"ÞEGAR kvikmyndin Ágirnd var frumsýnd, í desember 1952, olli hún miklu fjaðrafoki og lögreglan stöðvaði sýningarnar sem fóru fram í Tjarnarbíói, sem var í eigu Háskóla Íslands.

"ÞEGAR kvikmyndin Ágirnd var frumsýnd, í desember 1952, olli hún miklu fjaðrafoki og lögreglan stöðvaði sýningarnar sem fóru fram í Tjarnarbíói, sem var í eigu Háskóla Íslands. Myndin var fordæmd úr predikunarstólum landsins og presti í útvarpsmessu fannst verst að þessi hroðalega mynd skyldi vera sprottin úr hugarheimi ungrar Reykjavíkurstúlku. Ákveðið var að leyfa sýningar á myndinni aftur en þá brá svo við að Háskólinn vildi ekki að hún yrði sýnd í sínu bíói. Óskar, sem framleiðandi myndarinnar, brá þá á það ráð að fá hana sýnda í Hafnarbíói og það gekk alveg þokkalega," segir Viðar Eggertsson.

Hann upplýsir ekki allt um það sem gerðist í tengslum við þessa dramatísku kvikmyndasýningu en á morgun kl. 14.40 verður hann með þátt á rás eitt þar sem nánar verður greint frá atburðunum og lífi Svölu Hannesdóttur og Óskars Gíslasonar kringum gerð myndarinnar Ágirndar, árið 1952.

"Þau lentu í ýmiss konar persónulegum þrengingum á þessum tíma sem enduðu með gjaldþroti Óskars og því að Svala flutti úr landi. Þeir skelfilegu atburðir sem gerðust í myndinni kristölluðust í þeirra eigin lífi. Þessu reyni ég að koma til skila í útvarpsþættinum. Frásagnarmenn mínir segja sumir að Svala hafi haft ótvíræða hæfileika og verið einstaklega spennandi persónuleiki. Hún hefði kannski orðið mjög góð leikkona hefði hún fengið að feta þá braut."