Þorsteinn Sigurfinnsson fæddist á Bergstöðum í Biskupstungum hinn 17. júní árið 1917. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 16. desember síðastliðinn. Hann var sonur hjónana Guðrúnar Þorsteinsdóttur og Sigurfinns Sveinssonar sem bjuggu á Bergstöðum. Hann var elstur fjögurra systkina og eru systur hans Kristrún, Þórunn og Dóróthea en einnig ólu foreldrar hans upp systurson Sigurfinns, Svein Kristjánsson, f. 1912. Þorsteinn ólst upp við gott atlæti í foreldrahúsum en foreldrar hans ráku stórt bú á þess tíma mælikvarða. Þegar hann var rúmlega tvítugur fór hann til Reykjavíkur og innritaðist í Samvinnuskólann þar sem hann lauk prófi árið 1940. Eftir það vann hann t.d. sem leigubílstjóri ásamt öðrum störfum, en árið 1945 fór hann í iðnnám sem hann lauk, þá orðinn þriggja barna faðir. Eftir það vann hann sem húsasmíðameistari og var þó nokkuð umsvifamikill um tíma, og vann hann við smíðar fram yfir áttrætt.

Þorsteinn kvæntist Katrínu Jóhönnu Gísladóttur á jóladag 1942 og eignuðust þau fjögur börn, þau eru Þórunn Ísfeld, gift Guðmundi Rögnvaldssyni, Sigurfinnur, kvæntur Sigríði Pétursdóttur, Gíslína Björk, gift Hilmari Óskarssyni og Rúnar Bergs, kvæntur Halldóru Halldórsdóttur, en barnabörnin eru 14 og barnabarnabörnin eru orðin 24.

Þorsteinn var góður íþróttamaður og stundaði þær fram á efri ár. Hann tók meðal annars þátt í leikfimisýningum á efri árum. Hann ræktaði frændsemina einstaklega vel og var oft með barnabörnin með sér í þeim ferðum. Þá voru ófáar ferðirnar sem hann fór með barnabörnin, t.d. í sund eða á skauta, þegar það gaf. Þorsteinn og Katrín Jóhanna bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, fyrst á Langholtsvegi, þar sem hann byggði þriggja hæða hús sem hann átti í félagi við annan, og síðan í Stigahlíð, þar sem hann byggði einnig. Árið 1996 fluttu þau hjónin í Hraunbæ 103 sem eru þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara og bjó hann þar til ársins 2002 er hann fór á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund sökum heilsubrests.

Þorsteinn verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi minn, það er margs að minnast er ég sest niður og reyni að hripa eitthvað niður á blað. Ég var jú mikið að heiman en þegar færi gafst fórum við oft með veiðistangir og byssur til fjalla. Það var alltaf jafn ótrúlegt hversu glöggur þú varst að giska á hvar lægi fiskur undir bakka. Eitt ferðalag er mér þó ofarlega í huga, það var er ég spurði þig hvort þú vildir ekki ríða með mér á æskustöðvar þínar austur í sveitir úr Reykjavík. Ekki stóð á svarinu og vorum við lagðir af stað nokkrum dögum síðar, þú varst ekki í mikilli æfingu en þetta reyndist þér mjög létt. Það voru góðir tímar og man ég að þú þurftir ekki mikið að sofa í þessum ferðum.

Þú varst einstakur í því að styðja við bakið á okkur Siggu á einn eða annan hátt, ófá voru þau til dæmis handtökin sem þú lést í té þegar við byggðum okkur heimili í Breiðholti.

Einnig man ég vel þegar síminn glumdi um níuleytið á sunnudagsmorgnum þá kom bara einn maður til greina, það varst þú að láta vita að barnabörnin væru á leiðinni með þér í sund, á skauta eða eitthvað álíka, búinn að ræsa Stebba frænda og snúa öllu í gang.

Nú er komið að endalokum þíns ferðalags hérna megin og annað tekur við.

Undir lokin varstu hættur að spyrja mig um merarnar og ærnar og áttir erfitt með að koma orðum að því sem þú varst að hugsa, en það var ekki fyrr en síðustu mánuðina sem þú varst hættur að botna eða koma með seinnipart af vísu sem ég skellti fram.

Þá var ævin björt og blíð

bærði lítt á meini

Þá var lundin létt og þýð

sem lækur rynni af steini

(Höfundur ók.)

Vertu sæll, pabbi minn, við hittumst síðar. Þessa þarftu ekki að botna.

Sigurfinnur.

Nú er afi minn látinn, 89 ára gamall. Afi eða afi stigó, eins og ég kallaði hann, var ákaflega mikill vinur minn. Þrátt fyrir mikinn aldursmun þá gátum við alltaf skemmt okkur og átt góða stund saman. Ávallt var hann góður og blíður og fátt raskaði ró hans, ekki einu sinni þegar maður var búinn að gera eitthvert prakkarastrik, t.d. að fela sig undir legubekknum og vekja hann í hádegisblundinum sem gerðist reyndar mun oftar en einu sinni.

Afi lagði mikla áherslu á að eyða miklum tíma með barnabörnunum, allar sund-, skauta- og bílferðir sem við fórum saman eru óteljandi. Hann sinnti mér ákaflega mikið, til að mynda var það nú ekki mikið mál fyrir hann að sækja mig á hverjum degi í skólann í þau þrjú ár sem ég var í Ísaksskóla, og þá fór hann með mig heim í Stigahlíðina þar sem við fengum eitthvað gott að borða hjá henni ömmu.

Afi var ákaflega glaðlyndur og um leið mikil félagsvera. Hann hafði mjög gaman af því að koma við á hinum og þessum stöðum og spjalla og gantast með körlum sem hann þekkti. Oft fékk ég að fara með honum í vinnuna, var það ávallt mjög gaman, sérstaklega þegar maður fékk að hjálpa til við smíðarnar og ekki var nú verra að fá smurt brauð frá ömmu í kaffinu.

Afi var mikill íþróttamaður og var í mjög góðu líkamlega formi langt fram eftir aldri. Var það mér sérstaklega minnisstætt þegar hann stakk sér af háa stökkbrettinu í Sundhöllinni þá orðinn 67 ára gamall.

Síðustu árin voru honum erfið sökum mikilla veikinda og vona ég nú að hann sé kominn á betri stað.

Takk fyrir góðar stundir, elsku afi minn, ég mun aldrei gleyma þér og þeim yndislegum minningum sem við eigum saman. Þinn

Óskar Þór Hilmarsson.

Allt eins og blómstrið eina

upp vex á sléttri grund

fagurt með frjóvgun hreina

fyrst um dags morgunstund,

á snöggu augabragði

af skorið verður fljótt

lit og blöð niður lagði

líf mannlegt endar skjótt.

(Hallgrímur Pétursson.)

Þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér, afi minn.

Þorsteinn Örn Sigurfinnsson.