Sælkeri Matgæðingurinn Heiða Björg Hilmisdóttir með dótturina Sólkötlu.
Sælkeri Matgæðingurinn Heiða Björg Hilmisdóttir með dótturina Sólkötlu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er komið að því að hvíla aðeins smákökurnar og undirbúa áramótafögnuð með tilheyrandi, segir Heiða Björg Hilmisdóttir. Áramótagóðgæti getur verið með ýmsu móti en það má þó gjarnan vera einfalt og girnilegt og þola að standa á borði án þess að láta strax á sjá.

Áramót eru andstæða í sjálfu sér, bæði upphaf og endir og því er vel við hæfi að láta það endurspeglast í matnum. Bjóða upp á fjölbreyttan mat frá ýmsum menningarheimum, heitt og kalt, eða sætt og súrt.

Uppskriftirnar sem hér eru gefnar eru einfaldar og afbragðsgóðar. Þær má elda allar eða velja úr eftir hentugleikum. Svo er um að gera að kaupa fallegt grænmeti til að borða og skreyta borðið með ásamt einhverju áramótaglingri.

Hollráð Heiðu

Auðveldast er að bjóða bara upp á kalda rétti en algengast og kannski mest spennandi er að blanda saman heitum og köldum réttum. Þegar borinn er fram pinnamatur eða lagðir á borð margir réttir þarf alltaf að hafa í huga að það sem á að bera fram kalt sé geymt í kæli eins lengi og kostur er og það sem á að vera heitt sé hitað nægilega mikið og haldið heitu eins lengi og kostur er áður en það er borið á borð.

* Ekki er gott að hafa hvítlauk eða annað fyrirferðarmikið krydd í mörgun réttum á sama hlaðborði.

*Ef á borðum er sterkur matur er mikilvægt að bjóða einnig jógúrtsósu, brauð eða eitthvað sem dregur úr sterka bragðinu.

*Notið litríka ávexti og grænmeti sem skraut.

*Ákveðið fyrirfram hvernig þið ætlið að skipuleggja borðið og hvernig eigi að fylla á sé þess þörf.

*Heitir réttir sem henta vel á hlaðborð eru til dæmis súpa, pottréttir og ofnréttir.

*Mundu að gefa þér smátíma til að taka þig til og "anda" áður en gestirnir byrja að koma.

Risarækjur með mangó

fyrir 8

500 g risarækjur án skelja

salt og pipar

2 msk. matarolía

Salsa

1 vel þroskað mangó

1 dl kókosmjólk

1 msk. sítrónusafi

1 msk. kókosmjöl

Afhýðið og kjarnhreinsið mangóávöxtinn og skerið í bita. Hrærið saman við kókosmjólkina, kókosmjölið og sítrónusafann. Hitið olíu á pönnu og steikið rækjurnar í örstutta stund eða þar til þær hafa skipt um lit. Saltið og piprið rækjurnar. Berið fram með mangósalsanu eða þræðið hverja rækju upp á trépinna og stingið í mangóbita og berið þannig fram sem pinnamat.

Reykt hrefnukjöt

með piparrót

fyrir 8

300 g reykt hrefnukjöt/lambakjöt, þunnt sneitt

klettakál

Sósan

2 dl sýrður rjómi 18%

1 msk. wasabi-krem (græn piparrót)

Best er að byrja á sósunni og hana má jafnvel gera með löngum fyrirvara. Hrærið saman wasabi-kreminu og sýrða rjómanum, magn af wasabi-kremi fer eftir hve sterkt þú vilt hafa þetta. Skerið hrefnukjötið eða lambakjötið í þunnar sneiðar og raðið á fat eða setjið örlítið af piparrótarkreminu á hverja sneið ásamt klettakáli og rúllið upp. Einnig er hægt að bera fram þunnt sneitt kjöt á fati með sósunni í skál, ásamt brauði.

Kalkúnadúllur

með fíkjusósu

fyrir 8

400 g kalkúnabringa

3 eggjarauður

1½ dl rjómi

1 tsk. salt

1/6 tsk. blandaður pipar

matarolía til að steikja úr

Skerið kalkúnabringurnar í bita og setjið í matvinnsluvél. Maukið og setjið eggjarauður, rjóma, salt og pipar út í. Maukið saman og steikið litlar bollur á meðalheitri pönnu í olíu – u.þ.b. 3 mínútur á hverri hlið eða þar til bollurnar eru steiktar í gegn. Berið fram með fíkju-cumberland sósu eða annarri góðri sósu og grænmeti.

Fíkju-cumberlandsósa

fyrir 8

100 g þurrkaðar gráfíkjur

½ dl rauðvín

1 dl rautt púrtvín

½ tsk. sinnepsduft

1/6 tsk. engifer

1 kanilstöng

5 negulnaglar

2½ dl rifsberjahlaup

½ appelsína, safi og rifið hýði

½ sítróna, safi og rifið hýði

Skerið gráfíkjurnar í bita og setjið í pott ásamt rauðvíni, púrtvíni og kryddi. Látið sjóða þar til helmingurinn af víninu er eftir. Setjið þá rifsberjahlaup, ávaxtasafa og ávaxtahýði út í. Setjið í hreina krukku og geymið í kæli.

