Guðmundur Eiður Guðmundsson fæddist í Stykkishólmi 20. ágúst 1982. Hann lést af slysförum laugardaginn 16. desember síðastliðinn. Hann var yngstur fjögurra barna hjónanna Ástu Angelu Grímsdóttur og Guðmundar V. Sverrissonar leigubílstjóra frá Straumi á Skógarströnd. Þau búa á Álftanesi. Systkini Guðmundar Eiðs eru: 1) Matthildur Ólöf, maki Andrés Skúli Pétursson, börn þeirra eru Árni Steinar, Ásta Valdís og Hafþór Heiðar, þau búa í Sandgerði. 2) Fanney Elínrós, maki Gunnar Ellertsson, börn þeirra eru Þórdís Helga, Heiðrún Ásta, Eiður Smári látinn, Eiður Örn og Gunnar Smári. Þau búa í Garði. 3) Pálmi Grímur, maki Bjarney Katrín Gunnarsdóttir. Börn Pálma og fyrir konu eru Guðmundur Leifur og Kolbrún Ásta. Dóttir Pálma og Bjarneyjar er Birgitta Líf. Þau búa í Kópavogi. Hálfbróðir þeirra er 4) Róbert Guðmundsson.

Guðmundur Eiður starfaði hjá Fiskverkun Tor ehf. frá því á fimmtánda ári.

Guðmundur Eiður verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Við mamma þín og pabbi höfum setið og hugsað hvað þessi ferð hefur orðið löng, það hafa fallið mörg tár. Þú ert farinn frá okkur, yndislegi fallegi drengurinn okkar, þú sem við gátum treyst svo mikið á og varst boðinn og búinn hvenær sem var til að hjálpa okkur.

Við vissum ekki betur en þú hefðir skroppið rétt sem snöggvast út og mundir koma strax aftur en biðin varð lengri en við héldum.

Það var ekki gott að vakna upp við þær fréttir sem okkur voru færðar, elsku besti drengurinn okkar.

Guðmundur Eiður var búinn að vinna lengi á sama stað, hann var eftirsóttur til allra starfa, hvar sem var. Hann var harðduglegur og það þurfti ekki að segja honum hvernig hann átti að gera verkin, hann sá það sjálfur.

Það sést best á því hvað hann vann lengi hjá Tor fiskvinnslu, þar byrjaði hann á fimmtánda ári og með tveimur smáhléum vann hann þar til síðasta dags.

Alli, ég veit að þú hefur misst góðan starfskraft. Gummi, þú hefur skipt um hlutverk og munt taka þér annað fyrir sem hentar betur.

Við sem eftir sitjum syrgjum hann sárt og munum alltaf sakna þín, elsku drengurinn okkar, þú sem hafðir svo margt gott til að bera og margt gott að gefa að það er næstum óbærilegt að hugsa til þess að við fáum aldrei að sjá þig, elsku besti engillinn okkar.

Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,

borgina hrundu sé við himin ljóma,

og heyri aftur fagra, forna hljóma,

finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.

Minning þín opnar gamla töfraheima.

Blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu.

Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.

Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.

(Davíð Stefánsson.)

Með hinstu kveðju.

Mamma og pabbi.

Elsku hjartans ástin mín, mikið sakna ég þín, ég bara trúi því ekki að þú sért farinn frá okkur. Þegar pabbi hringdi í mig hinn 16. des. og sagði mér að þú hefðir dáið í bílslysi um nóttina lamaðist ég, gat ekki klárað að tala við pabba og ég er ennþá að bíða eftir að vakna upp úr þessari martröð. Það er okkur óskiljanlegt af hverju þú varst tekinn frá okkur svona fljótt og snöggt. Þetta er í annað skiptið sem brot úr hjarta okkar er brotið, fyrst elskulegi sonur okkar og nafni þinn, hann Eiður Smári og svo þú núna, og núna spyr ég af hverju þú. Það er svo mikið sem við áttum eftir að segja við þig og við fáum ekki tækifæri til þess lengur. Þú varst svo yndislegur bróðir og mágur og frændi, alveg gull af manni, vildir allt fyrir alla gera, það var aldrei neitt vandamál, en þér fannst gaman að stríða frændsystkinum þínum. Þér fannst líka gaman að reyna að snúa hinum nafna þínum úr Liverpool yfir í Man. Utd, annars fengi hann ekki jólagjöf eða afmælisgjöf og hann þorði ekki annað en halda með Man. Utd þegar hann var nálægt þér en heima fyrir hélt hann með Liverpool. Nú er svo tómlegt að koma heim til mömmu og pabba því það er enginn til að bögga krakkana og það heyrast ekki lengur þín "venjulegu" læti þegar þú varst að reka á eftir mömmu með kaffið eða spyrja af hverju ekki væri búið að ganga frá úr innkaupapokunum.

