— Morgunblaðið/Golli
Kampavín er allt of gott til að einskorða það við áramót. Þessi drottning vínanna á eiginlega alltaf við. Á góðum stundum, með góðum vinum eða bara vegna þess að mann langar í eitthvað afskaplega gott.

Kampavín er allt of gott til að einskorða það við áramót. Þessi drottning vínanna á eiginlega alltaf við. Á góðum stundum, með góðum vinum eða bara vegna þess að mann langar í eitthvað afskaplega gott. Fáir, segir Steingrímur Sigurgeirsson , hafa líklega orðað þetta betur en Napóleon sem sagðist ekki geta lifað án kampavíns. Að loknum sigri ætti hann það skilið, í kjölfar ósigurs þyrfti hann á því að halda.

Það er hins vegar óneitanlega eitthvað sérstakt við freyðandi vín og áramót. Hvellurinn þegar tappinn flýgur úr flöskunni sem keppir við flugeldasýninguna fyrir utan, bólurnar sem synda upp há glösin og hljómurinn er glösin mætast þegar skálað er mynda hátíðlega stemningu og marka í huga margra komu nýs árs. Enda er fátt sem á betur við á slíkri stundu en glas af ísköldu kampavíni.

Margir nota orðið kampavín sem samheiti yfir freyðandi vín. Það eru hins vegar alls ekki öll freyðivín kampavín þótt öll kampavín séu freyðivín.

Freyðivín eru framleidd í öllum víngerðarlöndum. Á Ítalíu drekka menn Spumanti, Asti eða freyðandi Lambrusco. Spánverjar eru með réttu stoltir af hinum ágætu Cava-vínum sínum sem framleidd eru í Katalóníu. Cava-vínin hafa löngum verið vinsæl hér á landi og sést það meðal annars á því að á vefsíðu vínbúðanna er að finna 21 mismunandi tegund en í flokknum "önnur freyðivín" einungis fimmtán. Þau koma héðan og þaðan enda freyðivín yfirleitt framleidd í einhverju magni í öllum víngerðarlöndum heims.

Galdurinn að baki kampavíninu

Í flestum víngerðarhéruðum Þýskalands eru framleidd og drukkin Sekt-vín, þau bestu úr Riesling-þrúgunni, og í Ástralíu drekka menn gjarnan freyðandi rautt Shiraz-vín um jólin þótt Ástralar séu jafnframt lunknir við að framleiða góð freyðivín í sígildum stíl. Um allt Frakkland má finna freyðivín og má þar nefna Crémant-vínin sem framleidd eru í Alsace og Bourgogne. Svona mætti lengi áfram telja. En þegar upp er staðið jafnast ekkert freyðandi vín á við hin freyðandi vín héraðsins Champagne austur af París.

Víngerðarsvæðin er að finna í kringum hina sögufrægu borg Reims, sem einnig er þekkt fyrir hina glæsilegu dómkirkju þar sem margir af konungum Frakklands voru krýndir. Í Reims og í nágrannabæjunum Epernay og Ay eru höfuðstöðvar flestra kampavínsfyrirtækja og teygja kjallarar þeirra sig undir borgina á stóru svæði.

Margir hafa velt því fyrir sér hver sé galdurinn á bak við kampavínið. Hvers vegna eru kampavín svona miklu, miklu betri en önnur freyðandi vín? Þrátt fyrir að framleiðendur víðs vegar um heim hafi reynt að nota sömu vínþrúgur (Chardonnay, Pinot Noir og Pinot Meunier) og notaðar eru í Champagne og framleiða freyðivín sín með sömu aðferðum og notaðar eru við kampavínsframleiðsluna hafa kampavín ennþá vinninginn. Vissulega eru ekki öll kampavín betri en öll freyðivín. Það eru til frábær freyðivín og léleg kampavín. Frábæru freyðivínin kosta hins vegar svipað og kampavín og ef valið er kampavín frá einhverju af stóru kampavínshúsunum geta menn gengið að gæðunum vísum. Þær aðferðir sem notaðar eru við framleiðsluna tryggja nefnilega að vínin breytast ekki milli ára.

Kampavín eru ekki nema í undantekningartilvikum árgangsvín. Það er einungis þegar aðstæður eru einstaklega góðar að framleiðendur framleiða vín sem merkt eru sérstökum árgangi og eru þetta allajafna kampavín sem eru dýrari en hin hefðbundnu kampavín frá sama framleiðanda. Þannig kostar hefðbundið kampavín yfirleitt í kringum þrjú þúsund krónur en árgangskampavín að minnsta kosti fjögur til fimm þúsund krónur.

Framleiðsla kampavína byggist á kampavínsaðferðinni, "Méthode Champenoise", sem nú er gjarnan kölluð "Méthode Traditionelle" þar sem kampavínsframleiðendur hafa fengið því framgengt að óheimilt sé að nota heiti héraðs þeirra yfir önnur vín. Öll betri freyðivín, hvort sem þau koma frá Champagne eða ekki, eru hins vegar framleidd samkvæmt þessari aðferð.

