Íþróttamaður ársins Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach í Þýskalandi. miðopna
Íþróttamaður ársins Guðjón Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá Gummersbach í Þýskalandi. miðopna — Morgunblaðið/Arnaldur
GUÐJÓN Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá þýska liðinu Gummersbach, var í gær útnefndur íþróttamaður ársins 2006 af Samtökum íþróttafréttamanna.

GUÐJÓN Valur Sigurðsson, handknattleiksmaður hjá þýska liðinu Gummersbach, var í gær útnefndur íþróttamaður ársins 2006 af Samtökum íþróttafréttamanna. Guðjón Valur hlaut 405 atkvæði af 460 mögulegum en íþróttamaður síðustu tveggja ára, Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Barcelona, varð annar í kjörinu með 333 atkvæði. Þriðji varð Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður hjá Ciudad Real á Spáni, með 188 atkvæði, en hann hampaði titlinum tvö næstu ár á undan Eiði Smára, 2003 og 2002.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is

"Þetta er frábært. Í fyrsta lagi að fá að tilheyra svona hópi er heiður og í öðru lagi að fá svona viðurkenningu, þótt ekki væri nema einu sinni á lífsleiðinni, er ekkert nema frábært," sagði Guðjón Valur þegar hann hafði tekið við hinum nýja verðlaunagrip, en sá gamli, sem afhentur var í 50. og síðasta sinn um síðustu áramót, var gefin Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu fyrr í þessum mánuði.

Guðjón Valur, hefur haft í nógu að snúast, með sínu liði í vetur. Hann lék með Gummersbach í þýsku deildinni í fyrrakvöld, kom síðan fljúgandi heim í gær og fer aftur út í dag og leikur síðan síðasta leikinn með Gummersbach á morgun áður en hann heldur aftur heim til Íslands til að halda upp á áramótin. Strax á nýju ári hefst síðan undirbúningur landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í Þýskalandi síðari hluta janúarmánaðar. En hann telur það ekki eftir sér að koma til landsins til að vera viðstaddur verðlaunaafhendinguna, gerði það í fyrra þegar hann varð í öðru sæti, og aftur núna. En grunaði hann ekkert?

"Alls ekki, það hafa samt einhverjir verið að skjóta þessu að mér svona í kringum mann. En mér finnst það bæði ósanngjarnt og lélegt ef maður hugsar þannig. Það eru svo margir frábærir íþróttamenn sem eru tilnefndir þannig að það á enginn að geta gengið að þessari viðurkenningu sem gefinni," sagði Guðjón Valur.

Síðasta ár var viðburðaríkt hjá Guðjóni Vali en lið hans hafnaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar þýsku en það kom þó ekki í veg fyrir að hann yrði valinn besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum og þjálfurum, en venjulegast kemur sá einstaklingur úr meistaraliðinu. Aukinheldur var Guðjón Valur markahæsti leikmaður deildarinnar.