Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, tók upp talsvert alvarlegt mál í ræðu sinni er skólinn útskrifaði nemendur fyrir jólahátíðina.

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, tók upp talsvert alvarlegt mál í ræðu sinni er skólinn útskrifaði nemendur fyrir jólahátíðina. Skólameistarinn benti á að viðhorf nemenda virtust vera að breytast í þá veru að æ fleiri litu svo á að þeir þyrftu ekki að læra heima. "Nýlegar rannsóknir benda til þess að stór hópur framhaldsskólanemenda ver ótrúlega litlum tíma til heimanáms – jafnvel innan við klukkustund á dag. Sumir nemendur fullyrða í samræðum sínum við kennara að þeir telji nægjanlegt að fylgjast vel með í kennslustundum, þá eigi þeir ekki að þurfa að leggja meira á sig," sagði Hjalti Jón.

Það hlýtur að vera rannsóknarefni að grafast fyrir um orsakir þvílíks reginmisskilnings. Kennari nær auðvitað aldrei að komast yfir allt námsefni vetrarins í tímum, heldur aðeins nokkur aðalatriði. Fólk verður að lesa bækurnar, sem ætlazt er til að það tileinki sér. Og væntanlega er prófað úr öllu námsefninu í framhaldsskólum, en ekki aðeins því, sem farið var yfir í tímum.

Hjalti Jón segir hins vegar að meðal kennara hafi sú spurning komið upp hvort skólinn dragi úr kröfum vegna þessa. "Hvort við gerum minni kröfur vitandi það að margir nemendur okkar hafa ekki undirbúið sig í samræmi við það sem við settum þeim fyrir áður en við kvöddum þá í lok síðustu kennslustundar."

Slíkt má auðvitað ekki gerast. Ef Ísland á að vera samkeppnisfært við önnur lönd á tímum þegar menntun skiptir sífellt meira máli verður að auka kröfurnar í menntakerfinu en ekki minnka þær. Og það er gott ef menn hafa áttað sig á því í VMA hvert stefnir og leitast við að snúa þróuninni við. Hjalti Jón Sveinsson sagði í ræðu sinni að margir nemendur væru sáttir við að ljúka áfanga með fimm í einkunn, þ.e. með því að ná helmingi markmiðanna sem sett voru. Slík vinnubrögð gengju auðvitað aldrei á vinnumarkaðnum. Hann sagði að þess vegna hefðu menn í VMA velt því fyrir sér hvort hækka ætti lágmarkið á prófi upp í sex eða sjö. Það er auðvitað skynsamleg stefna. Hvað hefur fyrirtæki að gera með fólk sem fær full laun en nær bara 50% árangri?

En vinnumarkaðurinn á kannski sína sök á dvínandi áhuga á heimanámi og versnandi árangri nemenda. Hjalti Jón benti á að ein ástæða þess að nemendur litu ekki í bækurnar utan skólatíma væri mikil vinna. Það er orðið mjög algengt að framhaldsskólanemar vinni; algengara en áður. Og hafa þó nánast allar fjölskyldur úr meiru að spila. Ástæðurnar eru líklega annars vegar gífurleg ásókn fyrirtækja í vinnuafl og hins vegar margfræg neyzlumenning Íslendinga; margir unglingar vinna ekki til að eiga fyrir nauðþurftum heldur fyrir réttu tízkufötunum og græjunum. Ef námið líður fyrir það er forgangsröðin vitlaus og framtíðin ekki sérlega björt.