Það er svo margt sem ég get talið upp um litla ljóshærða strákinn með blágráu augun og fallega brosið. Það eru svo margar æðislegar minningar af þér sem ég get sagt en ég er líka full af reiði við guð, af hverju var hann að taka tvo sæta stráka frá okkur, við því fæ ég aldrei svör, ég verð að sætta mig við ósættina. Það er svo erfitt að geta ekki séð þig meira eða heyrt í þér röddina en jú, ég get heyrt hana, því ég á myndband af þér sem ég get horft á, en það er ekki það sama, en þetta myndbrot er mér kært og verður geymt mjög vel. Þetta voru erfiðustu jól sem við höfum haldið en á móti fengum við dýrmætustu jólagjafirnar, þær voru frá þér og þvílíkt erfitt að opna þær, það komu mörg tár.

Það er svo erfitt að byrja að skrifa grein en ennþá erfiðara að hætta að skrifa greinina, það er svo sárt að sakna. Við söknum þín alveg svakalega, elsku Gummi.

Á kveðjustund er þungt um tungutak

og tilfinning vill ráða hugans ferðum.

Því kærum vini er sárt að sjá bak

og sættir bjóða Drottins vilja og gjörðum.

En Guðs er líka gleði og ævintýr

og góð hver stund er minningarnar geyma.

Farðu vel, þér fylgir hugur hlýr

á ferð um ljóssins stig, og þagnarheima.

(Sigurður Hansen.)

Ástar- og saknaðarkveðjur til þín frá okkur. Guð geymi þig, hjartað okkar.

Fanney og Gunnar.

Ég vaknaði upp við símhringingu kl. 3.24 aðfaranótt 16. des. sl., þegar faðir okkar tilkynnti mér að þú hefðir látist í bílslysi, hann sagði bara orðrétt, hann Gummi bróðir þinn er dáinn. Ég margendurtók það eftir honum. Þvílíkt óréttlæti er þetta, þú áttir allt lífið þitt framundan. Ég er ennþá að bíða eftir því að verða vakin upp af þessu hræðilega draumi, en því miður er það víst ekki draumur. En elsku hjartans Gummi minn, þú varst mér allt og sem mitt fjórða barn, búinn að vera hangandi í buxnafaldinum mínum síðan að ég var 8 ára gömul. Og ást mín á þér er endalaus, við vorum mjög samrýnd systkini og við hjálpuðum hvort öðru eftir bestu getu. Ég gæti skrifað heila bók um þig og þinn skemmtilega persónuleika, þú hefur tekið svo mikinn þátt í mínu lífi, enda búið hjá mér á vissum tímabilum, hjálpað til við flutninga, að byggja nýja húsið mitt, og ég gæti endalaust talið upp. Þú varst gull af dreng að vera, vildir öllum vel og sagðir aldrei nei þótt þig langaði til, en svona er þér best lýst, passaðir upp á hárið á þér, alltaf nýklipptur, hörkunagli til vinnu og frábær við frændsystkini þín. Elsku ástarengillinn minn, ég kveð þig núna með tár í augum mínum og hjartað mitt er kramið af söknuði. Ég þakka þér fyrir þessi yndislegu og frábæru 24 ár sem ég hafði með þér. Við hittumst seinna á betri stað, þá tekur þú vel á móti bestu systur.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Hvíl í ró og friði, Gummi minn.

Ástar- og saknaðarkveðja, þín elskandi systir að eilífu.

Mattildur Ólöf.

