Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is ALDREI áður hafa lögregla og tollgæsla lagt hald á viðlíka magn af kókaíni og amfetamíni og á árinu sem nú er að líða.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

ALDREI áður hafa lögregla og tollgæsla lagt hald á viðlíka magn af kókaíni og amfetamíni og á árinu sem nú er að líða. Á þessu ári hefur verið lagt hald á 12,8 kíló af kókaíni og 46,4 kíló af amfetamíni, sem er örlítið meira magn en lagt var hald á samanlagt á síðustu sex árum á undan, 2000–2005.

"Auðvitað er ánægjulegt að leggja hald á svo mikið magn af efnum því það segir sig sjálft að það hefði verið slæmt ef þetta hefði komist inn á markaðinn," sagði Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann segir erfitt að meta þróunina á fíkniefnamarkaðinum út frá þessum tölum, en ljóst sé að fíkniefnasendingarnar séu stærri en áður.

Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir það alveg ljóst að lögregla og tollgæsla hafi náð mjög háu hlutfalli, og hærra en áður, af þeim efnum sem smyglað var inn í landið á árinu sem er að líða. Hann vildi þó ekki gefa upp hvernig þjálfun og tækjabúnaður hefði verið bættur til að ná þessum árangri.

"Við höldum rannsóknaraðferðum okkar kirfilega leyndum því um leið og ég fer að útskýra hvernig við bætum rannsóknaraðferðir okkar er ég að upplýsa hvernig við vinnum. Þessi árangur er ekki tilviljun, hann er árangur þrotlausrar vinnu í mörg ár og markvissrar uppbyggingar."

Jóhann segir smygltilraunir síbreytilegar og ákveðnar bylgjur gangi í smyglinu eins og öðru. Í ár hafi til að mynda verið mikið um að reynt hafi verið að smygla í farangri, en minna um smygl innvortis.

Tóku | Miðopna

Í hnotskurn
» Lögregla og tollgæsla hafa lagt hald á 12,8 kg af kókaíni það sem af er ári, og 46,4 kg af amfetamíni.
» Söluverðmæti amfetamíns og kókaíns sem lagt hefur verið hald á í ár hefði getað numið um 330 milljónum kr. hefði það sloppið inn í landið.
» Magnið af hassi og e-töflum sem tekið hefur verið á þessu ári er hins vegar minna en meðaltal sl. 6 ára.