Guðbjörg Eygló Þorgeirsdóttir
Guðbjörg Eygló Þorgeirsdóttir
Guðbjörg Eygló Þorgeirsdóttir fjallar um nám í fótaaðgerðafræðum: "Við vinnum að meinum og alvarlegum kvillum skjólstæðinga okkar. Snyrtifræðingar fegra heilbrigða fætur."

FÓTAAÐGERÐ fékk löggildingu sem starfsgrein innan heilbrigðisstétta 1993 – var þá miklum áfanga náð bæði fyrir fagfélagið og þá sem leita þurfa til fótaaðgerðafræðinga. Þarna var kominn grunnurinn að samstöðu fagaðila í að efla, endurmennta, viðhalda hæfni, nýjungum og menntun fótaaðgerðafræðinga á Íslandi. Þökk sé Guðmundi Bjarnasyni, þáverandi heilbrigðisráðherra, sem sýndi mikinn skilning á hvar þessi starfsgrein ætti heima og Ólafi Ólafssyni, þáverandi landlækni, sem tjáði undirritaðri hversu mikilvægt væri að fylgjast með framförum í menntunarmálum í okkar grein sem öðrum. Hann talaði um að allt nám væri barn síns tíma á hverjum tíma, vitnaði m.a. í sitt nám og ljósmæðranám.

Hann liti svo á menntun okkar náms ætti að vera á háskólastigi þar sem við ynnum mikið einar með sjúkt fólk, fólk með bælt ónæmiskerfi. Við værum í fáum tilfellum á vernduðum vinnustöðum, sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum.

Fótaaðgerðafræðingar vinna meira einir með sjúklingum sínum en margar aðrar heilbrigðisstéttir á stofum eða í lokuðum rýmum (samanber tannlæknar, sjúkraþjálfun) og ábyrgð fagmannsins þar með mun meiri. Á þessum forsendum þarf fagmaðurinn sem meðhöndlar í starfi sínu 60 til 70% sjúklinga með heilsubresti á mismunandi stigum mun meiri undirstöðumenntun en krafist er í dag. Fótaaðgerðafræðingar sem hafa unnið við starfið að einhverju ráði vita þetta. Hafa upplifað ýmsa þætti eins og yfirlið, hjartastopp, flogaveikikast, sykurfall og fleira. Þetta á einnig við á öldrunarheimilum. Við vitum að mikla ábyrgð, menntun og þroska þarf til ef vel á að vera. Menntun ætti þess vegna að meta til jafns við hjúkrun, sjúkraþjálfun og aðrar samsvarandi stéttir. Nú hafa athafnakonur í viðskiptageiranum sem reka naglaskóla, förðunarskóla og snyrtiskóla, sem er viðurkennd iðngrein, sótt fast hjá menntamálaráðuneytinu að setja á stofn fótaaðgerðaskóla, sem að mínu viti á alls ekki heima í því umhverfi. Með stofnun félags fótaaðgerða var markmiðið að aðskilja og leggja áherslu á muninn á hvað er fótsnyrting og fótaaðgerð. Núverandi menntamálaráðherra gaf vilyrði fyrir fótaaðgerðaskóla síðastliðið haust án þess að tala við fagfélag fótaaðgerða né heilbrigðisráðuneytið sem er æðsti aðili menntunarmála fótaaðgerðafræðinga samkvæmt reglugerð. Heilbrigðisráðuneytið kom af fjöllum þegar við gerðum fyrirspurn um þetta vilyrði menntamálaráðherra nú síðastliðið haust og kannaðist ekkert við málið. Í október sl. var gerð fyrirspurn á þingi til Þorgerðar Katrínar menntamálaráðherra um þetta vilyrði. Kom síðar í ljós að vilyrðið var dregið til baka og stofna ætti nefnd innan menntamálaráðuneytisins sem ætti að huga að námskrá fótaaðgerðafræðinga.

Hverjir vinna innan starfsmenntadeildar ráðuneytisins er mér ókunnugt, vona að þar séu kallaðir til fyrst og fremst fulltrúar frá fagfélaginu, sykursýkis- og húðlæknum, bæklunarlæknum, heimilislæknum og sjúkraþjálfurum. Þetta eru þeir aðilar sem við höfum mest samskipti og samvinnu við og þekkja best okkar starfssvið.

Víða erlendis er nám í fótaaðgerðum komið á háskólastig, má þar nefna Holland; skóli rekinn af læknum. Á öðrum stöðum er stefnan svipuð. Undir þaki fótaaðgerðaskólanna í Danmörku fer eingöngu fram nám í fótaaðgerðum, þætti það mikil fjarstæða ef snyrtifræðinám færi fram í sama umhverfi, enda er um tvær ólíkar starfsstéttir að ræða sem ekkert eiga sameiginlegt. Sjúkraþjálfun og hárgreiðsla mun til að mynda seint verða kennd í sama umhverfi enda um heilbrigðisnám annars vegar að ræða og iðnnám hins vegar. Eftir löggildingu fagsins hafa fótaaðgerðafræðingar lagt sig alla fram við að koma því til lykta við almenning að þetta séu tvær ólíkar starfsstéttir er ekkert eiga sameiginlegt. Við vinnum að meinum og alvarlegum kvillum skjólstæðinga okkar. Snyrtifræðingar fegra heilbrigða fætur. Ef af þessum skóla verður erum við að fara fjögur skref aftur á bak. Sá árangur sem hefur náðst undanfarin ár, varðandi að hér sé um tvær ólíkar stéttir að ræða, mun rugla almenning í ríminu, gera þá staðreynd enn þokukenndari.

Vona ég að ráðamenn okkar sjái sæmd og metnað í að stefna hátt í virðingu gagnvart fótaaðgerðum þar sem námið er ekki selt sem söluvara eins og einn umsækjandi tjáði í haust gagnvart umsókn í fótaaðgerð við umræddan skóla. Þar var honum sagt að námið kostaði um tvær milljónir, væri lánshæft. Var markaðssett eins og þekkist í stálkaldri viðskiptamarkaðssetningu. Eftir nám myndu ákveðið margar fótaaðgerðir greiða upp námskostnað. Síðan var dæmið lagt upp, hversu margar meðferðir þyrfti til að hagnast á viku, mánuði eða ársgrundvelli. Með dollaraglampa í augum var vinnunni sagt upp, framtíðin björt þannig að eftir ársnám með litla undirbúningsmenntun væri hún komin á græna grein.

Frá mínu sjónarhorni því miður. Þannig er kannski hægt að setja upp nám í ásetningu gervinagla. Það er fyrir neðan virðingu heilbrigðisstétta að útfæra nám heilbrigðisþjónustu á þennan hátt og að ég hygg ólöglegt.

Höfundur er fótaaðgerðafræðingur.