Viðar Halldórsson
Viðar Halldórsson
Viðar Halldórsson fjallar um forvarnargildi íþrótta fyrir ungmenni: "Íþróttafélögin bjóða í vaxandi mæli upp á sérhæfingu fyrir ung börn í ákveðnar íþróttagreinar í stað þess að bjóða upp á fjölbreyttar íþróttir fyrir alla."

FYRIR nokkru var Forvarnardagurinn haldinn hér á landi. Með deginum var m.a. ætlunin að vekja athygli ungmenna, foreldra og forráðamanna á mikilvægi skipulagðs félagsstarfs, eins og íþrótta, til að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu ungs fólks. Með átakinu var einnig lögð áhersla á að hvert ár sem unga fólkið okkar neytir ekki vímuefna skiptir máli.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi hafa um árabil sýnt fram á mikilvægi skipulagðs tómstundastarfs sem forvarna gegn vímuefnum. Þau ungmenni sem ekki taka þátt í slíku starfi eru líklegri til að nota vímuefni en þau ungmenni sem eru virk í hefðbundnu íþrótta- og tómstundastarfi. Því er mikilvægt að unglingarnir okkar stundi skipulagt tómstundastarf sem lengst til að sporna gegn neyslu vímuefna.

Í íþróttastarfinu hafa augun mikið til beinst að brottfalli úr íþróttum. Brottfall er talið stórt vandamál því þau ungmenni sem hætta í skipulögðu íþróttastarfi lenda sum hver í áhættuhóp þeirra sem helst neyta vímuefna. Lausnirnar sem við höfum beint sjónum okkar að hafa sérstaklega litið til þess hvað sé hægt að gera til að halda krökkunum okkar lengur í íþróttum. Hvert ár skiptir máli og því þrýstum við sífellt á þau að vera eitt ár í viðbót í íþróttastarfinu. En með þessum aðferðum erum við ekki að komast að rót vandans. Væri ekki nær að fyrirbyggja brottfall með því að sinna forvörnum gegn brottfallinu sjálfu? Ættum við ekki frekar að reyna að leita leiða til að gera börnunum okkar kleift að finna sinn rétta farveg í íþróttum? Að þau séu að stunda íþróttir á eigin forsendum? Með því móti vinnum við að forvörnum gegn brottfalli úr íþróttum.

Helsti brottfallsaldur úr íþróttum er 12 – 15 ára og helsta ástæða brottfalls er áhugaleysi. Börnin hafa ekki áhuga á að æfa íþróttina sem þau stunduðu. Það er kjarni málsins. Iðkendur eru að stunda íþróttagreinar sem þeir hafa ekki raunverulegan áhuga á að stunda og eðlilega hætta því þátttöku þegar þau sjálf gera sér grein fyrir því.

Það er reynsla undirritaðs sem og margra annarra íþróttaþjálfara að mörg börn eru einmitt að stunda íþróttir sem þau hafa ekki raunverulegan áhuga á. Ætla má t.d. að um þriðjungur ungra pilta sem æfa fótbolta hafi engan sérstakan áhuga á fótbolta. Það eru þessir iðkendur sem mæta verr á æfingar, mæta of seint á æfingar, leggja sig ekki fram á æfingum, taka ekki framförum og ná ekki árangri. Það eru þessir iðkendur sem hætta í íþróttum fyrr en seinna. Þetta er brottfallshópurinn sem við höfum áhyggjur af. Hópurinn sem valdist ekki í rétta íþróttagrein.

En hverjar eru ástæður þess að börnin okkar eru ekki að finna sér íþróttir eða tómstundir við hæfi? Sökin liggur bæði hjá íþróttahreyfingunni sem og okkur foreldrunum. Íþróttafélögin bjóða í vaxandi mæli upp á sérhæfingu fyrir ung börn í ákveðnar íþróttagreinar í stað þess að bjóða upp á fjölbreyttar íþróttir fyrir alla. Börnin flokkast því strax á unga aldri í ákveðna íþróttagrein sem við foreldrarnir viljum svo að þau nái árangri í. Við foreldrar erum svo oft haldin þeirri tálsýn að gera börnin okkar að íþróttastjörnum og teljum í því skyni að sérhæfing á unga aldri sé rétta leiðin til þess. Rannsóknir sýna, þvert á þessar hugmyndir, að ótímabær sérhæfing í íþróttir dregur úr líkum á árangri og eykur brottfall úr íþróttastarfinu.

Til að sporna við brottfalli barna og ungmenna úr íþróttum, og til að sinna öflugu forvarnarstarfi, þurfum við því að skipuleggja íþróttastarf ungs fólks á þann hátt að það séu ekki foreldrarnir, félagarnir, fjölmiðlarnir, þjálfarar hinna ýmsu íþróttagreina eða íþróttafélögin sem segja börnunum okkar hvaða íþróttagrein þau eigi að stunda og sérhæfa sig í frá unga aldri. Áhuginn verður að koma frá þeim sjálfum. Að innan. Börnin eiga sjálf að taka þá ákvörðun þegar þau hafa þroska til. Það gera þau ekki fjögurra ára, eða fimm ára. Þau gera það löngu síðar. Því er mikilvægt að hætta að setja börn í sérhæfðar íþróttagreinar á unga aldri. Íþróttahreyfingin og við foreldrar þurfum að taka höndum saman og bjóða börnunum okkar upp á almennar og fjölbreyttar íþróttir sem gerir þeim kleift að efla hreyfiþroska sinn, prófa sem mest og velja svo þá íþróttgrein eða greinar sem þau hafa virkilegan áhuga á að stunda, á sínum eigin forsendum.

Það er áhuginn og ástríðan sem er lausnin að vandamálinu. Veitum börnunum okkar raunverulegt val til að leggja áherslu á það sem þau sjálf vilja gera í íþróttunum. Afleiðingar þess verða minna brottfall úr íþróttastarfi sem og meiri og betri árangur í öllum íþróttum. Þannig virka íþróttir best sem forvarnir!

Höfundur er sviðsstjóri íþróttafræðasviðs Háskólans í Reykjavík.