Yrja Kristinsdóttir
Yrja Kristinsdóttir — Morgunblaðið/G.Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

"AUÐVELT væri að halda að ásóknin minnkaði með árunum, það var jú svo mikið ævintýri að fara í flug í gamla daga, en það er alveg ljóst að ferðamennskan heillar enn marga – enda er ævintýrablær yfir þessum bransa," segir Una Eyþórsdóttir, starfsmannastjóri hjá Icelandair, sem hafði yfirumsjón með inntökuprófi fyrir sumarstarf flugþjóna og -freyja sem þreytt var í Háskólabíói í gærmorgun. Um eitt þúsund manns sóttu um sumarstarf hjá Icelandair og um hundrað mun verða boðið starf.

Inntökuprófið er aðeins einn liður í ráðningarferlinu en yfir níu hundruð manns voru boðaðir í prófið. Una segir flesta þá sem ekki fengu boð ekki hafa uppfyllt sett skilyrði um aldur en viðkomandi þarf að hafa náð 21 árs aldri til að starfa sem flugþjónn eða -freyja hjá Icelandair. Um 10% umsækjenda eru karlmenn og hafa þeir verið hvattir til að sækja um. Hins vegar hefur fyrirtækið ekki farið þá leið að setja á kynjakvóta til að auka hlut karlmanna í starfinu.

Boðað verður í viðtöl

Næsta skref í ferlinu eru viðtöl en þá þurfa umsækjendur að sannfæra ráðningarnefnd um ágæti sitt. "Ætli við tökum ekki á milli þrjú og fjögur hundruð manns í viðtöl og þá verður miðað við þá sem gengur best í prófinu. Þeim, sem ráðningarnefndinni líst vel á, gefst svo kostur á að fara á námskeið og ef viðkomandi nær öllum prófum á námskeiðinu er honum boðin ráðning," segir Una og bætir við að fjöldi starfa í boði fari að nokkru leyti eftir því hversu margir skila sér sem hafa verið hjá fyrirtækinu áður.

Ekki var verið að auglýsa eftir framtíðarstarfsfólki og segir Una möguleika sumarstarfsfólks á að vera boðið áframhaldandi starf eftir sumarið ekki mikla. Afar fáir láta af starfi sínu í flugþjónustunni og tiltölulega lítil nýliðun er í framtíðarstörfum.

Fulltrúar Íslands og Icelandair

Prófið sem þreytt var í gærmorgun skiptist í tvo hluta, almenna þekkingu og tungumálakunnáttu. Una segir starfsfólk Icelandair fulltrúa fyrirtækisins og jafnvel Íslands enda það fyrsta sem ferðamenn sjá á leiðinni til landsins. "Ferðamennirnir spyrja um landið okkar, pólitík, listir og landafræði þannig að prófið er svolítið í þeim stíl." Einnig er spurt út í íþróttir og heimsmálin.

Una segir skipulagninguna hafa gengið vonum framar en koma þurfti ríflega níu hundruð umsækjendum fyrir og tóku þeir yfir fimm sali Háskólabíós, þar á meðal stóra salinn. Á næstu fjórum vikum verður svo farið yfir úrlausnirnar og í kjölfarið boðað í viðtöl.

Tækifæri til að ferðast og frábært sumarstarf

"ÉG HEF lengi haft áhuga á að verða flugfreyja og sé þar gott tækifæri til að ferðast auk þess sem þetta er frábært sumarstarf," segir Yrja Kristinsdóttir, ein af ríflega níu hundruð umsækjendum sem þreyttu inntökupróf í Háskólabíói í gærmorgun. Yrja segir nokkuð vel hafa gengið í prófinu og vonast eins og aðrir eftir viðtali. Aðspurð um hvað heilli hana við starfið segir Yrja ferðalögin standa hæst ásamt miklum möguleikum á að kynna sér aðra menningarheima.

Treystir á jafnréttislögin

Könnun blaðamanns leiddi í ljós að umsækjendur voru flestir ungar konur á aldrinum 21–30 ára en afar fáir karlmenn voru hins vegar á sveimi. Einn þeirra var Gunnar Þór Ásgeirsson sem ákvað að taka prófið þar sem hann vantar sumarvinnu og í eyrum hans hljómaði ágætlega að starfa sem flugþjónn. Hann sagði vel hafa gengið að leysa úr prófinu en bætti við að ljóst væri að ef kunnátta umsækjenda í tungumálum væri léleg væri sennilega til lítils að taka prófið. Gunnar Þór sagðist ennfremur treysta á að jafnréttislögin kæmu sér í gegnum niðurskurðinn ef úrlausnin dygði ekki ein og sér.

Vinnutíminn heillandi

"Foreldrar mínir starfa innan flugfélaga og ég hef því óbeina reynslu af starfinu og þekki það vel," sagði Elenora Ósk Þórðardóttir fljótlega eftir að hún skilaði inn úrlausn sinni. Hún sagði fjölda umsækjenda ekki hafa komið sér á óvart og reiknaði í raun með fleirum. Elenora Ósk segir vinnutíma flugfreyja heillandi og að hún geti vel hugsað sér vinnuna sem framtíðarstarf.