Minningarnar streyma fram í hugann um lítinn ljóshærðan dreng sem flutti í Vogana fimm ára. Við urðum strax góðir vinir, hann kom alltaf í heimsókn og oft beið hann eftir mér þegar ég var að koma heim úr vinnu og sagði: Hvað ertu að slóra, ég er búinn að bíða lengi. Það var margt sem við gerðum saman og fórum. Þegar þú Gummi komst og það var rautt í hárinu á þér og ég spurði: Hvað kom fyrir þig? var svarið: Ég var að lita á mér hárið með tómatsósu. Það fannst þér flott. Eða þegar Gummi sagði við mig: Hey Vallý, þú reykir eins pakka og Skúli, þá vissi ég hver var byrjaður að reykja. Við Gummi erum búin að hlæja mikið að því að þessi fimm ára pjakkur skyldi segja mér þetta. Eða þegar þú fórst með okkur Pétri upp í hjólhýsi og við sýndum þér Villingaholt, það var mikið pælt hvernig þessi kall væri. Æ, elsku Gummi minn, við eigum svo margar góðar fallegar minningar um þig og hugurinn er á milljón. Við fórum saman á Bubbatónleika í Glaðheimum og þú fékkst eiginhandaráritun hjá Bubba og þvoðir þér ekki um hendurnar. Svo liðu árin og systkinabörnin þín fæddust og þér þótti svo vænt um þau öll, ef þú mættir ekki í afmæli hjá þeim var spurt: Hvar er Gummi frændi? Þegar þú mættir hópuðust þau um þig og svo þegar Ella systir þín eignaðist drengina sína þá fékkstu nafna. Þú áttir tvo nafna, hann Eið Smára sem lést og hann Eið Örn. Það sýnir hvað öllum þótti vænt um þig.

Þú vildir hjálpa öllum, varst nýbúinn að mála stofuna fyrir mömmu og pabba þinn.

Þér fannst gaman að skemmta þér og oft sagði ég við þig: Varstu að djamma? Svarið var: Já, hún amma er alltaf að draga mig á ball um helgar, – ég hef ekki heilsu í það en amma er svo mikill djammari. Ömmu þinni fannst svo gaman þegar þú varst að grínast í henni með þetta og sagði: Ég get ekki verið að skrölta þetta ein, þú verður að koma með mér Gummi minn. Þið amma voruð miklir vinir og sátuð oft og töluðuð saman eða þú sagðir: Við erum að hlusta á kór, enda veit ég að hún hefur tekið á móti þér.

Guð geymi þig, elsku vinur.

Valdís Skúladóttir.

Kveðja frá Fiskverkun TOR ehf.

Það var fyrir um tíu árum að Gummi kom til starfa hjá okkur í fiskverkuninni, þá undir verndarvæng eldri bróður síns Pálma. Hann var ungur að árum, ljós og fagur og einkar brosmildur piltur. Gummi gekk í hin ýmsu störf og innti þau vel af hendi og ávallt með bros á vör. Þess vegna var hann afar vinsæll og þægilegur starfsfélagi og vinur. Við erum öll harmi slegin. Hugur okkar er hjá Pálma bróður hans og fjölskyldu svo og ástkærum foreldrum og systrum. Megi minningin um ljúfan dreng vera ljós í myrkrinu. Við kveðjum þig, elsku Gummi, með kveðjunni hans Bubba

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum í trú

á að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Hvíl í friði, kæri vinur, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Aðalsteinn, Hulda, starfsfélagar og vinir Tor ehf.

Elsku frændi, við elskum þig mikið og söknum þín mikið, þú ert besti frændi í heimi, bless frændi.

Gang þú til fjalla ef leið er þín lund

og löngun og þrá eru í dvala

það vermir þitt hjarta á viðkvæmri stund

ef vitjar þú öræfadala

og háttaðu einn undir himinsins sæng

og hlustaðu á þögnina tala

þar mófuglamóðirin vermir með væng

vorgróður öræfadala

Gefðu þér tíma og fangaðu frið

sem fýkur með morgunsins svala

er heyrir þú svanina hefja sinn klið

af heiðarbrún öræfadala

(Höf. ók.)

Saknaðarkveðjur frændi.

Þórdís Helga, Heiðrún Ásta,

Eiður Örn og Gunnar Smári.

