Vetrarríki Rannsóknir vísindamanna benda til að ekki verði um mikið lífríki að ræða í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar þegar fram líða stundir.
Vetrarríki Rannsóknir vísindamanna benda til að ekki verði um mikið lífríki að ræða í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar þegar fram líða stundir. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Kárahnjúkavirkjun | Deildar meiningar eru um hvort lífvænlegt verður fyrir lífverur í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar í framtíðinni. Hilmar J.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Kárahnjúkavirkjun | Deildar meiningar eru um hvort lífvænlegt verður fyrir lífverur í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar í framtíðinni. Hilmar J. Malmquist vatnalíffræðingur segir að fyrir liggi allítarlegar rannsóknir á vatnalífríki á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar þar sem m.a. er spáð í hvers eðlis lífríki Hálslóns verður. Þær bendi til að það verði fátæklegt, m.a. vegna mikils svifaurs, vatnsborðssveiflu og lágs hitastigs.

Að þessum rannsóknum komu þrjár rannsóknastofnanir, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Líffræðistofnun Háskólans og Veiðimálastofnun. Rannsóknirnar voru unnar í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og kostaðar af Landsvirkjun.

Allt að 75 m vatnsborðssveifla

Heiti rannsóknaskýrslunnar er Vatnalífríki á virkjanaslóð, áhrif fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar ásamt Laugarfellsveitu, Bessastaðaárveitu, Jökulsárveitu, Hafursárveitu og Hraunaveitum á vistfræði vatnakerfa. Höfundar skýrslunnar eru Hilmar J. Malmquist og 10 aðrir vísindamenn. Í skýrslunni segir m.a. að við hæstu vatnsstöðu, 625 m y.s., verði Hálslón um 57 km 2 og um 2.400 Gl að rúmmáli en við lægstu stöðu, 550 m y.s, verður það einungis um 10 km 2 og um 300 Gl að rúmmáli. Vatnsborðssveifla vegna miðlunarinnar geti samkvæmt þessu numið allt að 75 m en verði oftast milli 35 og 55 m eftir fyrri áfanga virkjunarinnar en eykst nokkuð eftir seinni áfangann. Eftir fyrri áfanga virkjunarinnar mun Hálslón að jafnaði fyllast um miðjan ágúst eða snemma í september og haldast fullt til loka október en eftir seinni áfangann mun lónið að jafnaði fyllast einni til tveim vikum fyrr.

Svifaur í yfirfallsvatninu og í vatni sem miðlað er til virkjunarinnar er talinn nema um 220 mg/l.

Mestur svifaur verður næst jökli en minnstur næst Kárahnjúkastíflu (um 220 mg/l) og gerir það að verkum að rýni verður mjög lítið í Hálslóni, um 10–15 cm. Því verður framleiðsla svifþörunga og svifdýra lítil sem engin í lóninu. Mjög miklar vatnsborðssveiflur hafa í för með sér að lífsskilyrði verða afar óhagstæð flestum vatnadýrum, ekki síst fyrir fiska, bæði á lónbotninum og í fjörunni á sveiflusvæðinu.

Uppblástur á 20–30 ferkm

Í skýrslunni segir að ekki sé ljóst hve langan tíma það mun taka gróður og jarðveg sem fer undir vatn í Hálslóni að hverfa, né hver áhrif rof-, rotnunar- og efnalosunarferla sem fylgja kaffæringu gróðurs og jarðvegs verða á vatnalífríki í lóninu eða í afrennslisvegum þess. Hálslón mun að jafnaði fyllast um miðjan ágúst eða snemma í september eftir fyrri áfanga virkjunarinnar og haldast fullt til loka október. Eftir seinni áfanga virkjunarinnar mun lónið að jafnaði fyllast einni til tveim vikum fyrr. Það er því ljóst að þegar snjóa leysir og þorna tekur mun jökulset ásamt öðrum fínum jarðefnum mjög líklega blása upp úr lónstæðinu á svæði sem þekur um 20–30 km 2 . Þá segir, að lífsskilyrði í Jökulsá á Dal verði óstöðug og rýr vegna rennslissveiflna og gruggs.

Í hnotskurn
» Rannsóknir vísindamanna á lífríki á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar benda ekki til að lífríki Hálslóns verði fjölskrúðugt.
» Allt að 75 m vatnsborðssveifla, mikill svifaur og lágt hitastig gerir lónið óhagstætt flestum vatnadýrum.
» Lítil sem engin framleiðsla verður á svifþörungum og svifdýrum í lóninu.
» Vatnsborðssveiflur valda því að lífsskilyrði verða óhagstæð fiskum, bæði á lónbotni og í fjörunni á sveiflusvæði.