Land átaka Það er afar kalt í Kabúl í Afganistan um þessar mundir.
Land átaka Það er afar kalt í Kabúl í Afganistan um þessar mundir. — Reuters
Fréttaskýring | Hvenær verður upplýsinga- og gagnaöflun að leyniþjónustu? Davíð Logi Sigurðsson fjallar um greiningardeild sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli.

Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli hafði í haust áhuga á því að senda mann til starfa hjá gagnnjósnadeild NATO í Kabúl í Afganistan. Forsvarsmenn í utanríkisráðuneytinu töldu hins vegar ekki að slíkt samrýmdist áherslum utanríkisráðherra. Var sú ákvörðun tekin, að ekki yrði af þessu verkefni, skömmu áður en umræddur starfsmaður átti að halda til Afganistans. Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir þó rangt að tala um að ráðuneytið hafi skorist í leikinn. Full sátt hafi verið um niðurstöðuna milli hans og sýslumannsins, Jóhanns R. Benediktssonar.

Eins og Morgunblaðið greindi frá 9. desember sl. hefur undanfarin tvö ár verið starfrækt fjögurra manna greiningardeild við sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli sem sinnt hefur gerð reglubundins hættumats fyrir utanríkisráðuneytið í tengslum við verkefni Íslensku friðargæslunnar í Afganistan, á Sri Lanka og víðar. Um tildrög þess að til tals kom, að Íslendingur færi til starfa hjá gagnnjósnadeild NATO í Kabúl, segir Jóhann að starfsmenn greiningardeildarinnar hafi sótt námskeið erlendis til að þeir væru sem best í stakk búnir til að greina upplýsingar sem frá NATO og öðrum koma, varðandi ástand á hættuslóðum, og til að þjálfa þá til umsjónar með þeim gagnagrunnum og beintengingum, sem um ræðir.

"Við höfum meðal annars verið í starfsmannaskiptum við deild í Brunssum í Hollandi, sem á ensku er kölluð Allied Command Counter Intelligence, ACCI," sagði Jóhann. "Þangað hafa þrír menn farið til stuttrar dvalar. Yfirmaður deildarinnar var hins vegar að fara til starfa í Kabúl og hann óskaði einfaldlega eftir því að fá einn Íslendinganna með sér til að vinna í höfuðstöðvum þar."

Átti Íslendingurinn að fá starfstitilinn "Special Agent" í fíkniefnaverkefnum NATO, hjá deild sem kallaðist "source operations". Hann hefði verið áfram á launaskrá sýslumannsembættisins en NATO hefði greitt tilheyrandi kostnað, dagpeninga og annað, á vettvangi.

Bendir Jóhann á í þessu samhengi að Íslendingur sé nú þegar starfandi hjá umræddri gagnnjósnadeild, Allied Command Counter Intelligence, hjá yfirherstjórn NATO í Mons. Þar er um að ræða Óskar Þórmundsson, yfirlögregluþjón, sem fyrir rúmum tveimur árum hélt til starfa hjá ACCI í Mons. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hefði greint frá því á sínum tíma og ekki þótt neitt sérstakt tiltökumál.

"Það er að vísu rétt að menn óttuðust, að þetta væri meira en skrifstofustarf því að hann átti að hluta til að vera í samskiptum við innlenda aðila," segir Jóhann um eðli starfsins, sem umræddur Íslendingur átti að sinna í Kabúl. "Hins vegar var það smæstur hluti starfs hans og það fólst ekkert í því annað en viðtöl."

Hættu við fleiri verkefni

Utanríkisráðuneytið taldi þetta verkefni hins vegar ekki, eins og áður kom fram, samrýmast þeim áherslum sem Valgerður Sverrisdóttir hefur sett síðan hún varð utanríkisráðherra sl. sumar og segir Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri að þeir Jóhann hafi ekki þurft langan tíma til að verða sammála um þá niðurstöðu.

"Það varð ákveðin áherslubreyting með nýjum ráðherra og eitt af því sem við nú leggjum áherslu á er að gera ekkert sem ekki hefur verið kynnt fyrir utanríkismálanefnd Alþingis áður. Og þetta verkefni hafði ekki verið kynnt þar," segir Grétar Már.

Segir Grétar að í þessu felist enginn sérstakur dómur yfir verkefninu sem slíku. Það hafi einfaldlega ekki hentað á þessum tímapunkti, m.a. vegna þess að utanríkismálanefnd Alþingis hefur ekki enn verið gerð grein fyrir starfsemi greiningardeildar sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli.

Grétar Már tekur fram að þetta verkefni hafi ekki verið það eina, sem hætt var við. Nefnir hann til dæmis að ákveðið hafi verið í haust að senda ekki sprengjuleitarmenn til starfa í Helmand í Suður-Afganistan, eins og til stóð. Ýmis fleiri áform hafi verið uppi um þátttöku í starfi NATO í suðurhluta Afganistans, þar sem aðstæður hafa verið mjög hættulegar, "en allir þeir vinnuferlar voru stöðvaðir".

Jóhann segir um þá ákvörðun, að ekki verði af því að Íslendingurinn fari til Kabúl, að menn hafi talið að á meðan ekki væri búið að fjalla betur um þessa hluti á opinberum vettvangi væri ástæða til að fara sér hægt. "Það er ekkert tortryggilegt, óeðlilegt eða undarlegt við þetta. Hitt verða menn að tryggja að allt sé þetta uppi á borðum og sé í opinni umræðu, annars er hætta á að vakni tortryggni," segir Jóhann.