Elsku Gummi minn, það er svo skrítið og ósanngjarnt hvernig allt getur breyst á einu augnabliki. Á einu augnabliki var lífið tekið af þér. Ég er mikið búin að gráta og mikið búin að hugsa en því miður get ég ekkert gert til að fá þig aftur, heyrt röddina þína eða horft í fallegu augun þín. Það er ömurleg staðreynd sem erfitt er að sætta sig við. Ég man þegar við vorum að kynnast, fyrst hélt ég að þú værir lokaður og feiminn því við hittumst oft án þess að tala mikið saman. En svo þegar ég kynntist þér þá heillaðirðu mig strax. Þú varst svo hress, alltaf í góðu skapi, forðaðist öll leiðindi og áttir enga óvini. Þú mismunaðir engum! Þú varst góður við alla og þá sérstaklega börn. Ég man hvað Thelma hélt upp á þig og þú ekki síður upp á hana, þú kenndir henni að frussa þegar hún var fjögurra mánaða og þið hlóguð svo mikið frussandi á hvort annað. Ég hugsa alltaf til þín með bros á vör þegar hún frussar. Ég þakka fyrir hverja mínútu sem ég átti með þér, ég þakka fyrir að hafa kynnst þér og er stolt af því að hafa þekkt jafn yndislega manneskju og þú ert.

Elsku Gummi, Ásta, Matta, Ella og Pálmi og fjölskyldur, megi guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Þeir segja þig látna, þú lifir samt

og í ljósinu færð þú að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá litlu hjarta berst lítil rós,

því lífið þú þurftir að kveðja.

Í sorg og í gleði þú senda munt ljós,

sem að mun okkur gleðja.

(Guðmundur Ingi Guðmundsson.)

Ég kveð þig með miklum söknuði. Ég elska þig!

Þín,

Hafdís Hödd.

Mig langar til að minnast í fáeinum orðum vinar míns Guðmundar Eiðs Guðmundssonar.

Gummi minn, eins og ég kallaði hann alltaf, var sérstakur í mínum huga, rétt eins og eitt af mínum börnum enda reyndist hann mér og börnunum sérstaklega vel, dvaldi oft á tíðum heima hjá okkur og var börnunum sem stóri bróðir sem þau litu mjög svo upp til.

Gummi var ávallt boðinn og búinn til að hjálpa mér, oftast þó óumbeðinn að bjóða fram aðstoð sína. Í mörg ár var það Gummi sem hjálpaði okkur með flest sem þurfti að gera s.s. flytja, setja saman húsgögn, laga hluti og þess háttar.

Við börnin og þá sérstaklega ég á eftir að sakna hans innilega. Erfitt verður að hugsa til þess að ekki verði hringt og sagt: "Hæ elskan, hvað segirðu í dag?" enda vön að fá þannig símtöl frá Gumma mínum.

Elsku Gummi minn, ég sakna þín mjög mikið og þú munt alltaf eiga stórt pláss í hjarta mínu. Með þökk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína kveð ég þig með söknuði en fullt af fallegum og yndislegum minningum um hjálpsaman, skemmtilegan og góðhjartaðan mann.

Ekki get ég ímyndað mér hvað foreldrar og fjölskylda Gumma er að ganga í gegnum á þessum tíma og sendi ég þeim öllum mínar dýpstu samúð.

Sigurbjörg Anna Ársælsdóttir.

"Þeir deyja ungir sem guðirnir elska." Þetta á sérstaklega við í þessu tilfelli því hann Guðmundur Eiður var besti maður sem ég hef kynnst.

Hann var ávallt til staðar fyrir vini sína og alltaf fyrstur til að bjóða fram aðstoð sína til þeirra sem þurftu á henni að halda. Gummi varð strax minn besti vinur og ég mun sakna hans sárt. En það sem heldur mér gangandi er að hans er þörf annars staðar. Því svona yndislega manneskju finnur maður ekki þótt víða væri leitað.

Elsku Gummi minn, þakka þér fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Ég á bara góðar minningar um þig og munu þær ylja mér um ókomna tíð. Ég elska þig endalaust mikið og lofa að ég held áfram að æfa mig í að segja bæ, bæið okkar.

Foreldrum og fjölskyldu Gumma votta ég mína dýpstu samúð á þessum erfiða tíma.

Þín vinkona

Díana.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku Gummi, við eigum eftir að sakna þín mjög mikið því þú varst alltaf svo góður við okkur.

Við munum alltaf muna eftir þér og þú átt sérstakan stað í hjörtum okkar.

Þínir vinir,

Matthías Kristófer og Alexandra Eva.