Bjarni átti einnig tvö hálfsystkini samfeðra, Pálma, f. 12. des. 1898, d. 27. okt. 1989, og Laufeyju, f. 17. maí 1902, d. 9. feb. 1985. Hinn 24. nóvember 1945 kvæntist Bjarni Fríðu Ásu Guðmundsdóttur, húsmóður og starfsstúlku við Öldutúnsskóla og á Hótel Loftleiðum, f. á Hellissandi 29. júlí 1924. Fríða er dóttir Guðrúnar Ásbjörnsdóttur, f. á Hellissandi 2. okt. 1895, d. 20. mars 1996, og Guðmundar Guðbjörnssonar, skipstjóra, frá Sveinsstöðum undir Enni, f. 15. okt. 1895, d. 18. sept. 1934. Bjarni og Fríða Ása hófu búskap í Hafnarfirði og bjuggu þar öll sín hjúskaparár. Á 6. áratugnum byggðu þau sér hús á Ölduslóð 21 og fluttu þaðan fyrir rúmu ári í glæsilega, nýja íbúð á Herjólfsgötu 40. Bjarna og Fríðu varð fimm barna auðið. Þau eru: 1) Guðrún Erla íslenskufræðingur, f. 26. mars 1946. Maki Þórarinn Björnsson, f. 11. júlí 1940. Börn Guðrúnar Erlu af fyrra hjónabandi eru a) Sigrún Rohleder, f. Martin, 24. feb. 1971, gift Frederic Rohleder, f. 7. des. 1968. Dætur þeirra eru Berglind Anna, f. 4. jan. 1997, Vigdís Kristín, f. 23. okt. 1998 og Eygló Ruth, f. 28. jan. 2003. b) Thomas Martin, f. 9. feb. 1973. Maki Kerstin Zwick, f. 16. des. 1971. Dóttir þeirra Liska Björk, f. 19. jan. 2005. Faðir Sigrúnar og Thomasar: Rüdiger Friedrich Karl Martin, f. 1. apríl 1940, d. 8. apríl 1995. Móðir Rüdigers, tengdamóðir Guðrúnar Erlu, er Ruth Elisabeth Johanna Martin, f. 2. júní 1913, búsett hjá sonardóttur sinni, Sigrúnu og fjölskyldu, í Hafnarfirði. 2) Ólafur læknir, f. 24. júní 1953. Maki Golnaz Naimy, f. 8. des. 1967. Börn: a) Rós, f. 5. maí 2000. b) Róbert, f. 27. mars 2005. Börn Ólafs af fyrra hjónabandi: a) Silkisif, f. 26. nóv. 1983, d. 4. des. 1983. b) Kjartan, f. 13. apríl 1985. Móðir þeirra: Christel Beck, f. 13. ágúst 1955. 3) Berglind mezzosópran og tónlistarkennari, f. 6. apríl 1957, d. 10. des. 1986. Maki Rúnar Matthíasson, f. 12. apríl 1953. 4) Guðmundur Rafn viðskiptafræðingur, f. 18. apríl 1960. Maki Margrét Gunnlaugsdóttir, f. 7. maí 1961. Dætur þeirra: a) Hólmfríður, f. 2. des. 1994. b) Auður, f. 22. okt. 1998. Synir Margrétar: Andri Ólafsson, f. 29. nóv. 1980 og Freyr Arnaldsson, f. 4. apríl 1988. 5) Dr. Birna, prófessor við Manitoba-háskóla, f. 11. apríl 1961. Dóttir hennar: Ása Helga, f. 1. ágúst 1984. Faðir Ásu Helgu: Hjörleifur Hjartarson, f. 5. apríl 1960. Birna var gift Þorvaldi Sverrissyni, f. 26. nóv. 1966.

Bjarni var af Húsafellsætt í móðurætt og af Bergsætt í föðurætt. Hann nam ungur skósmíðar, sótti sjóinn, fór á síld, vann um tíma hjá Lýsi og mjöli í Hafnarfirði, lærði síðan pípulagnir og varð pípulagningameistari. Í áraraðir starfaði Bjarni hjá ÍAV á Keflavíkurflugvelli. Hann var vandvirkur fagmaður með verksvit. Bjarni var fróðleiksfús, hafði mikinn áhuga á tungumálum, lærði esperanto hjá Þórbergi Þórðarsyni og Margréti, konu hans, og gluggaði í rússnesku. Auk ensku talaði hann reiprennandi dönsku og þýsku. Hann var bókhneigður, naut þess að dansa og hafði unun af góðum kvikmyndum.