Segir Jóhann augljóst af eftirgrennslunum Morgunblaðsins og umfjöllun Blaðsins fyrir jól, þar sem því var slegið upp að greiningardeildin á Keflavíkurflugvelli hefði á ensku haft vinnuheitið Icelandic Intelligence Service-NATO, sem Blaðið þýddi sem Íslenska leyniþjónustan, að einhver vildi gera störf hans tortryggileg. Vísar hann hér til þess að einhver hefur lekið til Blaðsins bréfum, sem Jóhann hafði skrifað norsku herleyniþjónustunni og varnarmálaráðuneytinu í Noregi í nafni þessarar "íslensku leyniþjónustu".

"Það að einhver skuli leka þessu bréfi [í Blaðið ] eins og gert var er auðvitað stórfrétt," segir Jóhann. "Ekkert sem ég hef gert hefur ekki áður hlotið samþykki minna yfirboðara og verið gert að höfðu samráði við þá," segir hann líka. "Það er verið að reyna að láta hlutina líta þannig út að ég sé að gera eitthvað sem ég megi ekki, sem ég hafi ekki umboð til að gera, sem ég hafi ekki rætt áður við menn. Það er það sem er svo ódrengilegt í þessu."

Segir Jóhann að hann vonist hins vegar til þess að þessi umræða og umfjöllun verði til þess að íslensk stjórnvöld komi þessum málefnum í fastan farveg og að það verði tryggilega gengið frá lagaumgjörð og öðru sem fylgir því að við Íslendingar séum að taka öryggismálin í auknum mæli í okkar hendur.

Segir mun á gagn njósnum og njósnum

En er þá enginn munur á því að starfrækja greiningardeild hjá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli annars vegar og hafa menn við störf í gagnnjósnadeild hjá NATO á vettvangi hins vegar? Jaðrar það ekki við að geta talist "leyniþjónustuvinna"?

Jóhann svarar þessari spurningu svona: "Eigum við ekki að segja að við nánari skoðun vildu menn alveg vera 100% öruggir um að þetta væri ekki í neinni mótsögn við neitt sem við höfum áður gert.

Við þurfum hins vegar að hafa það hugfast að þeir starfsmenn Íslensku friðargæslunnar sem eru að vinna í Afganistan hafa þetta sama hlutverk nú þegar á margan hátt. Friðargæsluliðar þar eru að taka saman upplýsingar og gefa skýrslur um hættu, eftir að hafa talað við heimamenn. Þetta var ekkert öðruvísi.

Svo það sé alveg á hreinu þá fólst ekki í þessu að verið væri að fylgjast með mönnum eða hlera. Eini munurinn er sá að þessi starfsmaður átti að fara að vinna fyrir NATO í þessari deild og það gat skapað tortryggni."

Jóhann heldur áfram: "Sú þjálfun sem menn hafa fengið í Brunssum hefur snúið að því hvernig þú verndar og verð hagsmuni NATO og hún felur í sér þjálfun í því að meta einstakar ógnir sem steðja að einstökum ríkjum og NATO í heild. Íslenska heitið sem útskýrir þetta best er forvarnadeild. Þú ert í forvörnum og þú ert í því að taka við upplýsingum.

Ef þetta væri njósnadeild NATO þá værirðu að afla upplýsinga með óhefðbundnum hætti. Þetta er gagnnjósnadeild, ekki njósnadeild."

Og Jóhann heldur áfram: "Ef menn spyrja: hver var tilgangurinn með þessu? Hver er tilgangurinn með allri okkar vinnu á þessu sviði? Tilgangurinn er sá að finna leiðir til að tryggja sem mest og best upplýsingaflæði til íslenskra ráðamanna um aðstæður á þeim stöðum þar sem Íslendingar eru að störfum. Það er tilgangurinn. Tilgangurinn með því að efla tengslin við þessa deild [í Brunssum] var að tryggja hámarksvernd og öryggi íslenskra starfsmanna erlendis."

Greiningardeildin áfram undir utanríkisráðuneyti

Rétt er að fram komi að ný lögreglulög taka gildi um þessi áramót og flyst sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli þá frá utanríkisráðuneytinu og tilheyrir framvegis dómsmálaráðuneytinu. Skv. heimildum Morgunblaðsins eru mál greiningardeildarinnar umræddu til algerrar endurskipulagningar í utanríkisráðuneytinu en þar á bæ munu menn vilja taka greiningarvinnuna yfir með einhverjum hætti. Er gert ráð fyrir því að utanríkisráðherra kynni nýtt fyrirkomulag fyrir utanríkismálanefnd Alþingis á nýju ári.

Greiningardeildin verður því ekki áfram á forsvari Jóhanns R. Benediktssonar, enda verður hann framvegis lögreglu- og tollstjóri á Suðurnesjum. "Ég verð að koma hreinn og óskiptur yfir til Björns [Bjarnasonar, dómsmálaráðherra]. Ég get ekki þjónað tveimur herrum," segir Jóhann.

david@mbl.is

Í hnotskurn
» Greiningardeild sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli var sett á laggirnar í utanríkisráðherratíð Davíðs Oddssonar.
» Hún hefur það hlutverk að sinna reglubundnu hættumati fyrir utanríkisráðuneytið í tengslum við verkefni Íslensku friðargæslunnar.
» Sýslumannsembættið flyst undir dómsmálaráðuneyti um áramót.