Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is FJÖLDI þinglýstra kaupsamninga fasteigna stefnir í að verða um 12.000 á þessu ári og heildarviðskipti með fasteignir um 275 milljarðar króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning er um 23 milljónir króna.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

FJÖLDI þinglýstra kaupsamninga fasteigna stefnir í að verða um 12.000 á þessu ári og heildarviðskipti með fasteignir um 275 milljarðar króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning er um 23 milljónir króna.

Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins, segir að velta á íslenskum fasteignamarkaði hafi aðeins einu sinni áður verið meiri en í ár. Árið verði því mjög viðunandi hvað fasteignaviðskipti varðar, ekki síst í ljósi mikils róts á fasteignamarkaði árin tvö á undan. Hann sagði að vaxandi fjölda kaupsamninga hefði verið þinglýst undanfarnar vikur.

Árið 2005 var metár í fasteignaviðskiptum þegar kaupsamningar voru tæplega 16.000, heildarupphæð þeirra nam 312 milljörðum króna, og meðalupphæð hvers kaupsamnings tæplega 20 milljónir. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því dregist saman um 12% milli ára og kaupsamningum fækkað um 25%.

Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu stefnir í að verða um 200 milljarðar, fjöldi þeirra um 7.400 og meðalupphæð tæplega 27 milljónir. Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 2005 var tæplega 225 milljarðar, fjöldi þeirra um 9.500 og meðalupphæð því tæplega 24 milljónir króna.

Hvað fjölda kaupsamninga varðar virðist árið í ár ætla að verða mjög ámóta og árið 2003 þegar tæpum 12.000 kaupsamningum var þinglýst. Haukur segir fjölda kaupsamninga einungis hafa verið fleiri árin 2004 og 2005 og árið 1999 voru þeir um 11.600. Fasteignamarkaðurinn hafi verið í viðunandi ástandi á þessu ári.

Í hnotskurn
» Þinglýstir kaupsamningar fasteigna 2006 verða um 12.000 og heildarviðskipti með fasteignir um 275 milljarðar króna. Meðalupphæð á hvern kaupsamning er um 23 milljónir króna.
» Árið 2005 voru þinglýstir kaupsamningar tæplega 16.000, heildarupphæð þeirra nam 312 milljörðum króna og meðalupphæð hvers samnings tæplega 20 milljónum.