Íslenskt jólahald Lan Mei hefur búið á Íslandi í 10 ár og hefur tekið upp ýmsa siði sem tengjast kristinni trú þó sjálf sé hún trúleysingi. Hún heldur bæði upp á íslensk og kínversk áramót.
Íslenskt jólahald Lan Mei hefur búið á Íslandi í 10 ár og hefur tekið upp ýmsa siði sem tengjast kristinni trú þó sjálf sé hún trúleysingi. Hún heldur bæði upp á íslensk og kínversk áramót. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur Reykjanesbær | "Fyrsta jólakortið sem ég fékk var frá dönskum strák sem var að læra í Kína. Þá var ég 18 ára. Hann hafði skreytt það með jólatré, jólasveini og snjó sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var.

Eftir Svanhildi Eiríksdóttur

Reykjanesbær | "Fyrsta jólakortið sem ég fékk var frá dönskum strák sem var að læra í Kína. Þá var ég 18 ára. Hann hafði skreytt það með jólatré, jólasveini og snjó sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var. Svo las ég "Merry Christmas" og ég og vinkona mín litum hvor á aðra og spurðum: Hvað þýðir eiginlega þetta Merry Christmas?" sagði Lan Mei í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

Mei Mei, eins og hún er kölluð, er frá Suður-Kína en hefur verið búsett á Íslandi í 10 ár, nú í Reykjanesbæ ásamt eiginmanninum, Lofti Kristni Vilhjálmssyni, og tveimur sonum. Fjölskyldan hefur tekið upp ýmsar hefðir úr íslensku jólahaldi en hvorugt hjónanna er kristinnar trúar.

Það heyrist strax á máli Lan Mei að hún er ákaflega ánægð á Íslandi og hún talar góða íslensku enda virðist hún hafa verið bæði víðsýn og fordómalaus þegar hún kom hingað fyrst. Hún rak veitingahús í Suður-Kína fyrir erlenda ferðamenn og þar kynntist hún manni sínum fyrst. "Ég lærði ferðamálafræði í Kína en Kína var mjög lokað land allan þann tíma sem ég bjó þar. Í kennslubókum var varla minnst á önnur lönd og okkur var bannað að vera trúuð. Engar fréttir bárust erlendis frá þannig að umheimurinn var okkur alveg lokaður. Suður-Kína var hins vegar vinsæll ferðamannastaður en það voru engir veitinga- eða skemmtistaðir fyrir ferðamenn þarna. Mér datt því í hug að opna veitingastað í heimabæ mínum með erlendum mat, sem varð sá fyrsti í Suður-Kína," sagði Mei Mei og tekur fram að hún hafi lítið vitað um þess háttar matseld. "Systir mín, sem býr í Ameríku, sendi mér uppskriftir af til dæmis hamborgurum og frönskum kartöflum svo ég gæti búið það til."

Á veitingastað sínum kynnst Mei Mei fólki frá ýmsum löndum, sem víkkaði sjóndeildarhring hennar smátt og smátt. Þannig bauðst kennari frá Wales til að þjálfa hana í ensku gegn fríum máltíðum. Eitt sinn kom inn víðförull íslenskur ferðalangur, sem sagðist vera kokkur á veitingastað á Íslandi. Þarna var kominn Loftur Kristinn Vilhjálmsson, sem síðar varð eiginmaður Mei Mei, og eftir nánari kynni bauð hann henni til Íslands. Hún hafði aldrei heyrt á þetta land minnst en ákvað að slá til því hún hafði löngun til þess að kynnast fleiri löndum. Við tók mikil pappírsvinna og til Kína fór hún ekki aftur, nema í heimsóknir.

Mei Mei byrjaði fljótlega að læra íslensku en sló svo slöku við þegar hún vann fyrir herinn á Keflavíkurflugvelli enda var ætlun hennar alltaf að fara aftur til Kína. Hún er ekki farin enn, þó fjölskyldan stefni þangað enn þá, og hún ákvað því að taka íslenskuna fastari tökum og hefur undanfarið verið í einkakennslu. Auk þess starfar hún nú í íslensku málumhverfi, hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

Synirnir velji sjálfir

Henni líkaði vel við Ísland alveg frá upphafi og sagðist hafa fundið strax við lendingu í fyrstu heimsókninni að hér væri annað andrúmsloft. Hún nefndi atriði sem margir ferðamenn og nýir Íslendingar segja einkennandi fyrir Ísland. "Mér finnst frelsið hérna á Íslandi æðislegt. Fólk hér getur gert nánast það sem það vill. Ég nefndi þetta einu sinni í vinnunni og hvað það væri æðislegt að geta trúað því sem maður vill trúa. Þá bættu vinnufélagar mínir við að ég gæti pantað tíma hjá forsetanum. Vá, ég ætlaði ekki að trúa þessu. Þetta væri ekki möguleiki í Kína." Þrátt fyrir trúfrelsið hefur Mei Mei ekki tekið upp neina trú eftir að hún fluttist til Íslands og eiginmaðurinn er einnig trúleysingi. Þau hafa hins vegar tekið upp ýmsa siði úr kristinni trú sonanna vegna en Mei Mei segir þá sjálfa verða að ákvað hvað þeir vilji gera. Eldri sonurinn hafi til dæmis kosið að fermast ekki í kirkjunni síðastliðið vor en haldin var veisla heima hjá þeim. "Við förum í kirkju í skírnir, jarðarfarir og giftingar og okkur finnst gaman að taka þátt í jólaundirbúningnum og fara á jólaböll og svoleiðis. Við bökum, skreytum og setjum upp jólatré og skó í gluggann svo að strákarnir okkar fái að upplifa það sem flest önnur íslensk börn upplifa."

Mei Mei sagði ennfremur að áramótin haldi þau með líku sniði og aðrir Íslendingar en kínversk áramót eru ekki fyrr en 18. febrúar. Þá tekur ár svínsins við af ári hundsins. "Ég reyni að halda upp á þau líka en oft er ég að vinna á þessum degi. Í Kína klæðast allir rauðu á áramótunum, skreyta með rauðu og borða fisk. Fiskur táknar velgengni í Kína. En þó ég haldi í kínverskar hefðir hafa þær íslensku orðið ofan á," sagði Lan Mei að lokum.

Í hnotskurn
» Fjölskyldan bakar, skreytir og setur skó í gluggann fyrir börnin, þótt foreldrarnir játi ekki kristna trú.
» Lan Mei fagnar tvennum áramótum, ef hún er ekki að vinna á þeim kínversku.
» Hún lærir íslensku þótt hugurinn stefni til Suður-Kína.