Sætt grissini

fyrir 8

2 smjördeigsplötur (200 g)

1 egg

4 msk. hrásykur

1 tsk. kanill

3–5 msk. heslihnetur

1 msk. flórsykur

Breiðið smjördeigið út. Brjótið eggið í bolla og hrærið saman og penslið á smjördeigið. Stráið hrásykri, kanil og heslihnetum yfir og leggið saman þannig að botnarnir verði tvöfaldir. Þrýstið saman og setjið í kæli eða frysti smástund. Skerið þvínæst í 1 cm breiðar ræmur og snúið upp á þær og raðið á bökunarplötu sem hefur verið klædd smjörpappír. Stráið flórsykri yfir og bakið við 220°C í u.þ.b. 10 mín. Látið kólna aðeins þannig að kökurnar harðni og berið fram nýtt, ferskt og ilmandi.

Krabbakórónur

fyrir 8

200 g krabba-surimi, saxað

fínt niður

200 g hvítkál, rifið niður

2 dl sýrður rjómi

2 msk. sérrí

2 msk. söxuð fersk steinselja

salt og pipar eftir smekk

cayennepipar eftir smekk

Setjið krabba-surimi í matvinnsluvél, saxið fínt og setjið í skál. Gerið það sama við hvítkálið og blandið því saman við krabbakjötið. Hrærið sýrðum rjóma saman við og bragðbætið með steinselju, sérríi, salti, pipar og cayennepipar. Tilvalið að bera fram með snittubrauði, í litlum brauðskeljum eða sem salat á hlaðborði t.d. með ristuðu brauði.

Þessi uppskrift passar líka fyrir "ekta" krabbakjöt en er mjög góð svona.

Gyllt laxaspjót

fyrir 8 (10 stk.)

300 g lax, roð- og beinhreinsaður

1 dl hrein jógúrt

1 hvílauksgeiri, smátt saxaður

½ tsk. salt

½ tsk. engifer

1 tsk. garam masala

örlítill cayennepipar

½ tsk. túrmerik

12 trépinnar

Skerið laxinn í 12 jafnstóra bita. Blandið saman jógúrt, smátt söxuðum hvítlauk og öðru kryddi. Setjið laxinn út í og látið blandast vel og marinerast í a.m.k. 30 mín. Setjið trépinnana í skál, vatn yfir og látið standa í hálftíma. Stingið trépinna í hvern laxabita og raðið þeim á bökunarplötu sem klædd hefur verið með bökunarpappír. Grillið í ofni við hæsta hita, eða á útigrilli en þá gjarnan á grind svo bitarnir haldist heilir. Berið fram með myntujógúrt.

Myntujógúrt

fyrir 8

3 dl hrein jógúrt

1 dl fersk mynta

½ tsk. límónusafi

salt og pipar eftir smekk

Setjið allt í matvinnsluvél, maukið saman og bragðbætið með salti og pipar. Það þarf alls ekki mikið salt, bara örlítið svo að myntan fái notið sín til fulls.

Möndlukaka með vanillukremi og jarðarberjum

fyrir 8

150 g möndlur, afhýddar

2 msk. hveiti

5 eggjahvítur

2 dl flórsykur

Fylling

4 eggjarauður

2 msk. sykur

3 dl nýmjólk

1 vanillustöng

(eða 1 tsk. vanillusykur)

300 g jarðarber ( eða önnur ber)

Hitið ofninn í 175°C. Malið möndlur í matvinnsluvél eða möndlukvörn fyrir þá sem eru svo vel tækjum búnir. Blandið saman möndlum og hveiti. Þeytið eggjahvítur alveg stífar og blandið flórsykrinum varlega saman við með sleikju og þar næst möndlunum. Hrærið eins lítið og mögulegt er. Setjið í form sem búið er að smyrja að innan og strá í örlitlu hveiti. Bakið í neðri hluta ofns í u.þ.b. 25 mínútur. Takið út og látið kólna.

Setjið eggjarauðurnar í pott ásamt sykri og þeytið með písk. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið innan úr og setjið út í eggin. Setjið nýmjólkina út í, hitið varlega og þeytið á meðan kremið þykknar. Þegar kremið er orðið þykkt takið þá pottinn af hellunni og látið kólna. Bragðbætið kremið með vanillusykri, þegar það er orðið kalt.

Breiðið kremið yfir botninn og raðið berjum yfir.

Ávaxtakarfa með

hunangsrjóma

fyrir 8

4 appelsínur

4 kiwi

2 nektarínur

200 g hindber, fersk eða frosin og þídd

4 ferskar eða þurrkaðar gráfíkjur

5 dl rjómi

3 msk. fljótandi hunang (villiblóma er mjög gott)

Afhýðið appelsínur og kiwi og skerið í fallega geira. Skerið nektarínur í bita og blandið hindberjunum varlega saman við. Setjið í skálar. Þeytið rjómann og blandið hunanginu varlega saman við. Setjið rjómatopp í hverja skál af ávaxtasalati. Skerið gráfíkjurnar í geira og tyllið efst. Fallegt er að skreyta með ferskri myntu. Hunang og rjómi hafa bragð sem á sérstaklega vel saman og passar alveg einstaklega vel með ávöxtum líka. Þetta má að sjálfsögðu líka bera fram í einni stórri skál en þá er betra að hafa rjómann í annarri skál.

Endilega prófið hunangsrjómann því hann er ferlega góður og passar vel með öðrum lítið sætum eftirréttum.