Útför Bjarna verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag klukkan 15.

Svo líða þeir einn og einn

hinir efri dagar.

...

"Guði sé lof fyrir góða menn,

bæði burtu farna, þá sem eru og ókomna ..."

Fyrir einhverjar sakir loða

þessir löngu skuggar við húð okkar.

Og kvölddyrnar ljúkast upp senn.

Kvölddyrnar.

(Hannes Pétursson)

Fyrir langa löngu sagði einn frændinn að við systkinin hefðum verið lunkin við val okkar á foreldrum og hefðum borið gæfu til að tileinka okkur það besta í fari þeirra, bókhneigð og vandvirkni pabba og fegurðarskyn og örlæti mömmu.

Nú er pabbi farinn yfir í æðri veröld. Hann var barn síns tíma, kreppubarn. Pabba þótti afskaplega vænt um höfuðstaðinn. Þar sleit hann barnsskónum.

Pabbi var fjallmyndarlegur, þéttur á velli, með þykkt og mikið hár. Hár hans var rautt og krullað. Hann hafði falleg, grá augu. Pabbi var greindur vel og líktist í háttum Spartverjum, var agaður og reglusamur. Hann bar eigi tilfinningar sínar á torg. Í eitt einasta skipti varð ég vitni að því að hann grét og hann grét sáran. Það var þegar Linda dó.

Pabbi byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Hann setti öryggið á oddinn og skaffaði vel til heimilisins. Mamma kom með ylinn í húsið, birtuna og fegurðina. Um okkur, börnin þeirra, var vel hugsað.

Pabbi var kærleiksríkur, ekki raupsamur, og hann elskaði mömmu og okkur. Það sem einkum einkenndi pabba var hversu tær hann var.

Í dag verður hann lagður til hinstu hvílu við hlið Lindu sinnar.

Ég hlakka til að hitta hann fyrir hinum megin.

Guðrún Erla Bjarnadóttir.

Von guten Mächten wunderbar geborgen,

erwarten wir getrost, was kommen mag.

Gott ist bei uns am Abend und am Morgen

und ganz gewiss an jedem neuen Tag.

(Dietrich Bonhöffer)

Þá er komið að því að kveðja afa Bjarna. Við vissum að kveðjustundin var í nánd og erum, stelpurnar mínar og ég, þakklátar fyrir að hafa átt þess kost að kveðja hann á St. Jósepsspítala. Að kveðja er þó ekki auðvelt. "Hann var svo góður afi," sagði Vigdís Kristín. Ég man hvað afa fannst ávallt gaman að spjalla við Frederic, manninn minn, og hvað hann var áhugasamur um starf hans, sem er frábrugðið þeirri sjómennsku, er afi vandist á síldarbáti við Íslandsstrendur á stríðsárunum.

Afi var góður við barnabarnabörnin sín og gladdist þegar þau komu í heimsókn. Hann hélt gjarna á þeim og bað þau að segja sér frá því, sem á daga þeirra hafði drifið, í skólanum, leikskólanum.

Það gleður mig að hafa upplifað afa minn mildast með árunum því að mér þótti hann strangur þegar við systkinin, Thomas og ég, komum í sumarfrí til Íslands frá Þýskalandi hér á árum áður. En þá starfaði afi á Keflavíkurflugvelli og vildi frá frið til að hvílast um helgar.

Í mínum huga var afi réttlátur og sanngjarn. Hann var skyldurækinn og vinnusamur; alltaf eitthvað að bauka, dytta að húsinu, gera við skó, pússa skó. Mér finnst eins og hann hafi getað allt. Afi var þúsundþjalasmiður. Ég sé hann fyrir mér, löngu eftir að hann var kominn á eftirlaun, klifra upp stigann og upp á húsþakið til að mála það. Við, amma, mamma og ég, stóðum skjálfandi á beinunum og héldum dauðahaldi í stigann. En afi lét engan bilbug á sér finna. Þess vegna var erfitt að horfa upp á hann missa mátt og leggjast í rúmið.

