MORGUNBLAÐINU barst í gær eftirfarandi athugasemd frá Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði: "Í Morgunblaðinu í gær er birt fréttatilkynning frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði þar sem kemur m.a.

MORGUNBLAÐINU barst í gær eftirfarandi athugasemd frá Lúðvík Geirssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði:

"Í Morgunblaðinu í gær er birt fréttatilkynning frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði þar sem kemur m.a. fram að skuldir Hafnarfjarðarbæjar hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og að yfirlýsingar bæjarstjóra um verulega niðurgreiðslu lána standist ekki.

Það er hægt að beita ýmsum reikningskúnstum til að fá þá niðurstöðu sem hentar hverju sinni og greinilegt er að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kunna ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Fyrir það fyrsta eru tíndar til skuldsetningar fyrir fjárhagsárið 2002 úr síðustu fjárhagsáætlun þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og síðan er bætt inn áætlunum fyrir komandi fjárhagsár 2007. Þar að auki er hvergi um framreiknaðar og samanburðarhæfar tölur að ræða í þessum útreikningum.

Staðreyndin er sú að á kjörtímabilinu 2002 til 2006 náðist verulegur árangur í fjármálum Hafnarfjarðarbæjar undir forystu Samfylkingarinnar þegar langtímaskuldir Hafnarfjarðarbæjar í A-hluta sveitarsjóðs lækkuðu um þrjá milljarða króna. Þetta liggur fyrir með skýrum hætti.

Nú í árslok 2006 eru langtímaskuldir í A-hluta áætlaðar samkvæmt útkomuspá um 5,6 milljarðar króna. Þessar sömu skuldir voru í árslok 2002 á uppreiknuðu verðlagi samkvæmt vísitölu neysluverðs samtals 8,6 milljarðar. Þarna munar nákvæmlega 3000 milljónum sem skuldirnar lækkuðu um á þessum tíma. Tölurnar tala sínu máli."