Hnarreistur Discovery 3 er talsvert hnarreistari í G4-útfærslu.
Hnarreistur Discovery 3 er talsvert hnarreistari í G4-útfærslu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LAND Rover G4 Challenge er aksturskeppni og ævintýri sem Land Rover verksmiðjurnar settu á fót og leysti af hólmi hið víðfræga Camel Trophy.

LAND Rover G4 Challenge er aksturskeppni og ævintýri sem Land Rover verksmiðjurnar settu á fót og leysti af hólmi hið víðfræga Camel Trophy. Discovery G4 er hins vegar ósköp venjulegur Discovery sem breytt hefur verið fyrir 32 tommu dekk og fengið grófgerðara útlit með ljóskösturum og toppbogum. Hækkunin á bílnum, sem felst í stærri dekkjum, gerir hann á hinn bóginn að miklu meiri bíl og að sjálfsögðu færari í flestan sjó.

Um er að ræða nánast fullbúinn Discovery í Windsor-útfærslu sem hefur auk loftpúðafjöðrunarinnar og Terrain Response-drifkerfisins, sex þrepa sjálfskiptingu með handskiptivali, skriðstilli og svokallaðan Cold Climate-búnað sem innifelur upphitaða framrúðu, sætishitun í fram- og aftursætum, upphitaða framrúðusprautu og reyndar ýmislegt fleira í Windsor-útfærslunni. Þarna er kominn verulega vel útbúinn bíll með breytingum sem henta vel þeim sem að mestu nota bílinn til erinda í borginni um leið og bíllinn er betur búinn til að takast á við erfiðara undirlag.

Veigameiri og hávaxnari

G4 var prófaður á dögunum. Hann er á 18 tommu álfelgum, með xenon-ljós, sjálfvirka og tvívirka loftkælingu, regnskynjara, fjarlægðarvara að aftan og margt fleira. V6 dísilvélin er 190 hestafla sem tengd er við sex þrepa sjálfskiptingu með handskiptivali.

Það væri eiginlega rangt að tala um breytingar á þessari nýjustu kynslóð Discovery. Um gersamlega nýjan bíl var að ræða þegar hann var kynntur á sínum tíma sem arftaki annarrar kynslóðar. Áður hefur verið fjallað um nýjustu kynslóð Discovery á þessum síðum og þar farið rækilega í frábæra aksturseiginleika hans á malbikinu.

Með G4-breytingunni og Terrain-Response kerfinu (sem er staðalbúnaður í Discovery 3) er um miklu meiri bíl að ræða. Hann er líka talsvert veigameiri á að líta og hávaxnari á velli en óbreyttur bíllinn. Bíllinn kemur á loftpúðafjöðrun og með réttri notkun á sjálfvirku drifvalskerfinu er bíllinn stöðugur og með mikið veggrip í hröðum þjóðvegaakstri þrátt fyrir stór dekkin. Kerfið býður síðan upp á umtalsverða hækkun á veghæð bílsins sem að sjálfsögðu nýtist í grófari akstri.

Terrain-Response-kerfið er einkar fjölhæft og um leið einfalt í notkun. Hugmyndin með því er að einfalda allt viðmót drifkerfisins og setja það í einn takka á milli sætanna. Hægt er að velja milli fimm mismunandi stillinga eftir því hvort undirlagið er leðja, möl, sandur, grófir steinar, klaki og snjór eða skorningar. Kerfið stillir síðan sjálft veghæðina, gírvalið, eldsneytisinngjöfina, spólvörnina og fleira. Með hækkuninni sem felst í 32" hækkuninni er Discovery 3 orðinn vænlegur kostur þeirra sem þurfa á bíl að halda sem þeir treysta til ferða út fyrir malbikið. Hann hefur líka margt annað til síns ágætis, eins og háþróaða dísilvél sem er fremur sparneytin miðað við stærð og þyngd bíls og sex þrepa sjálfskiptingu með handskiptivali.

Þetta er aflmikil og togmikil vél, enda ekki vanþörf á öflugum vélarkosti því Discovery 3 er með þyngstu bílum í sínum flokki með eigin þyngd upp á tvö og hálft tonn. Dísilvélin er ákaflega þýðgeng og hljóðlát og það þarf virkilega að leggja við eyrun í lausagangi til að heyra að þetta er dísilvél en ekki bensínvél. Hún lætur síðan frá sér heyra við inngjöf og er jafnvel nokkuð hávær á fyrstu upptaksmetrunum. Upptakið er traustvekjandi og það merkilega er að eyðslan er minni en mann hefði grunað. Í borgarakstri sýndi aksturstölvan rúmlega 14 lítra eyðslu og var ekkert verið að stunda sparakstur meðan á prófuninni stóð.

Ríkulega búinn

Discovery 3 Windsor G4 í SE-útfærslu er jeppi í lúxusflokki. Aksturseiginleikarnir eru eins og þeir gerast hvað bestir og plássið og frágangur inni í bílnum er til fyrirmyndar. Vélin er aflmikil en hljóðlát og eyðslugrönn og sex þrepa sjálfskiptingin lungamjúk og býður upp á sportlega handskiptingu. Það er leitun að betri ferðabíl. Í takt við uppfærslu bílsins til meiri gæða er verðið allhátt. Prófunarbíllinn kostaði þannig tæpar 7 milljónir kr., 6.740.000 kr., en auðvitað ber að geta þess að ríkulegur búnaður fylgir, eins og t.d. loftpúðafjöðrunin og Terrain Response-drifkerfið, 18" álfelgurnar, sjálfskiptingin, xenon-ljós og fleira. Hægt er að fá S-gerð bílsins í Windsor G4-útfærslu og kostar hann þá 6.240.000 kr.

Land Rover Discovery Windsor G4

Vél: Sex strokkar, 2.720 rúmsentimetrar, 24 ventlar, samrásarinn sprautun.

Afl: 190 hestöfl við 4.000 snúninga á mínútu.

Tog: 440 Nm við 1.900 snúninga á mínútu.

Gírskipting: Sex þrepa sjálfskipting með

handskiptivali.

Drif: Sítengt aldrif,

lágt drif, Terrain

Response-drifvalskerfi.

Hámarkshraði:

180 km/klst.

Lengd: 4.835 mm.

Breidd: 1.920 mm.

Hæð: 1.837 mm.

Eyðsla: um 14 lítrar innanbæjar

(skv. aksturstölvu).

Hemlar: Diskahemlar, kældir að framan.

Fjöðrun: Loftpúðafjöðrun, stillanleg.

Búnaður: 18" álfelgur, loftpúðafjöðrun, Terrain Response aldrifskerfi, Cold Climate-búnaður o.fl.

Verð: 6.740.000 kr.

Umboð: B&L.

gugu@mbl.is