Ég er alveg viss um að þú heldur áfram að inna ýmis verk af hendi, afi, að þessu sinni Guðsverk. Berglind tekur á móti þér og verður stoð þín og stytta fyrir handan á sama hátt og amma Fríða hefur verið hérna megin. Við munum halda utan um ömmu. Hún var þungamiðja lífs þíns og þú varst bakhjarl hennar.

Frederic biður að heilsa þér af skipinu og sendir ömmu innilegar samúðarkveðjur. Einnig föðuramma mín, Ruth Martin, svo og Thomas, Kitty og Liska Björk frá Oldenburg. Vertu sæll, afi.

Sigrún og stelpurnar.

Kveðjustundin er runnin upp. Stund sem ekki var hægt að sjá hvenær ætti sér stað eða hvernig birtast myndi. Hafði skotið upp í huga mínum sem umhugsunar- eða jafnvel áhyggjuefni, en var á endanum friðsældar samverustund og falleg kveðja þess er nú kvaddi maka sinn, eftirlifandi börn og aðra afkomendur.

Hann faðir minn hefur skilað ævistarfi sínu og það samviskusamlega. Hvort sem var við launuð störf, lengst af við pípulagnir hjá verktökunum, eða tilfallandi verk og viðhald heima fyrir, gætti ávallt ýtrustu vandvirkni og góðs frágangs. Þar fór maður sem bar virðingu fyrir eigin handverki, sem og annarra er fag sitt kunnu. Það kom ungum manni vel, bæði við hjólreiða- og mótorhjólaviðgerðir, smíði dúfnakofa og lausn annarra lífsins verkefna að hafa þennan handverksmann að föður. Alltaf var hann boðinn og búinn að rétta hjálparhönd og kenna manni handbrögðin.

Heimili foreldra minna á Ölduslóð 21 í Hafnarfirði var ávallt það skjól sem hvert barn gat unað vel við. Allir fengu í sig og á, allir fengu sína skólagöngu og allir höfðu stuðning hver af öðrum. Pabbi var mikið frá heimilinu vegna vinnu sinnar og stóð mamma vaktina með okkur systkinin fimm. Hún hafði þó bæði stuðning af ömmu heitinni Guðrúnu sem bjó á neðri hæðinni og Helgu heitinni systur sinni, sem jafnframt var með fullt hús barna og bjó um tíma einnig við götuna okkar í Hafnarfirði. Þær systur voru samhentar og óbilandi í stuðningi hvor við aðra.

Helgarnar í uppvextinum voru ávallt tilhlökkunarefni því þá átti pabbi frí og kom oft heim með sætindi af Vellinum. Það voru ekki frídagar á laugardögum á fyrri árum nema eftir hádegi en þó ekki alltaf svo. Ótruflaðar samverustundir útivinnandi og þreyttrar fyrirvinnunnar og heimavinnandi húsmóðurinnar, sem sótti síðar hlutastörf út fyrir heimilið, voru ekki margar. Húsið fullt af börnum og tengdamamma á neðri hæðinni. Spurningar vakna um hvernig þetta var yfirleitt hægt í þá daga. Auðvitað var lífið ekki alltaf dans á rósum og vissulega gat verið stirðleiki í sambandi hinna fullorðnu. Skap foreldra minna og lundarfar, svo ólíkt sem það var. Það vantaði þó ekki samræmið hjá þeim pabba og mömmu þegar kom að því að sinna sínum þegar eitthvað bjátaði á eða ef einhver átti undir högg að sækja. Þegar svo var kom hinn innri maður pabba fram. Við sem þekktum þennan trausta mann munum varðveita góða minningu um hann. Hann sem stóð að baki örygginu og festunni í lífi okkar sem næst honum stóðu. Bjarni Ólafsson stóð alltaf óhaggaður vörð um lífsgildi sín og var væntanlega ekki allra. Mikil nægjusemi og rósemd eru manni efst í huga. Bjarni hljóp aldrei lífsgæðakapphlaupið og sá ekki þörfina fyrir að vera á eilífum þeysingi um sjó og lönd. Á Ölduslóðinni hafði hann það sem honum var kærast og starf sitt vann hann fram á áttræðisaldur.

Við systkinin og mamma þökkum fyrir að hafa fengið að njóta og vera í skjóli föður míns, svo og fyrir að upplifa og deila ásýnd hans á lífið og tilveruna. Við kveðjum hann pabba í dag og varðveitum um hann góðar minningar.

Guðmundur Rafn og fjölskylda.