Augusto Pinochet
Augusto Pinochet
Augusto Pinochet traðkaði á mannréttindum þegar hann var leiðtogi Chile og dró sér hundruð milljóna króna. Stuðningsmenn hans vilja hins vegar ekki una að nafni hans fylgi skömm og hyggjast endurskrifa söguna.

Augusto Pinochet traðkaði á mannréttindum þegar hann var leiðtogi Chile og dró sér hundruð milljóna króna. Stuðningsmenn hans vilja hins vegar ekki una að nafni hans fylgi skömm og hyggjast endurskrifa söguna.

Fjallað er um þessar tilraunir í International Herald Tribune í gær. Um helgina birtu blöð í Chile kveðjubréf frá Pinochet "til allra Chilebúa, án undantekningar". Þar gengst hann við brotum, en kveðst ekki hafa átt annars kost. Annars hefði brotist út borgarastyrjöld.

Á hægri vængnum hafa menn verið uppteknir af að hamra á því í fjölmiðlum að Pinochet hafi blásið nýju lífi í chileskan efnahag, en þess er ekki látið getið að í leiðinni braut hann stéttarfélög á bak aftur og bannaði stjórnmálaflokka. Látið er að því liggja að Pinochet sé fórnarlamb samsæris vinstrimanna.

Allt til 2003 naut Pinochet nokkurs stuðnings í Chile. Það ár kváðust 30% enn líta upp til hans. Þegar í ljós kom 2004 að hann hefði dregið sér fé í stórum stíl breyttist afstaðan og mælist velþóknun á honum nú 10%.

Nú er hins vegar lagt til að reistar verði styttur af Pinochet um borg og bý og borgarstjóri hverfisins þar sem Pinochet átti heima í Santíagó hefur sagst ætla að nefna götu í höfuð honum. Hann hefur þó horfið frá því að gera það við götuna, sem Michelle Bachelet, forseti Chile, á heima við, en hún var pólitískur fangi í stjórnartíð Pinochets.

Stjórn Bachelets hefur verið gagnrýnd fyrir að bregðast seint og lítið við þessum tilraunum til að endurskrifa söguna. Harðstjórinn á ekki skilið að ímynd hans verði fegruð.