Í fyrstu er framleitt hefðbundið hvítvín – jafnt úr hvítum sem rauðum þrúgum. Þegar víngerjuninni er lokið tekur síðari gerjunin eða kolsýrugerjunin við. Sykri er bætt út í flöskurnar og þeim lokað. Þegar sykurinn gerjast breytist hann ekki í áfengi heldur í kolsýru.

Minna úrval en áður

Leit á vefsíðu vínbúðanna skilaði alls 23 tegundum af kampavíni sem hér eru í boði og virðist sem úrvalið hafi skroppið verulega saman á milli ára. Í fyrra skilaði sambærileg leit á sama tíma 38 tegundum! Þá ber að hafa hugfast að einungis er hægt að ganga að öllum þessum tegundum vísum í búðunum í Kringlunni og á Stuðlahálsi.

Þarna ætti þó að vera eitthvað fyrir alla, konur og karla. Hægt er að fá kampavín frá litlum og stórkostlega góðum kampavínshúsum á borð við Krug, en þá kostar flaskan líka litlar 9.440 krónur. Krug er Rolls Royce kampavínanna og er stundum sagt vera frægasta kampavín heims en jafnframt það sem fæstir leggja sér til munns. Það er þó alls ekki dýrasta kampavínið á íslenska markaðnum því lúxusvínið fræga Dom Pérignon, sem kemur frá kampavínshúsinu Moët et Chandon, er líka fáanlegt. Til að halda uppi heiðri Krug verður þó að benda á að vínið sem hér er selt, Grande Cuvée, er "ódýrasta" vín þessa kampavínshúss.

Flestir láta sér líklega nægja ögn ódýrari vín á gamlárskvöld og þar er margt í boði. Til dæmis hin sígilda "gula ekkja" frá Veuve-Clicquot Ponsardin (sem er nú eiginlega appelsínugul) eða þá Bollinger fyrir þá sem vilja þyngri og þroskaðri stíl. Duval-Leroy er líka athyglisvert kampavínshús og þess má geta til gamans að það var annað af tveimur húsum sem náði kampavíni inn á lista bandaríska víntímaritsins Wine Spectator yfir 100 bestu vín ársins. Hitt vínið var Krug.

Duval-Leroy er ekki eitt af stóru, þekktu húsunum en þetta kampavínshús, sem hefur verið rekið sem fjölskyldufyrirtæki frá árinu 1859, hefur verið að sækja mjög í sig veðrið á síðastliðnum rúmum áratug.

Ég er sjálfur mjög hrifin af Duval-Leroy Cuvée Paris sem kostar 3.090 krónur. Flaskan er glæsileg, skreytt af bandaríska listamanninum LeRoy Nieman, og kampavínið sjálft er einstaklega milt með hvítum ávexti og blómum í nefi, með vott af ávaxtasætu (ef hægt er að nota orðið sætt yfir Brut-vín).

Í höfuðið á þjóðhetju

Enn eitt kampavínshúsið sem klikkar aldrei er svo Pol Roger en standard-vínið þeirra á 2.890 krónur er með betri kaupunum í kampavíni. Ferskt og fágað með góðri þyngd. Og líkt og svo oft þegar kampavín er annars vegar fylgir góð saga húsinu. Þegar Þjóðverjar hernámu bæinn Epernay árið 1914 flúðu allir íbúanna nema einn, bæjarstjórinn Maurice Pol Roger. Það var sama þótt Þjóðverjar hótuðu honum lífláti og að bærinn yrði brenndur til grunna. Ekkert haggaði bæjarstjóranum. Hann varð að þjóðhetju og þegar því var fagnað í næstu heimsstyrjöld að Þjóðverjar höfðu verið hraktir frá París árið 1944 kom auðvitað enginn annar drykkur til greina í sigurveislunni í breska sendiráðinu í París en Pol Roger. Winston Churchill var þar meðal gesta en hann hafði ávallt haft mikið dálæti á kampavíni. Enn meira dálæti fékk hann á Odette, tengdadóttur Jacques Pol Roger, sem hann hitti í veislunni. Daðrið í veislunni varð að ævilangri vináttu. Í hvert skipti sem Churchill var í París var Odette boðið í mat. Á hverju ári sendi hún honum kassa af kampavíni á afmælisdegi hans, árgangsvíninu 1928 sem hafði verið borið fram í veislunni á meðan birgðir af því entust.

Svona hélt þetta áfram fram að andláti Churchills árið 1965 en frá þeim tíma hafa flöskur Pol Roger verið með svörtum sorgarborða og besta árgangsvín hússins borið nafnið Cuvée Winston Churchill.

sts@mbl.is