Aksturseiginleikar Lynx Xtrim fer vel með ökumann og hefur góða alhliða aksturseiginleika.
Aksturseiginleikar Lynx Xtrim fer vel með ökumann og hefur góða alhliða aksturseiginleika. — Ljósmynd/Magnús V. Arnarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Halldór Arinbjarnarson halldor@icetourist.is LYNX-vélsleðar frá Finnlandi hafa verið hér á markaði í nokkur ár og komið vel út. Þeir eru söluhæsta sleðategundin í Skandinavíu en markaðshlutdeild þeirra hérlendis hefur ekki verið mikil.

Eftir Halldór Arinbjarnarson

halldor@icetourist.is

LYNX-vélsleðar frá Finnlandi hafa verið hér á markaði í nokkur ár og komið vel út. Þeir eru söluhæsta sleðategundin í Skandinavíu en markaðshlutdeild þeirra hérlendis hefur ekki verið mikil. Hluti skýringarinnar kann að vera óstöðugleiki í umboðmálum en hann ætti nú að heyra sögunni til. Fyrr á árinu tók Ellingsen við umboðinu fyrir Lynx og hefur komið af krafti inn á markaðinn í vetur.

Reynsluekinn var einn af toppsleðunum í sportsleðalínunni frá Lynx sem kallast Xtrim 800 Power TEK.

Engum blöðum er um það að fletta að 800 Power TEK-vélin er eitt af aðalsmerkjum þessa sleða. Hún er sögð skila 140 hestöflum og þau virðast vel útilátin því aflið er yfirdrifið. Þetta er háþróuð vél sem komin er góð reynsla á, tveggja strokka með blöndungum. Beltið á Xtrim er 144x15 tommur með 38 mm spyrnum. Það virðist henta sleðanum ágætlega og skilaði honum vel áfram í bröttum brekkum þótt færið væri laust. Aksturseiginleikar Xtrim ættu að falla flestum í geð og skiptir þá miklu að fjöðrunin er mjög vel heppnuð, enda mikið í hana lagt.

Xtrim er vel búinn sleði. Hraðamælir, snúningshraðamælir og bensínmælir tilheyra staðalbúnaði, ásamt hita í handföngum og bensíngjöf, þjófavörn, dráttarkrók, rafstarti og bakkgír. Aftan við sætið er geymsluhólf sem hægt er að skipta út fyrir aukasæti og þar fyrir aftan pallur með grind fyrir farangur. Útlit sleðans er stílhreint, samt e.t.v. ekki mjög spennandi, en ætti að standast vel tímans tönn.

Ekki verður betur séð en Xtrim 800 standi vel undir nafni sem alhliða brekku- og ferðasleði. Fyrir lengri hálendisferðir er hér líka tvímælalaust einn álitlegasti kosturinn á markaðinum. Hann er sérlega vel búinn með góða aksturseiginleika og yfirdrifið afl. Uppgefið verð er fyrir 2007 árgerðina 1.510 þúsund kr. og má ekki hærra vera sé horft til keppinautanna. Alltaf verður þó að gæta þess að taka allan staðalbúnað með í dæmið og sem fyrr segir er Xtrim einn með öllu.