Stílhreinn Stílhreinn og rennilegur Outlander með mjúkum og ávölum línum.
Stílhreinn Stílhreinn og rennilegur Outlander með mjúkum og ávölum línum. — Morgunblaðið/Ágúst Ásgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verulegar breytingar hafa orðið á Outlander-jepplingnum frá Mitsubishi sem kemur á markað eftir áramót, en á Íslandi verður hann fáanlegur næsta vor. Undirvagninn er nýr og gjörbreyttur sem bætir aksturseiginleika frá fyrri gerð.

Verulegar breytingar hafa orðið á Outlander-jepplingnum frá Mitsubishi sem kemur á markað eftir áramót, en á Íslandi verður hann fáanlegur næsta vor. Undirvagninn er nýr og gjörbreyttur sem bætir aksturseiginleika frá fyrri gerð. Breytingar á yfirbyggingu gera bílinn sportlegri en samt er yfir honum viss mjúkleiki. Við reynsluakstur í nágrenni Barcelona reyndist þessi fjölnotabíll afar lipur og stöðugur á vegi og þægilegur til ferðalaga.

Nýi Outlanderinn verður til sölu hjá Heklu frá og með apríl 2007. Til að byrja með beinskiptur en er væntanlegur með sjálfskiptingu árið 2008. Í fyrstu verður hann boðinn með 140 hesta díselmótor en síðar með 220 hesta bensínhreyfli Mitsubishi. Leggur bílsmiðjan mikið upp úr díselbílnum þar sem tveir af hverjum þremur bílum sem seldir eru í sama stærðarflokki eru díselbílar.

Eins og nafnið gefur til kynna, Outlander eða "utangarðsmaður", er bíllinn hannaður og styrktur til aksturs utan hefðbundinna hraðbrauta og borgarbrauta. Kostir hans við slíkar kringumstæður fundust mér ekki eins miklir og fullskapaðs jeppa.

Í stað þess að þróa og smíða eigin díselmótor fyrir Outlanderinn fékk Mitsubishi Volkswagen-verksmiðjurnar til liðs við sig og notast við traustan 2,0 lítra mótor þeirra. Ólíkt fyrri kynslóð jepplingsins er nýi undirvagninn hannaður frá grunni með díselmótor í huga. Er hann 10 sm lengri, 5 sm breiðari og með 5 sm lengra hjólhafi.

Ásamt breyttri uppsetningu léttari en sterkari fjölliða afturfjöðrunar, stærri dempara aftan og framan og tiltölulega stífri yfirbyggingu gerir allt þetta að verkum að bíllinn er mjög stöðugur í akstri, bæði á hraðbrautum, krókóttum þjóðvegum eða utanvegar. Sýndi hann aldrei tilhneigingu til að skríða út að framan í beygjum eða skvetta afturenda.

Sinn þátt í því á rafeindastýrð stöðugleikastýring og rásvörn (ASC) sem heyrir til staðalbúnaðar bílsins. Til að bæta eiginleika bílsins hafa loftkældar diskabremsur að framan og aftan verið stækkaðar. Reyndust þær mjög stöðugar og stigið ákveðið en sérstök rafeindastýring (EBS) sér um að dreifa bremsustyrk milli fram- og afturhjóla með tilliti til hleðslu bílsins og yfirborðs sem ekið er á. Gott er að geta treyst á slíkt á þjóðvegum sem innanbæjar en kom einnig að góðu gagni í utanvegarakstri

Breytingar allar frá fyrri bíl hafa orðið til að bæta aksturseiginleika bílsins. Ný kynslóð millikassa er í honum og rafeindastýrður drifbúnaður. Hann svarar öllum aðgerðum ökumanns vel, bæði hvað varðar mótor og stýri. Hann er sportlegur í meðförum en samt mjúkur í akstri. Þó talsvert ólíkur jeppa í torleiði þar sem ekki er lágu drifi til að dreifa. Þarf við slíkar aðstæður talsverða ákveðni við bensíngjöfina yfir hindranir og upp bratta, annars á bíllinn til að vilja kæfa á sér.

Við inngjöf og kröftugt upptak úr kyrrstöðu reyndist bíllinn ekki hið minnsta hvikull; skilaði sér vel upp á hraða. Á beinum hraðbrautum jafnt sem bugðóttum þjóðvegum lá hann sem steinn á götunni, slíkur var stöðugleikinn og veggripið. Fann maður óþægilega lítið fyrir hraðanum eins og algengt er um nýjustu bíla. Þarf því að fylgjast með hraðamælinum vilji menn komast hjá því að eiga orðastað við umferðalögguna. Hið eina sem gaf til kynna að réttast væri að kíkja á mælana var suð vegna vindnúnings sem mér fannst kannski aðeins of áberandi.

Mælaborðið er nýtt og við þróun þess höfðu hönnuðir Mitsubishi mælaborð ferðamótorhjóla í huga. Hið sama er að segja um stokkinn niður úr borðinu miðju þar sem er að finna hljóðkerfi, stillingar loftræstingar, gírstöng og handbremsu; hann minnir um margt á bensíntank mótorhjóls að lögun. Þar er öllu snyrtilega og haganlega fyrir komið. Yfir öllu er einhver aðdáanlegur ferskleikablær og viss spenna.

Útsýni er gott úr bílnum og þægilega fer um mann í honum. Flutningarými er stóraukið miðað við fyrri bílinn, einkum vegna nýrrar hönnunar boddísins og fyrirkomulags innandyra. Séu sætin aftan framsætis felld niður eykst rýmið úr 1.050 lítrum í 1.690 lítra og úr 400 lítrum í um 800 með 5 sæta innréttingu.

Með einföldum og þægilegum hnapp á miðstokk mælaborðsins er hægt að stilla drifbúnaðinn. Velja má milli drifs að framan eingöngu, fjórhjóladrifs og driflæsingar.

Fyrstnefndu stillingunni fylgir minnst eldsneytisnotkun. Athyglisvert er að með nýju álþaki, sem er 5 kílóum léttara en stálþak forverans, lækkar þyngdarpunktur Outlandersins um einn sentimetra sem skilar sér í betri eiginleikum í beygjum að því leyti til að bíllinn hallast minna í þeim.

Í heildina verður ekki annað sagt en Outlanderinn samsvari sér einkar vel. Léttur og þægilegur í stýri en viðbragðsgóður og stöðugur. Snarpur í akstri og upptaki. Góð tilfinning fylgir því að aka honum, bæði á litlum hraða sem meiri. Það er nánast afþreying. Helstu keppinautar hans eru væntanlega Honda CR-V, Kia Sportage, Land Rover Freelander, Suzuki Grand Vitara og Toyota RAV4.

Að lokum má segja að hér sé á ferðinni lipur borgarbíll og þægilegur ferðabíll. Aflmeiri en forverinn og með betri gírkassa. Í meðförum reyndist þessi fjölnotabíll eins og góður fólksbíll. Og þótt hannaður sé fyrir akstur á torleiðum finnst manni hann of fínlegur til að þjösna honum í torfærum. Fyrirtaksbíll á íslenskum malarvegum og með góðan dráttarkraft en ekki myndi ég tíma að aka svona bíl um hálfgerðar ófærur sem fullsköpuðum jeppa. Áætlað er að Outlanderinn muni kosta um þrjár milljónir á götuna, miðað við 2,6–3,0 milljónir sem núverandi bíll kostar.

agas@mbl.is