Jóhanna Ása Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1974 en ólst upp á Ísafirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1996. Jóhanna starfaði við umönnun og við verslunarstörf, og er núna leiðbeinandi á leikskóla og sundþjálfari.

Jóhanna Ása Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1974 en ólst upp á Ísafirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1996. Jóhanna starfaði við umönnun og við verslunarstörf, og er núna leiðbeinandi á leikskóla og sundþjálfari. Hún hefur starfað með Leikfélagi Hólmavíkur frá árinu 1993, sem formaður frá 2005. Jóhanna er gift Stefáni Jónssyni bílstjóra og eiga þau tvö börn.

Jóhanna Ása Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1974 en ólst upp á Ísafirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1996. Jóhanna starfaði við umönnun og við verslunarstörf, og er núna leiðbeinandi á leikskóla og sundþjálfari. Hún hefur starfað með Leikfélagi Hólmavíkur frá árinu 1993, sem formaður frá 2005. Jóhanna er gift Stefáni Jónssyni bílstjóra og eiga þau tvö börn.

Leikfélag Hólmavíkur heldur Leikhússport- og skemmtikvöld á föstudag, 29. desember. Skemmtunin fer fram í Bragganum, Hólmavík, og hefst kl. 20.30, en Leikhússport- og skemmtikvöld Leikfélagsins er orðið árviss viðburður í menningarlífi bæjarins.

Jóhanna Ása Einarsdóttir er formaður leikfélagsins: "Þetta er í þriðja skipti sem við höldum þessa dagskrá og fjölmenna bæjarbúar í Braggann til að fylgjast með," segir Jóhanna. "Haldin er keppni þar sem skipt er í tveggja manna lið og ræðst fjöldi liða af hversu margir þora að taka þátt hverju sinni. Liðin þurfa síðan að spinna út frá viðfangsefni sem þau fá aðeins 10 sekúndum áður en leikurinn hefst og þurfa þar að auki að halda sig við þann leikstíl sem liðið hefur fyrirfram valið sér. Dómnefnd gefur svo stig fyrir skemmtigildi frammistöðunnar og leikræna tjáningu og einnig fyrir hversu vel keppendum tekst að halda sig innan þess stíls sem þeir hafa markað sér."

Öllum er heimilt að taka þátt, sem treysta sér til, en það er allmikil kúnst að spinna, að sögn Jóhönnu: "Oft hafa það einkum verið meðlimir leikfélagsins sem hafa borið þungann af skemmtuninni, en við viljum endilega hvetja fleiri til að taka þátt: því fleiri sem keppa, því skemmtilegra," segir Jóhanna. "Fólk á að vera óhrætt að spreyta sig, en spuni krefst fyrst og fremst hugmyndaflugs, og þess að þora að stíga á svið og leika."

Sigurvegarar keppninnar hljóta titilinn Spunatröll leikfélagsins, og fylgir þeirri nafnbót sá heiður að vera Leikfélagi Hólmavíkur til halds og trausts næsta árið.

Leikhússport- og skemmtikvöld leikfélagsins hefur til þessa verið haldið í október eða nóvember, en er nú haldið milli jóla og nýárs í þeirri von að fleiri sjái sér fært að mæta: "Krakkarnir okkar sem eru á menntaskóla- og háskólaaldri eru margir að heiman lungann úr vetrinum, en koma aftur á Hólmavík yfir hátíðirnar," segir Jóhanna.

Aðgangseyri er stillt mjög í hóf og kostar aðeins kr. 500 að fylgjast með dagskránni: "Leikhússport- og skemmtikvöldið er mikilvægur liður í fjáröflun félagsins, og leggja gestir góðu málefni lið auk þess að eiga skemmtilega kvöldstund í félagsskap bæjarbúa á Hólmavík," segir Jóhanna.

Leikfélag Hólmavíkur hefur starfað frá árinu 1981 og er mikið líf í störfum leikfélagsins: "Félagið er mjög virkt og gróska í starfinu. Við höfum að jafnaði sett upp eitt til tvö verk á hverju leikári og má segja að allir í plássinu sem vettlingi geta valdið taki þátt í starfinu," segir Jóhanna. "Meðal verka sem leikfélagið hefur spreytt sig á er Fiskar á þurru landi, Sex í sveit og Karlinn í kassanum en næsta vor höfum við hugsað okkur að búa til okkar eigin skemmtidagskrá. Það yrði stórt og mjög skemmtilegt verkefni að fást við."

Nánar má fræðast um Leikfélag Hólmavíkur á slóðinni www.holmavik.is/leikfelag.